Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Fullyrt að efnahagur Breta fari á hliðina og úrsögn geti leitt til þriðju heimsstyrjaldar
Fréttaskýring 6. júní 2016

Fullyrt að efnahagur Breta fari á hliðina og úrsögn geti leitt til þriðju heimsstyrjaldar

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Skoðanakannanir í Bretlandi sýna mikla spennu ríkja milli þeirra sem vilja að Bretland verði áfram fullgilt aðildarríki að ESB og hinna sem vilja að Bretar yfirgefi sambandið. Mjög harður áróður er rekinn af fjölþjóðlegum stofnunum og einstökum ríkjum fyrir áframhaldandi aðild Breta. Samt virðast andstæðingar aðildar hafa verið að styrkja stöðu sína að meðaltali í könnunum undanfarnar vikur.
 
Kosið verður um það 23. júní næstkomandi hvort Bretar vilji vera áfram í ESB eða yfirgefa sambandið. Það er tveim dögum fyrir forsetakosningarnar á Íslandi. Samkvæmt frétt Financial Times í byrjun síðustu viku, þá hafa andstæðingar aðildar (BREXIT-sinnar) verið að vinna á í könnunum mismunandi aðila síðan í september 2015. Frá 24. apríl hafa andstæðingar verið yfir í 7 könnunum af 12 og í einni könnuninni, 29. apríl, var staðan jöfn, 50/50. 
 
Kosningarnar um ESB-aðildina eru samkvæmt loforði sem David Cameron forsætisráðherra gaf í kosningum 2015. Neyddist hann þá til að gefa yfirlýsingu um slíkar kosningar vegna vaxandi þrýstings innan hans eigin flokks, breska íhaldsflokksins. Var það þó ekki síður óttinn við vaxandi áhrif sjálfstæðisflokksins, UKIP, sem hafði gagnrýnt mjög aðild Breta að ESB, sem olli ókyrrð í Íhaldsflokknum. Í könnunum strax eftir hvítasunnu var ekki marktækur munur á þeim sem vilja vera eða fara úr ESB. Allra nýjustu skoðanakannanir eru þó aðildarsinnum örlítið hagstæðari.
 
Athygli hefur vakið að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (International Monetary Fund – IMF) hefur tekið upp harðan hræðsluáróður fyrir veru Breta í ESB. Sömu sögu er að segja af talsmönnum ríkisstjórna nokkurra landa sem og Barack Obama, forseta Bandaríkjanna. Eru þeir þar með að styðja kröfur breskra og annarra evrópskra banka um óbreytta aðild Breta. 
 
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn með bein afskipti af lýðræðislegum kosningum
 
Christine Lagarde, framkvæmda­stjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, bakkaði upp orð Mark Carney, yfirmanns Englandsbanka, á dögunum fyrir áframhaldandi aðild Breta að ESB. Tók Lagarde undir fullyrðingar Carney um að samdráttur geti orðið í Bretlandi í kjölfar úrsagnar úr ESB. Sagði hún einnig að skelfing gæti gripið um sig meðal fjárfesta sem gætu valdið höggbylgjum um allt efnahagskerfið. Það myndi þýða fall verðbréfa og fasteignaverð myndi skrúfast niður í öflugum spíral. 
 
Alþjóðabankinn virðist einnig taka undir þetta og áhyggjur banka og fjármálamanna á Wall Street í Bandaríkjunum yfir mögulegri útgöngu Bretlands úr ESB. Fullyrða þeir að tugir þúsunda starfa geti tapast í fjármálageiranum í London við útgöngu. 
 
Stórfyrirtæki eins og SIEMENS, sem er með umfangsmikla starfsemi í Bretlandi, hafa lagt hart að starfsmönnum sínum að kjósa með áframhaldandi veru Breta í ESB. Þá hefur breska flugfélagið Rayanair hótað að flytja höfuðstöðvar sínar frá Bretlandi og hætta við fyrirhugaðar fjárfestingar í landinu ef Bretar yfirgefi ESB. 
 
Það vekur þó athygli að mitt í öllum þessum hrakspám, þar sem spáð var umtalsverðu falli breska pundsins, þá hefur það verið að styrkjast gagnvart evrunni.
 
Margt líkt með Icesave-deilunni
 
Minnir þetta óneitanlega á hræðslu­áróður alþjóðlegra stofnana gagnvart Íslendingum þegar krafa var gerð af Bretum og Hollendingum um að almenningur á Íslandi tæki á sig að greiða kröfur þessara þjóða á íslenska einkabanka vegna Icesave-skulda. Var sú krafa studd dyggilega af IMF og Evrópusambandinu sem fylgdi málinu eftir fyrir dómstólum þar sem Íslendingar höfðu þó á endanum betur.  Fræg urðu orð þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Gylfa Magnússonar, „Ísland verður Kúba norðursins“. Var það innlegg hans til að hræða Íslendinga til að samþykkja að greiða Icesave-skuldina samkvæmt samningum þáverandi ríkisstjórnar. Þann samning kolfelldi þjóðin á eftirminnilegan hátt í þjóðaratkvæðagreiðslu sem efnt var til fyrir tilstuðlan Ólafs Ragnars Grímssonar forseta. 
 
Örvænting sögð í hópi aðildarsinna
 
Breski atvinnumálaráðherrann, Priti Patel, sagði að ef IMF ætlaði að tala niður breskt efnahagslíf með þessum hætti til þess að Brussel gæti náð yfirhöndinni í fjármálastjórn Bretlands, þá væri sjóðurinn að gera mikil mistök.
 
„IMF, sem fjármagnaður er af ESB, ætti ekki að skipta sér af lýðræðislegum átökum nokkrum vikum fyrir kosningar,“ sagði Patel. Konan sú virðist því ekki vera par hrifin af ráðabruggi forsætisráðherra síns með framkvæmdastjóra IMF.
 
„Það virðist vera að breski forsætisráðherrann sé að taka út greiða hjá frú Lagarde í viðleitni til að hvetja IMF til að níðast á breskum almenningi. – Þetta er merki um að örvænting sé komin í þeirra baráttu,“ bætti Patel við. 
 
Cameron hræðir Breta og spáir þriðju heimsstyrjöld við „Brexit“
 
Það var sannarlega örvænting hjá David Cameron í ræðu í miðborg Lundúna í byrjun maí. Þá varaði hann við því að ef Bretar yfirgæfu ESB þá gæti það leitt til þriðju heimsstyrjaldarinnar. 
 
Það verður þó að teljast miklu líklegra að vandræði ESB út af opnun Þjóðverja á landamærum sínum fyrir flóttamenn frá Sýrlandi og Afríku geti hleypt af stað átökum. Vísir að slíkum átökum vegna flóttamannastraums er þegar fyrir hendi víða um Evrópu. Búið er að loka landamærum margra ESB-ríkja vegna flóttamannastraums og í raun er Schengen-samstarfið vart orðið nema orðin ein. Þá má nefna átök í Þýskalandi, hryðjuverkaárásir í Frakklandi og Belgíu. Svíar, sem tekið hafa við gríðarlegum fjölda flóttamana á liðnum árum, hafa heldur ekki farið varhluta af þessum vanda. Þar eru nú tugir hverfa í fjölmörgum borgum sem lögregla og sjúkralið veigrar sér við að fara inn í af ótta við skotárásir og handsprengjur. Á dögunum bárust fréttir af því að komið hafi verið í veg fyrir vopnasendingu til óskilgreindra glæpamanna í Svíþjóð sem innihélt að sögn m.a. flugskeyti. 
 
Trúarbragðaágreiningur blandast inn í baráttuna
 
Bretar hafa mjög ­gagnrýnt stefnu Angelu Merkel Þýska­landskanslara í þessum málum og er það talinn einn angi vaxandi andstöðu Breta við ESB.
 
Ótti við múslima og hryðjuverkamenn sem gefa sig út fyrir að starfa í nafni íslam fer einnig vaxandi. Virðist það m.a. hafa áhrif á þá Breta sem vilja efla eigin landamæravörslu þvert á stefnu ESB um opin landamæri. Einn angi af þessu er að sjónvarpsstöðin SKY greindi frá því á þriðjudag í síðustu viku að hafin væri rannsókn á starfsemi nokkurra einkarekinna skóla múslima í London. Ástæðan er sú að þeir innræti sínum nemendum að sniðganga bresk lög en tileinka sér eingöngu svokölluð Sharialög bókstafstrúarmanna. Sjónvarpsstöðin TV 2 í Danmörku var með frétt af svipuðum toga fyrir nokkru vegna kennslu múslima í moskum þar sem sömuleiðis var lagt að fólki að sniðganga dönsk lög. Hefur þetta verið sem olía á eld vaxandi tortryggni í garð fólks sem hafa múslimskar trúarskoðanir en reynir að lifa friðsömu lífi í vestrænum ríkjum. Hefur slík umræða um leið verið vatn á myllu nýnasistahreyfinga og annarra öfgahópa í Þýskalandi, Frakklandi, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og víðar um Evrópu. 
 
Líkti ESB við tilraun Hitlers til að sameina Evrópu
 
Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóri í London, sem hefur verið leiðandi persóna í baráttunni fyrir „BREXIT“, þykir hafa gengið nokkuð langt í samlíkingum ESB við nasistaríki Hitlers. Sagði hann m.a. í viðtali við Sunday Telegraph að Evrópusambandið væri tilraun til að enduruppgötva gullöld sameinaðrar Evrópu. Það hafi Rómverjar líka reynt sem og Napóleon og Hitler og allt hafi það endað með hörmungum. Bætti hann þó við að aðferðafræði ESB væri vissulega önnur. 
 
Drottningin sögð styðja útgöngu
 
Það er þó fleira þungavigtarfólk en breskir stjórnmálamenn sem styður líka úrsögn Breta úr ESB. Þannig sló breska blaðið The Sun því upp á forsíðu í mars að sjálf drottningin yfir Bretlandi styddi „BREXIT“. Haft var eftir henni í blaðinu að ESB væri á rangri braut. 
 
Engin „tilfinningaleg sulta“ hjá Barack konungi
 
Afskipti Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, af kosningunum í Bretlandi hafa líka farið fyrir brjóstið á mörgum Bretum. Þannig hæddist aðgerðar­sinn­inn og bloggarinn Tim Montgomerie að þessum afskiptum Bandaríkjaforseta í grein í The Spectator. Kallaði hann Bandaríkjaforseta konung og sagði:
 
 „Enginn getur sagt að Donald Trump skorti sjálfsálit, en sjálfsálit milljónamæringsins er þó tilfinningaleg sulta í samanburði við Barack konung.“ Sagði Tim Montgomerie einnig að þessi Brexit-yfirkeyrsla Obama sé dæmigerð fyrir hans hroka.
 
„Hann hefur ekki gullslegna þyrlu herra Trump, einkaþotu, „penthouse“-íbúð eða einkasnekkju. Þegar kemur að sjálfshólinu og að hreykja sér hátt, þá getur enginn unnið hann.“
 
Þá sagði Montgomerie að ferðalag Obama þvers og kruss um ESB-löndin hafi ekki verið nein tilviljun. Það sé löng hefð fyrir því á alþjóða vísu að þjóðhöfðingjar fari ekki í heimsóknir á meðan kosningaslagur er í hámarki. Hins vegar þurfi breski forsætisráðherrann að toga í alla spotta sem hann nær í sér til stuðnings eins og frá framkvæmdastjóra IMF. Heimsókn Baracks konungs hafi því verið í þeirra huga besta „plöggið“ sem hugsast gat. Þetta hafi hins vegar fallið í grýttan jarðveg hjá almenningi Í Bretlandi.  
 
Gæti ekki síður orðið til góðs 
 
Það hriktir greinilega í Evrópu­sambandinu yfir hugsanlegri útgöngu Breta. Bretar hafa það þó með sér að þeir eru enn með sinn sjálfstæða gjaldmiðil, sem ætti að auðvelda þeim mjög útgönguna. Hvaða áhrif það hefur á staðnað efnahagslíf ESB-ríkjanna og evruna sem gjaldmiðil skal ósagt látið. 
 
Ólíklegt er að allar hrakspárnar rætist, þvert á móti telja sumir að Bretum muni farnast mun betur utan ESB. Á hvorn veginn sem fer mun það hafa áhrif á íslenskt efnahagslíf. Viðskipti Íslendinga við ESB-ríkin eru vissulega gríðarlega mikilvæg, en sömuleiðis við Bretland. Hugsanlega gætu Íslendingar hagnast á úrsögn Breta og mögulegum nánari tengslum þeirra við Norðurlandaþjóðirnar og aðrar EFTA-þjóðir.
Afleiðingin gæti orðið endurbætt eða nýtt viðskiptabandalag þeirra ríkja. Allavega er meirihluti breskra bænda ekki í vafa um kosti þess að yfirgefa Evrópusambandið. 
 
Bretland hættir ekki að vera til
 
Eitt er víst, Bretland hættir ekki að vera til með sínar 64,7 milljónir íbúa við mögulega útgöngu úr ESB. Tíminn mun heldur ekki stöðvast og jörðin heldur áfram að snúast í kringum sólina. Þeir sem veðja á að fjárfesta í gulli geta þó allavega glaðst, því samkvæmt Saxo Bank A/S í Danmörku eru BREXIT-kosningarnar í Bretlandi þegar farnar að hafa áhrif til hækkunar á gullverði sem og væntanlegar forsetakosningar í Bandaríkjunum. Hefur gullverð hækkað á skömmum tíma um 20%.
 

Um eða yfir 60% breskra bænda vilja að Bretland yfirgefi ESB

Í nýlegri könnun segist yfirgnæfandi hluti ungra bænda í Bretlandi, eða 62%, munu kjósa með því að Bretland yfirgefi ESB í kosningunum 23. júní. Í könnun sem gerð var í apríl sögðust 58% allra bænda í Bretlandi vera sömu skoðunar.
 
Í skoðanakönnun sem breska bændablaðið Farmers Weekly lét gera á fundi félagsmanna í klúbbi landssamtaka ungra bænda (National Federation of Young Farmers’ Clubs’ – NFYFC), var afstaðan afgerandi. Þar sögðust 405, eða 62%, vilja að Bretland gengi úr ESB, en 251, eða 38%, vildu að landið yrði áfram í sambandinu. Þeir sem vildu að Bretar yrðu áfram í ESB sögðust einkum óttast óvissuna um hvað gerðist við útgöngu. Þá kom einnig fram í afstöðu þeirra sem vilja vera áfram í ESB að samstöðu skorti meðal breskra bænda til að standa á rétti sínum líkt og franskir bændur eru þekktir fyrir að gera. 
 
Þeir sem voru meðmæltir brottgöngu úr ESB (BREXIT) sögðu aftur á móti að útgangan myndi skapa ný tækifæri í breskum landbúnaði. Það myndi auðvelda framþróun og vöxt í greininni. Einkum myndi það auðvelda ungum bændum að hefja búrekstur miðað við það sem er undir landbúnaðarkerfi ESB (CAP). 
Aðrir þættir er bændur segja að styðji útgöngu er að innleiðing reglugerða frá ESB sé oft í andstöðu við breska hagsmuni. Þá muni útganga opna viðskiptatækifæri fyrir breska bændur á alþjóðavísu. Þá segja breskir bændur að þeir njóti mun lélegri kjara í styrkjakerfi ESB en bændur í mörgum öðrum löndum. Við brotthvarf úr ESB telja breskir bændur sig í mun betri samkeppnisstöðu við að keppa við innflutning en nú er. Þá segja breskir bændur að CAP-kerfið sé mjög ósanngjarnt og hygli einkum lélegum bændum. Við útgöngu muni breskir bændur fá aukið frelsi og hafa möguleika á ný til að móta eigin stefnu í landbúnaðarmálum.
 
Í annarri könnun sem Farmers Weekly lét gera í apríl meðal breskra bænda í heild kemur fram svipuð afstaða, en andstaðan virðist þó vera að aukast. Í þeirri könnun vildu 58% breskra bænda að landið yfirgæfi ESB en aðeins 31% vildu vera þar áfram.  
 
Breskir bændur spyrja sig m.a. þeirrar spurningar að ef áframhaldandi aðild verður ofan á, hvernig eigi þá að tryggja að ákvarðanir í landbúnaðarmálum verði byggðar á vísindalegri þekkingu en ekki eingöngu á viðskiptalegum forsendum. Hvort hægt verði að treysta því að Evrópuráðið framfylgi stefnu um að gera breskan landbúnað samkeppnishæfari. Einnig hvort hægt verði að treysta því að landbúnaðarstefna CAP verði áfram við lýði sem hluti af meginstefnu ESB. 

 

12 myndir:

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...