Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Jólastemning í desember.
Jólastemning í desember.
Mynd / Björgvin Eggertsson
Fréttaskýring 18. desember 2020

Íslensku jólatrén sækja í sig veðrið

Höfundur: Ingólfur Guðnason

Skógarbændur og skóg­ræktar­félög um allt land hafa lengi boðið upp á íslensk, nýhöggvin jólatré á aðventunni. Ræktun jólatrjáa hefur gengið einna best í bland við hefðbundna skógrækt og bætir afkomu skógarbænda talsvert. Líklegt er að fyrir þessi jól verði hlutdeild íslenskra trjáa um 20% af heildarsölunni.

Langmest er flutt inn af dönskum trjám en stafafuran íslenska sækir á með hverju ári sem líður. Aðrar tegundir úr íslenskri ræktun eru blágreni, rauðgreni, sitkagreni, fjallaþinur og jafnvel síberíuþinur.

Upplifun á aðventunni að sækja eigið tré í skóginn

Skógarbændur víða um land bjóða jólatré til sölu heima eða á völdum sölustöðum. Sama gildir um skógræktarfélögin. Á sífellt fleiri stöðum geta fjölskyldur farið í skóg í heimabyggð, valið eigið tré, fellt það og notið alls þess sem skógurinn býður upp á. Þegar keypt er jólatré í heimabyggð er um leið verið að styrkja íslenska framleiðslu og auka hag skógræktar til framtíðar. Margar fjölskyldur velja að hafa þann háttinn á þegar líður nær jólum og finnst það jafnvel hluti af ófrávíkjanlegri jólahefð.

Íslensku trén hafa marga kosti

Af íslensku jólatrjánum er stafafuran langalgengust. Hún hefur þann kost umfram aðrar tegundir að vera óvenju barrheldin, hún ilmar dásamlega og er auðveld í umhirðu. Íslensku fururnar koma beint í sölu frá nærliggjandi skógum. Einnig bjóða sumir íslenskt rauðgreni, sitkagreni og jafnvel fjallaþin úr eigin ræktun. Framleiðsla jólatrjáa á sérstökum ökrum hefur verið reynd en hefur ekki slegið í gegn; trén eru úrvalstré sem bændur höggva úr uppvaxandi ungskógum og færa strax á markað.

Aldur trjánna er misjafn, oft eru stofutré 10 til 15 ára gömul. Eitt stærsta jólatré sem fellt hefur verið á Íslandi er ríflega 17 metra hátt sitkagreni, 70 ára gamalt. Slík torgtré voru lengi vel innflutt en nú eiga okkar framleiðendur ekki í nokkrum vandræðum með að útvega tré af öllum stærðum.

Innflutt tré, plasttré og kolefnisspor

Innflutt jólatré sem aðallega koma frá Danmörku hafa verið eftirsótt og sama er að segja um plasteftirlíkingar af jólatrjám. Aðallega er um að ræða nordmannsþin en eitthvað hefur verið flutt inn af eðalþini líka. Flutningur ferskra jólatráa með skipum er óhagkvæmur og ekki sérlega umhverfisvænn. Erlendu trén eiga það líka til að bera með sér framandi lífverur sem í verstu tilvikum geta valdið alvarlegum skaða í íslenskri ræktun, eins og dæmin sanna.

Plasttrén eru vitaskuld ekki varasöm að því leyti en óneitanlega eru þau dauflegri en fersk íslensk tré, sem fjölskyldan hefur jafnvel sjálf valið í dagsferð í skóginum. Kolefnisspor íslenskra jólatrjáa er mjög lítið miðað við erlendu trén og einnig þegar það er borið saman við kolefnisspor plasttrjánna. Fyrir hvert íslenskt jólatré sem selt er getur skógræktarfólk gróðursett tugi nýrra trjáa í íslenska skóga.

Jólatré í pottum

Dálítið er um að grenitré séu sett í potta með rót og þau færð inn í stofu yfir jólin. Sú aðferð reynir talsvert á tréð, hitasveiflur á rót, greinum og barri eru trénu erfiðar. Með því að aðlaga tréð hitasveiflunum þegar það er fært inn og sömleiðis að búa vel um það eftir jólin hefur sumum tekist að nota sama tréð jafnvel árum saman.

Meðhöndlun lifandi jólatrjáa

Almennt er mælt með því að taka þunna sneið neðan af stofni trésins rétt áður en því er komið fyrir í vatni. Það hefur reynst vel að dýfa sári jólatrjáa í sjóðandi vatn í nokkrar mínútur til að auðvelda vatnsupptökuna. Síðan er tréð vökvað vel og þess gætt að það nái aldrei að þorna. Valinn er staður fjarri ofnum, því svalara sem er þeim mun betur endist tréð.

Eftir að notkunartíma jólatrésins lýkur er sjálfsagt að reyna að nýta það áfram á einn eða annan hátt, án þess beinlínis að farga því. Klippa má greinarnar og nota þær til að skýla gróðri í garðinum, kurla tréð og nota sem þekjuefni, ellegar koma kurlinu eða smátt klipptum greinum í safnhauginn. Að öðrum kosti ætti að skila trénu til jarðgerðarstöðvar þar sem það verður að næringarríkri moltu fyrir ræktun næsta árs.

Starfsfólk Garðyrkjuskólans á Reykjum sendir öllum lesendum Bændablaðsins bestu jóla- og nýárskveðjur.

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver
Fréttaskýring 30. desember 2024

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver

Stefnt er að stofnun rekstrarfélags á næstunni utan um starfsemi á lífgas- og áb...

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...