Heildarhagsmunir í húfi
Svandís Svavarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur skipað starfshóp til að fjalla um blóðtöku úr fylfullum hryssum til framleiðslu henni tengdri.
Fulltrúi ráðuneytisins mun leiða vinnuna en ráðherra mun óska eftir tilnefningum í starfshópinn frá Matvælastofnun og frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Starfshópnum verður falið að skoða starfsemina, regluverkið í kringum hana og eftirlit, auk þess að skoða löggjöf og mögulega framkvæmd slíkrar starfsemi erlendis.
Samkvæmt tilkynningu verður fundað með hagaðilum auk þess sem almenningi mun gefast kostur á að tjá sig um störf og tillögur hópsins á Samráðsgátt stjórnvalda þegar þær liggja fyrir.
Afhenda ekki óklippt efni
Skipun starfshópsins kemur í kjölfar gríðarmikillar umfjöllunar um starfsemi blóðmerarbúskapar og framleiðslu á hormónaefninu PMSG eftir að myndband, gefið út af dýraverndarsamtökunum AWF/TSB, sýnir vinnubrögð við blóðtöku sem virðast stangast á við starfsskilyrði Matvælastofnunar.
MAST hefur nú myndefnið til rannsóknar en dýraverndarsamtökin hafa gefið það út að þau munu ekki afhenda stofnuninni óklippt efni. Segjast aðstandendur samtakanna, í opnu bréfi, vera reiðubúin til samstarfs við ríkissaksóknara hefji hann rannsókn á starfseminni.
Félag hrossabænda fagnar starfshópi
Félag hrossabænda sendi Svandísi Svavarsdóttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra áskorun um að skoða heildarhagsmuni hrossaræktar og hestatengdrar starfsemi í tengslum við vinnu starfshóps um blóðtöku úr fylfullum hryssum.
Í ályktun FHB er því fagnað að ráðherra hafi skipað starfshóp til að fjalla um blóðmerarstarfsemina. Það bendir á umfangsmikla starfsemi íslenska hestsins um heim allan.
„Hrossarækt og hestamennska er umfangsmikil atvinnugrein hér á landi sem teygir anga sína víða og má þar nefna ræktun og sölu reiðhesta sem nýtast til almennra útreiða, kynbóta og keppni.
Útflutningur hefur aukist verulega á síðustu árum og á þessu ári stefnir í að met verði sett í fjölda útfluttra hrossa, eða yfir 3.000 hross. Umfangsmikið og markvisst markaðsstarf hefur verið unnið á undanförnum árum undir merkjum Horses of Iceland. Verkefnið er í höndum Íslandsstofu en helstu bakhjarlar þess eru íslenska ríkið, ýmis félagasamtök um íslenska hestinn, innanlands sem og erlendis, auk margra fyrirtækja sem hafa hagsmuni af þeirri margháttuðu starfsemi sem tengist íslenska hestinum.
Hestatengd ferðaþjónusta er jafnframt umfangsmikil atvinnugrein og víða nátengd annars konar ferðaþjónustu. Reiðmennska og hestamennska er kennd í tveimur háskólum og nokkrum framhaldsskólum landsins. Fjölda starfsgreina og afleiddra starfa má tengja tilvist íslenska hestsins og að mati fundarins ljóst að miklir og víðtækir hagsmunir eru í húfi,“ segir í ályktuninni.
Frumvarp um bann á borði Alþingis
Inga Sæland, þingmaður og formaður Flokks fólksins, mælti fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um velferð dýra sem felur í sér bann á blóðtökum úr fylfullum hryssum.
Átta þingmenn flytja frumvarpið sem fór í fyrstu umræðu þann 8. desember sl. og er til meðferðar hjá atvinnuveganefnd.
„Ísland eyðir á ári hverju miklum fjármunum í að draga fram jákvæða ímynd landsins á erlendri grund. Blóðmerahald stórskaðar þessa ímynd og hefur verið fordæmt um heim allan. Ef ekki verður gripið til aðgerða gegn blóðmerahaldi tafarlaust verður orðspor og ímynd Íslands fyrir óafturkræfu tjóni,“ segir m.a. í greinargerð með frumvarpinu.
Umdeild starfsemi
„Eðli starfseminnar kallar á að samstarf allra aðila þurfi að vera sérstaklega gott, sem mér virðist það ekki hafa verið,“ segir Sveinn Steinarsson, formaður Félags hrossabænda.
„Ísteka ber mjög mikla ábyrgð á þessu starfi, verandi eini kaupandi afurðarinnar og setjandi þau viðmið sem stuðst er við í umgjörðinni auk þess að vera stöðugt áhrifameira í framleiðslunni með sínu hrossahaldi.“
Hann segir að í Félagi hrossabænda hafi ekki verið fjallað mikið um blóðhryssuhald á fundum félagsins þar til í seinni tíð. „Eftir að umfang blóðtökubúskapar hefur aukist jafn mikið og raunin er, úr tæplega 1.600 hryssum árið 2013 í tæp 5.400 hryssur í ár, hefur umræðan orðið mun neikvæðari, ekki síst gagnvart meðferð hér á landi og sölu tryppa úr þessum stóðum inn á lífhrossamarkað.
Í mínum huga er nokkuð ljóst að starfsemi sem gengur út á að taka blóð úr fylfullum hryssum verður alltaf umdeild. Ef starfið heldur áfram getur það aldrei orðið umfangsmikið. Ill meðferð á hrossum er aldrei réttlætanleg, sama hver á í hlut og í hvaða hlutverki hesturinn er.“