Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Bjarni Sigurðsson var meðal fyrstu Íslendinganna sem hófu smábátaútgerð í Noregi fyrir allmörgum árum. Hann gerir nú út þrjá báta frá Tromsö.
Bjarni Sigurðsson var meðal fyrstu Íslendinganna sem hófu smábátaútgerð í Noregi fyrir allmörgum árum. Hann gerir nú út þrjá báta frá Tromsö.
Fréttaskýring 24. febrúar 2020

Íslenskir fiskimenn í norska fiskveiðistjórnunarkerfinu

Höfundur: Guðjón Einarsson

Allstór hópur Íslendinga hefur á undanförnum árum haslað sér völl í smábátaútgerð í Norður-Noregi, oft með ágætum árangri. Íslendingar gera nú út 10–15 beitningarvélabáta þar ytra auk margra minni báta.

„Ég býst við að margar ástæður geti verið fyrir því að Íslendingar hafa leitað hingað í norskan sjávarútveg, en fyrst og fremst er það sennilega vegna þess hve kvótinn á Íslandi er dýr og þar af leiðandi erfitt að komast inn í kerfið þar nema hafa aðgang að miklu fjármagni,“ segir Bjarni Sigurðsson, útgerðarmaður í Tromsö í Norður-Noregi, í samtali við höfund þessa pistils.

Bjarni var með fyrstu Íslending­unum sem hófu smábátaútgerð í Noregi fyrir allmörgum árum og gerir nú út einn ellefu metra beitningarvélabát og tvo minni báta frá Tromsö. Hann segir að í kjölfar efnahagshrunsins 2008 hafi allmargir íslenskir sjómenn ráðið sig sem háseta á báta í eigu Íslendinga í Noregi og sumir þeirra hafi ílengst, stofnað fjölskyldur og reynt síðan að koma sér upp eigin báti með kvóta. „Margir hafa haft samband við mig og spurt hvernig ætti að fara að þessu. Mjög erfitt er að útvega nægilegt fé fyrir báti og kvóta. Þessir menn enda gjarnan í opna kerfinu með bát eingöngu,“ segir Bjarni.

Opna kerfið fyrir alla

Allir sem búsettir eru í Noregi og skráðir sem atvinnusjómenn geta farið inn í opið veiðistjórnunarkerfi sem takmarkast við báta að 11 metrum að lengd. Það var í upphafi hugsað fyrir nýliða og einnig fyrir aldraða sem vilja dunda sér við veiðar í ellinni. Bátum í þessu kerfi hefur farið ört fjölgandi eins og vænta mátti og um síðustu áramót voru þeir orðnir um 2.300 talsins. Hverjum báti er úthlutað kvóta en þar sem tiltölulega lítill þorskkvóti er til ráðstöfunar fyrir hópinn í heild hefur fjölgun bátanna leitt til þess að minna er fyrir hvern og einn. Og þar við bætist að kvótinn er ekki öruggur því heildarkvótinn er mun minni en samanlagðir úthlutaðir kvótar á bátana, þannig að þegar heildarkvótinn er uppveiddur hafa menn misst þann hluta sem þeir eru ekki búnir að ná á þeim tímapunkti. Kerfið ýtir því undir kappveiðar.

Að sögn Bjarna hafa Íslendingar náð miklum árangri í þessum hópi því einn stór kostur þessa kerfis er sá að ýsuveiðar eru frjálsar. Þetta hafa margir Íslendingar nýtt sér í miklu ríkari mæli en almennt gerist meðal norskra sjómanna. Sú regla að aðrar tegundir en þorskur séu utan kvóta gildir ekki eingöngu um opna kerfið. Í lokaða kvótakerfinu eru einnig tegundir utan kvóta, svo sem keila og steinbítur. Í opna kerfinu geta menn hins vegar ekki sameinað kvóta. Kvótinn fylgir manninum og bátnum og sami maðurinn má ekki eiga fleiri en einn bát á sínu nafni.

Fjórir stærðarflokkar báta

Eitt veigamikið atriði sem er öðruvísi í norska fiskveiðistjórnunarkerfinu en því íslenska er að kvóta bátaflotans í lokaða kerfinu er deilt niður á fjóra stærðarflokka, báta undir 11 metrum að lengd, báta 11–15 metra, báta 15–21 metra og báta 21–28 metra að lengd. Á síðustu árum hafa útgerðarmenn fengið að færa kvóta af minni bátum á stærri. Nýtt kvótakerfi sem er til umfjöllunar í norska þinginu setur hins vegar skorður við þeirri þróun. Einhverjar hömlur eru einnig á kvótasölu milli fylkja eða svæða en ekki eins strangar og áður var. Hins vegar er óheimilt að leigja kvóta innan ársins, öfugt við það sem tíðkast á Íslandi.  

Meðaflakvóti

Annað sem er öðruvísi í Noregi en á Íslandi lýtur að reglum um með­afla. Það hefur verið vandamál fyrir norska fiskvinnslu að þorskkvótinn er að stærstum hluta veiddur á fyrri hluta ársins þegar þorskurinn gengur upp að ströndinni til hrygningar á vetrarvertíðinni og auðveldast er að sækja hann, enda eru bátarnir yfirleitt ekki tengdir fiskvinnslunum. Að lokinni vertíð er stórum hluta bátaflotans lagt. Til þess að reyna að stuðla að lengra úthaldi svo fiskvinnslan fái hráefni árið um kring hefur verið leyfður frír meðafli allt að 50% í þorski frá vori og út árið. Í fyrra var þessi prósenta 30%. Þetta virkar þannig að ef bátur kemur með 10 tonn af fiski að landi mega 3 tonn vera þorskur utan kvóta. Meðaflakvótinn var 17.500 tonn í fyrra og var dreginn frá heildarkvótanum, sem sagt jafnt af öllum, en kemur sér vel fyrir þá báta sem gera út allt árið. 

Samtvinna veiðar og vinnslu

Eins og fram kom í upphafi standa Íslendingar að útgerð 10–15  beitningarvélabáta af minni gerðinni í Noregi auk margra lítilla báta. Þeir eru staðsettir á nokkrum stöðum í Norður-Noregi, svo sem í Myre, Gamvik, og Meham, auk Tromsö. Í Gamvik hafa Íslendingar gengið lengst í því að samtvinna veiðar og vinnslu að íslenskri fyrirmynd, sem ekki er algengt í Noregi. Þar í landi hafa sjómenn forgang að kvótanum og fiskvinnslur komast ekki yfir veiðiheimildir nema með minnihlutaeign eða einhverjum krókaleiðum. Íslendingarnir í Gamvik eru skráðir atvinnusjómenn og engin hindrun fyrir þá að eignast fiskvinnslur. Auk svokallaðra smábáta gera Íslendingar út tvo stærri línubáta með beitningarvélum frá Honningsvaag.

Offjölgun í opna kerfinu

Margir bátanna sem Íslendingar gera út í Noregi eru smíðaðir hjá Trefjum í Hafnarfirði. Sá nýjasti þeirra var afhentur Ólafi Einarssyni, útgerðarmanni og skipstjóra í Myre, seint á síðasta ári. Um er að ræða tæplega 15 metra beitningarvélabát, en auk þess gerir hann út annan beitningarvélabát sem einnig var smíðaður hjá Trefjum á sínum tíma. Ólafur skráði síðarnefnda bátinn í opna kerfið snemma árs 2015. Í samtali við Fiskifréttir í nóvember síðastliðnum lýsir hann reynslu sinni af þróun opna kerfisins. Hann hafi strax fengið 60 tonna þorskkvóta á bátinn og mátt veiða óheft af öðrum tegundum. Síðan þá hafi orðið mikil fjölgun innan opna kerfisins þegar kvótaeigendur hafi séð sér leik á borði, selt frá sér kvóta, farið inn í opna kerfið og fengið 60 tonn á silfurfati. Strax árið 2016 hafi kvótinn verið skorinn niður í 38 tonn á bát og í fyrra hafi hann verið kominn niður í 14 tonn. Ólafur kveðst hafa séð hvert stefndi og því ákveðið að færa sig yfir í almenna kerfið og kaupa kvóta. Verð á kvóta sé lægra en gerist og gengur á Íslandi.

Öll skip eru með svokallaðan grunn­kvóta sem þau hafa til frambúðar en skip stærri en 11 metrar að lengd geta keypt til sín allt að fjóra viðbótarkvóta. Endingartími slíkra viðbótarkvóta er 20–25 ár og að þeim tíma liðnum renna þeir aftur inn í þann kvótaflokk sem þeir komu úr.

Fyrst og fremst fyrir byggðirnar

Í Noregi hefur alltaf verið litið á sjávarútveginn sem undirstöðu byggðar og byggðaþróunar í Norður-Noregi og rík áhersla lögð á að halda uppi vinnu í landi. Heildar­þorskkvótanum er skipt þannig að 66% ganga til bátaflotans en 34% til togaraflotans. Áður fyrr var togaraflotinn skyldaður til þess að landa afla sínum til vinnslu á ákveðnum stöðum en þróunin hefur í ríkum mæli orðið sú að farið var að heilfrysta aflann um borð og selja úr landi til áframvinnslu. Margt bendir til þess að löndunarskyldan sé að syngja sitt síðasta.

Bjarni var að lokum inntur álits á því hvort hann teldi betra, íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið eða það norska.

„Ég er þeirrar skoðunar að norska kerfið sé betra fyrir byggðirnar hér, það er engin spurning, en íslenska kerfið er betra fyrir þá sem náð hafa að safna til sín miklum kvóta og eru í góðum málum með blómlegan rekstur og mikinn hagnað. Íslenska kerfið hefur skarað fram úr hvað heildararðsemi varðar. Það segir sig sjálft að það er miklu ódýrara að vera með fá skip og miklar aflaheimildir en að dreifa þessu á marga minni aðila og á tiltölulega óhentugan máta,“ sagði Bjarni Sigurðsson í Tromsö.

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver
Fréttaskýring 30. desember 2024

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver

Stefnt er að stofnun rekstrarfélags á næstunni utan um starfsemi á lífgas- og áb...

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...