Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Shenzhen East-verkefnið í Guangdong-héraði í Kína snýst um að setja upp 165 megawatta orkuver. Þetta verður ein stærsta sorporkustöð heims þegar hún verður fullbúin á næsta ári. Verið mun geta brennt 5.600 tonn af föstum úrgangi frá sveitarfélögum á svæði
Shenzhen East-verkefnið í Guangdong-héraði í Kína snýst um að setja upp 165 megawatta orkuver. Þetta verður ein stærsta sorporkustöð heims þegar hún verður fullbúin á næsta ári. Verið mun geta brennt 5.600 tonn af föstum úrgangi frá sveitarfélögum á svæði
Fréttaskýring 27. desember 2019

Háþróaðar sorporkustöðvar koma í stað mengandi urðunar á sorpi

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Kínverjar eru með stórtækar fyrirætlanir í sorpeyðingu og við að umbreyta sorpi í orku. Þar er m.a. ný sorporkustöð í byggingu við Shenzhen-borg norður af Hong Kong sem á að verður ein stærsta sorporkustöð í heimi. Hún á að brenna um 5.600 tonnum af sorpi á sólarhring og umbreyta því í hita- og raforku.

Á sama tíma er borgin að niðurgreiða meðferðarstöðvar fyrir veitingastaðaúrgang. Víðs vegar um Kína eru meira en 50 slíkar verksmiðjur, sem nota örverur til að brjóta lífræn efni niður í áburð og lífgas sem notað er til að framleiða orku til upphitunar.

Shenzhen East-sorporkustöðin er á svæði sem spannar yfir 1,3 milljónir fermetra.

Hönnun sorporkustöðvar Shenzhen East þykir vera til mikillar fyrirmyndar og í hópi hönnuða er margverðlaunað lið arkitekta. 

Stefnuleysi virðist ríkja í losun úrgangs á Íslandi

Á Íslandi hefur engin ákveðin stefna verið mótuð í þessum efnum og sérkennileg pólitísk feimni og hræðsla virðist ríkjandi varðandi það að eyða sorpi með bruna. Á Suðurlandi hafa menn glímt við þennan vanda og fyrirséð að flutningur á sorpi til urðunar í landi Reykjavíkur í Álfsnesi verður ekki í boði til frambúðar. Helst hefur verið nefnt að flytja sorpið út í staðinn til förgunar með skipum með tilheyrandi kostnaði og kolefnisspori. Menn eru þó smám saman að átta sig á aðrar og mun umhverfisvænni lausnir eru vel þekktar sem skynsamlegt gæti verið að taka upp hér á landi. Hreinn bruni á sorpi við háan hita er t.d. umhverfisvænni leið til að losa sig við sorp en að láta það rotna í jarðvegsfyllingum. Slíkt er t.d. gert í sorpeyðingarstöð Kolku við Helguvík í Reykjanesbæ, en slæm reynsla af mislukkuðum sorpbrennslustöðvum, eins og á Ísafirði og á Kirkjubæjarklaustri, hafa fælt fólk frá frekari tilraunum í þessa átt.

Amager Bakke-sorporkustöðin í Kaupmannahöfn. 

 

Tæknin er vel þekkt

Frændþjóðir okkar, Svíar, Danir og Norðmenn, hafa fyrir löngu uppgötvað þennan möguleika og hafa um áratuga skeið verið að þróa og starfrækja sorporkustöðvar. Þannig hefur talsvert af úrgangsefnum verið flutt frá Íslandi til Svíþjóðar í fjölda ára undir yfirskini endurvinnslu, en í raun verið nýtt að stórum hluta sem eldsneyti fyrir sorporkustöðvar. Hér í Bændablaðinu hefur m.a. verið fjallað um nýja hátæknilega sorporkustöð á Amager í Kaupmannahöfn. Einnig hugmyndir manna um að byggja stóra sorporkustöð á Vestfjörðum.

Risasorporkustöð byggð í Kína með danskri tækni

Sama fyrirtæki og hannaði Amager Bakke sorporkustöðina í Kaup­manna­höfn, danska fyrirtækið Babcock & Wilcox Vølund (B&W Vølund), hefur komið víða við á sínum ferli. Fyrirtækið var stofnað 1898, en hannaði sína fyrstu sorporkustöð árið 1930 og var hún reist í Gentofte í Danmörku árið 1931. Hófst síðan útflutningur á þessari tækni árið 1934. Hefur B&W Vølund verið leiðandi á þessu sviði allar götur síðan.

Hafa sérfræðingar fyrirtækisins m.a. hannað yfir 500 endurvinnslustöðvar í 30 löndum og því ekki skrítið að Kínverjar hafi leitað til þessa fyrirtækis eftir samstarfi við að leysa sitt gríðarlega sorpvandamál.

Skartar margverðlaunuðum snillingum á öllum sviðum

Í október 2007 kom fyrirtækið Babcock & Wilcox Vølund inn á kínverskan markað og kynnti sína lausn við byggingu sorporkustöðva. Var síðan gerður samningur árið 2015 um að kínverska fyrirtækið China Sciences Group Holding fengi heimild til að nýta tækni B&W Vølund. Nú er bygging sorporkustöðvarinnar Shenzhen East langt komin en verkefnið felur í sér hönnun og skipulagningu af miklum metnaði á svæði sem er yfir 1,3 milljónir fermetra. Arkitektarnir á bak við þetta mikla verkefni eru Schmidt Hammer Lassen Architects og Gottlieb Paludan Architects. Hefur verkefnið þegar unnið til alþjóðlegra verðlauna, eða IDEAT Vision Award, 2019. Schmidt Hammer Lassen Architects hafa unnið til fjölmargra verðlauna fyrir störf sín í Asíu. Eru þeir þekktir fyrir innleiðingu á skandinavískum  byggingarstíl. Gottlieb Paludan Architects hafa líka áður unnið til verðlauna í tæknilausnum eins og Nykredit Architecture Prize, sem eru helstu arkitektaverðlaunin í Danmörku.

Vaxandi sorpvandi samfara aukinni velmegun í Kína

Þrjátíu ára ára efnahagslegur uppsveifla í Kína og bætt lífskjör hafa leitt til aukningar í úrgangi frá þéttbýli. Kína er nú stærsti framleiðandi rusls í heiminum eftir að hafa farið fram úr  Bandaríkjunum í þeim efnum árið 2004. Kínverjar hafa einnig verið leiðandi í úrvinnslu á innfluttum úrgangsefnum. Í hlutum Kína hefur sorpsöfnun og innflutningur á plasti og öðrum úrgangi, m.a. frá Vesturlöndum, skilið eftir arfleifð jarðvegs og loftmengunar. Eftir því sem landið verður ríkara er vaxandi þrýstingur á að hreinsa til.

Kínverjar reyna að finna lausn á eyðingu 280 milljóna tonna af sorpi á ári

Kínverskt samfélag skilur eftir sig meira en 280 milljónir tonna af úrgangi á ári, samkvæmt opinberum gögnum. Um það bil 60 prósent af þessu sorpi er enn urðað. Það sem eftir er fer til brennslu eða í lífefnafræðilega meðhöndlun. Þar sem engin merki eru um að það dragi úr þéttbýlismyndun, né að það dragi úr aukningu velmegunar, þá má búast við að úrgangur haldi áfram að aukast verulega. Þannig stefnir í mikið óefni ef ekkert er að gert.

Kínverjar hófu „No-Waste City“ áætlun sína í desember 2018, sem miðar að því að hvetja til endurvinnslu í 10 borgum. Tilraunaverkefnið felur í sér að hverfa frá urðun og fara í hættuminni aðferðir fyrir umhverfið við sorpeyðingu.

Söfnun á metani úr úrgangi er ein leið í áætlun Kínverja sem er reyndar ekki ný af nálinni í þessu fjölmennasta landi heimsins. Með því hafa menn séð leið til að draga úr loftmengun jarðar og hjálpa um leið við að fullnægja vaxandi eftirspurn eftir orku í landinu.

Á þaki Shenzhen East-sorporkustöðvarinnar verða sólarsellur sem framleiða rafmagn og allt um kring verður gangbraut fyrir ferðamenn til að njóta útsýnisins. 

165 megawatta sorporkustöð sem á að skila 550 milljónum kwst af rafmagni á ári

Shenzhen East-verkefnið í Guang­dong-héraði í Kína snýst um að setja upp 165 megawatta orkuver. Þetta verður ein stærsta sorporkustöð heims þegar hún verður fullbúin. Verið mun geta brennt 5.600 tonnum af föstum úrgangi frá sveitarfélögum á sólarhring.

Það er Shenzhen orku-umhverfisverkfræðifyrirtækið á Shenzhen sem stendur fyrir þessu verkefni. Verksmiðjan mun geta unnið um það bil þriðjung af árlegum föstum úrgangi sveitarfélagsins í Shenzhen og framleitt 550 milljónir kWst af rafmagni á ári. Shenzhen, með 20 milljónir íbúa, framleiðir um það bil 15.000 tonn af föstum úrgangi á dag, sem búist er við að muni aukast um 7% á ári.

Hönnun verksmiðjunnar hófst snemma árs 2016 og áætlað er að hún verði gangsett á næsta ári, þ.e. 2020.

Mjög fullkomið brennslukerfi

Nýja sorporkustöð Shenzhen East mun nota brennslukerfið sem hannað er af Babcock & Wilcox. Það felur í sér einhverja fullkomnustu tækni í sorpbrennslu og orkuvinnslu sem til er. Í verksmiðjunni mun verða sex DynaGrate brunakerfi sem hönnuð eru af  Babcock & Wilcox, en fyrirtækið eignaðist þetta vörumerki árið 2001. Þar mun vera um að ræða háþróaða útgáfu af Bruun & Sørensen orkutækni sem býður upp á framúrskarandi afköst með lágum viðhaldskostnaði.

Kerfið gerir mönnum kleift að afgreiða allt að 55 tonn af úrgangi á klukkustund. Búnaðurinn verður framleiddur í framleiðsluaðstöðu B & W í Esbjerg í Danmörku og síðan fluttur til Kína í 48 hlutum og settur saman aftur undir eftirliti leyfishafa.

Nýta þakið líka til raforkuframleiðslu

Þak stöðvarinnar mun mæla 66.000 fermetra. Þar af verða allt að 44.000 m² þaktir með sólarsellum til að framleiða endurnýjanlega orku fyrir starfsemina. Aðstaðan mun einnig innihalda upplýsingamiðstöð fyrir gesti og útsýnispall á þaki sem er í raun 1,5 kílómetra löng göngubraut. Umhverfi stöðvarinnar verður líka mjög vistvænt og nýtt til útivistar.

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...