Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fáni sjóræningja blaktir við hún.
Fáni sjóræningja blaktir við hún.
Fréttaskýring 10. febrúar 2020

Grimmileg meðferð gísla og gríðarlegt fjárhagstjón

Höfundur: Kjartan Sterfánsson

Árið 2018 voru framin um 200 sjórán í heiminum stór og smá. Efnahagslegur kostnaður vegna sjórána skiptir milljörðum dollara á ári. Þúsundir sæfarenda verða fyrir barðinu á ræningjum árlega og tugir látast.

Rúmlega 50 þúsund kaupskip sigla um heimshöfin ár hvert og annast um 80% af öllum vöruflutningi. Fyrir utan óblíð veður steðjar margvísleg hætta að þessum skipum. Þau gætu siglt inn á átakasvæði eða lent í klónum á sjóræningjum, jafnt á hafi úti sem í höfn.

Ógn frá því siglingar hófust

Sjóræningjar hafa ógnað sæfar­endum frá því siglingar hófust. Fornar sagnir eru um sjórán við Kína og í Miðjarðarhafinu. Jafnvel stríðshetjan Júlíus Sesar mátti sæta því að verða numinn á brott af sjóræningum frá Sikiley. Lausnargjald fyrir hann nam meira en hálfri milljón dollara á verðlagi dagsins í dag, sem jafngildir um 185 milljónum íslenskra króna.

Sjóræningjar við strendur Afríku handteknir.

Ef við lítum okkur nær þá lögðust margir norrænir menn í víking og hjuggu strandhögg víða um lönd. Ef trúa má Íslendingasögum þá voru jafnvel dæmi þess eftir að Ísland byggðist að mæður hvöttu syni sína til að fara í víking og höggva mann og annan! Strandbyggðir hafa lengi orðið fyrir árásum sjóræninga og eru Tyrkjaránin á Íslandi dapurlegt dæmi um það.

Um 200 sjórán árið 2018

Sjóræningjar heyra síður en svo sögunni til. Þeir eru enn á ferðinni. Undirstofnun Alþjóða­viðskiptaráðsins, sem nefnist International Maritime Bureau, skráir upplýsingar um nútíma sjórán og birtir skýrslur um þau. Þar eru öll atvik skráð sem vitað er um hvort sem um er að ræða rán á skipum og mannskap, þjófnaði um borð eða tilraunir til árása.

Síðustu árin hefur sjóránum fækkað en þegar sómalskir sjóræningjar voru hvað skæðastir á árunum 2009 til 2011 voru skráðar meira en 400 árásir á ári í heiminum, flestar áttu sér stað undan ströndum Sómalíu. Samkvæmt IMB voru framin 243 sjórán árið 2014. Þau voru komin niður í 180 árið 2017. Þeim fjölgaði aftur og fóru upp í 201 rán árið 2018. Heildartala fyrir árið 2019 liggur ekki fyrir en ljóst þykir að ránum hafi fækkað aftur frá árinu 2018.

Gíneuflóinn viðsjárverðastur

Sjóræningjar þrífast helst í löndum sem eru efnahagslega veik og fátæk. Flestir þeirra hafa aðeins yfir litlum bátum að ráða en sumir þeirra hafa býsna þróaðan búnað, bæði skip og vopn, og eru í vel skipulögðum glæpaklíkum. Sjórán verða einkum þar sem siglingaleiðir eru þröngar eða í höfnum þar sem löggæsla er léleg.

Sómalskur sjóræningi vel vopnum búinn horfir til hafs. Vegna alþjóðlegra varnaraðgerða hefur verulega dregið úr sjóránum við Sómalíu síðustu árin.

Malakkasund hefur lengi verið hættulegasta svæðið í Asíu. Sjóræningjar frá Indónesíu eru þar fremstir í flokki. Adenflói við Austur-Afríku er heimavöllur hinna illræmdu sómölsku ræningja. Sjóræningjar frá Nígeríu hafa seinni árin sótt í sig veðrið og nú er Gíneuflói við vestanverða Afríku talinn vera viðsjárverðasta svæðið í heiminum fyrir sæfarendur, hvort sem um er að ræða rán á skipum, skotbardaga eða töku gísla sem hafðir eru í haldi þar til lausnargjald hefur verið greitt.

Alþjóðlegar varnaraðgerðir hafa skilað þeim árangri að sjóránum við Sómalíu hefur snarfækkað. Af skráðum sjóránum árið 2018 voru langflest við Nígeríu, eða 48 að tölu. Indónesía kemur þar á eftir með 36 rán. Flest rán við Suður-Ameríku eru framin við Venesúela. Skipting á heimsálfur er þannig að 87 rán voru við Afríku, 60 við Suðaustur-Asíu og 29 í Karíbahafi og við Suður-Ameríku.

Allar tegundir skipa

Öll skip geta átt von á því að verða fyrir árás, jafnt skemmtiferðaskip, flutningaskip sem fiskiskip. Það eru einkum skip sem flytja þungavöru hvers konar sem hafa verið skotspónn ræningja. Árið 2018 urðu 59 slík skip fyrir árás eða tilraun til árása. Flest skipin sem ráðist var á voru skráð á Marshall-eyjum, Singapúr og Panama.

Algengustu atvikin eru þannig að ræningjar lauma sér um borð í skip sem liggja fyrir ankerum og láta þar greipar sópa. Farið var um borð í 143 skip og stolið hluta af farmi eða verðmætum frá áhöfn, 6 skipum var rænt og stjórn þeirra tekin yfir, skotið var á 18 skip en 34 árásum var hrundið. Í þessum ránum árið 2018 var 141 maður tekinn fastur og 83 mönnum var haldið í gíslingu.

Barsmíðar, pyntingar og dauði

Sé litið til ársins 2017 þá höfðu sjóránin áhrif á um 5.600 sæfarendur, mismikið eftir atvikum. Hrikalegustu sögurnar eru af þeim sem teknir voru fastir og haldið í gíslingu þar til lausnargjald fékkst greitt. Helmingur gísla verður fyrir einhvers konar barsmíðum og 10% sæta miklu ofbeldi eða pyntingum. Þeir hafa til dæmis verið lokaðir inni í frystigeymslum, brenndir með sígarettuglóð og neglur dregnar af fingrum. Árið 2017 voru 19 gíslar drepnir eða höfðu dáið í vörslu ræningja. Sum árin er tala látinna mun hærri.

Rúm fjögur ár í gíslingu

Mörg dæmi er hægt að taka um þjáningar þeirra sem orðið hafa fyrir barðinu á sjóræningjum síðari tíma. Saga áhafnarinnar á fiskiskipinu Naham 3 er sérstaklega átakanleg. Skipið var að veiðum árið 2012 þegar sómalskir sjóræningjar réðust á það og lögðu undir sig.

Í áhöfn voru 29 manns, meðal annars frá Kína, Víetnam og Filippseyjum. Mennirnir voru fluttir til Sómalíu þar sem þeim var haldið föngnum í eyðimörkinni. Ræningjarnir kröfðust hárrar fjárhæðar í lausnargjald.

Áhöfnin sagði síðar að gíslunum hefði oft verið misþyrmt og þeir hefðu lagt sér til munns rottur og skordýr til að halda sér lifandi. Tveir dóu af veikindum og einn var skotinn til bana. Eftir fjögur og hálft ár sættust ræningjarnir á mun lægra lausnargjald en krafist var og gíslunum var sleppt. Þeir höfðu þá verið 1.672 daga í haldi við ömurlegar aðstæður.

275 milljarða króna kostnaður 2017

Auk mannlegra þjáninga hlýst mikill kostnaður af sjóránum og aðgerðum til að verjast þeim. Alþjóðlegur aðili, Ocean Beyond Piracy, tekur saman og metur efnahagslegan kostnað vegna sjórána. Að mati OBC nemur hann í heild að minnsta kosti hátt í þriðja milljarð dollara, að jafnvirði um 275 milljarða íslenskra króna árið 2017. Tjón vegna sjórána í heiminum hefur lækkað. Fyrir tæpum áratug var heildarkostnaður vegna sjórána metinn á um allt að 12 milljörðum dollara, sem eru um 1.475 milljarðar íslenskir.

Aðeins lítill hluti þessa kostnaðar árið 2017 er stolnar vörur eða annað þýfi. Meginkostnaðurinn liggur oftast í öryggisgæslu, bæði á vegum opinberra aðila, alþjóðlegra samtaka og skipafélaga. Athygli vekur að verulegur hluti útgjalda vegna sjórána við Sómalíu er olíukostnaður skipa sem þurfa að auka siglingahraðann til að vera sem stystan tíma inni á hættusvæði.

Mestur kostnaður við Sómalíu

Kostnaði við sjórán er skipt niður á einstök svæði og er hann mestur við Austur-Afríku, nánar tiltekið við Sómalíu, þrátt fyrir fækkun rána á því svæði. Heildarkostnaður þar er metinn á um 1,4 milljarða dollara, um 173 milljarðar íslenskir. Þar á eftir kemur Vestur-Afríka með um 818 dollara, um 108 milljarða íslenska.

Í gögnum OBC kemur fram að varningi að verðmæti 6,3 milljónir dollara var stolið úr skipum í Asíu og annar kostnaður þar hafi verið 23 milljónir dollara. Í Suður-Ameríku og Karíbahafi var stolið varningi að verðmæti 949 þúsund dollarar. Nánari upplýsinga um Asíu og Suður-Ameríku eru ekki tíundaðar. Þótt kostnaður vegna sómalskra sjóræningja sé verulegur hefur hann lækkað umtalsvert. Árið 2010 var fjárhagslegt tjón vegna þeirra metið á um 7 milljarða dollara, 865 milljarða íslenska, en var komið niður í 1,4 milljarða dollara árið 2017 eins og áður getur.

Háar fjárhæðir í lausnargjald

Opinberir aðilar og skipafélög eru ekki að flíka því hve mikið er greitt í lausnargjald fyrir skip eða áhafnir. Talið er að slíkar upplýsingar geti ýtt undir sjórán. Þó rataði það í fréttirnar fyrir áratug eða svo að greiddar voru 9,5 milljónir dollara, tæpir 1,2 milljarðar íslenskra króna, fyrir að endurheimta olíuskip frá Kóreu úr höndum ræningja. Var það hæsta lausnargjald sem greitt hafði verið fram til þess tíma. Það fylgdi fréttinni að í heild hefðu skipafélög í heiminum greitt 415 milljónir dollara samanlagt, rúma 50 milljarða íslenska, í lausnargjald árin 2009 og 2010. Taka skal fram að þetta var á þeim árum sem sómalskir ræningjar létu hvað mest til sín taka.

Íslenskt skip á sjóræningjaslóðum

Sem betur fer eiga íslensk skip sjaldan leið um sjóræningjaslóðir en þó kemur það fyrir. Togbátnum Skinney SF var siglt nýsmíðuðum frá Taívan til heimahafnar í Hornafirði í mars 2009. Farið var meðal annars um Malakkasund og gekk sú sigling vel en sjóræningjar réðust á skip sem var þar samhliða Skinney um tíma. Þegar komið var í Adenflóa milli Sómalíu og Yemen söfnuðust nokkur skip þar saman og sigldu svo áfram í fylgd herskips en þyrla sveimaði yfir. Svo mikil hætta var talin vera á ferðum að skipin ásamt herskipinu máttu sigla ljóslaus um nóttina til að vekja ekki athygli ræningja.

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver
Fréttaskýring 30. desember 2024

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver

Stefnt er að stofnun rekstrarfélags á næstunni utan um starfsemi á lífgas- og áb...

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...