Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Makríll  og japanskt sushi.
Makríll og japanskt sushi.
Fréttaskýring 16. júní 2021

Íslenskur, norskur og japanskur makríll

Höfundur: Sigurgeir B Kristgeirsson

Nú er makrílvertíðin að byrja og ekkert samkomulag um heildar­kvóta makríls er í augsýn milli strandþjóða við NA-Atlantshaf. Íslendingar hófu veiðar á makríl árin 2005 – 2007, fyrst sem meðafla með síld en með aukinni þekkingu og reynslu sjómanna hófust beinar veiðar á makríl.

Sigurgeir B Kristgeirsson, búfræðingur og framkvæmda­stjóri Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum. Vinnslustöðin hefur átt viðskipti við Marhua Nichiro frá upphafi frystingar á loðnu til Japan um 1970. Sala Vinnslustöðvarinnar hf. á makríl til Maruha Nichiro. hefur verið óveruleg.

Fyrst var makríllinn frystur um borð í frystiskipum en smám saman tókst uppsjávarfyrirtækjunum að ná tökum á kælingu aflans um borð í skipunum og síðar landfrystingu. Höfundur áætlar að heildarverðmæti makríls til íslensks þjóðarbús nemi um 230–250 milljörðum króna frá því að þær hófust. Makrílveiði, vinnsla og sala skipta íslenskt þjóðarbú því augljóslega miklu máli.

Kom fyrst til Íslands 1994

Glöggt er gests augað segir í málshætti og því ákvað greinarhöfundur að fá erlent sjónarhorn á makrílveiðar og vinnslu Íslendinga og bað Hiroshi Yamazaki, yfirmann uppsjávarsviðs japanska stórfyrirtækisins Maruha Nichiro, um viðtal sem hann varð fúslega við.

Maruha Nichiro, yfirmaður uppsjávar­sviðs japanska stórfyrirtækisins Maruha Nichiro.

Yamazaki kom fyrst til Íslands 1994 til að kaupa loðnu en loðnukaup Japana frá Íslandi hófust um og upp úr 1970. Hann hefur því langa reynslu af viðskiptum við Íslendinga en ekki síður Norðmenn og þekkir fiskveiðar og fiskveiðistjórnun landanna vel sem og gæði fiskjarins.

Velta Maruha Nichiro fjórum sinnum meiri en útflutningstekjur íslensks sjávarútvegs

Maruha Nichiro er langstærsta sjávarútvegsfyrirtæki í heimi. Heildar­velta þess er 870 milljarðar japanskra yena, eða samsvarandi 950 milljörðum íslenskra króna. Til samanburðar voru heildartekjur íslenska ríkisins tæpir 900 milljarðar á síðasta ári og útflutningstekjur íslenskra sjávarafurða 250 mill­jarðar. Maruha er því u.þ.b. fjórum sinnum stærra en allur íslenskur sjávarútvegur. Stærstur hluti starf­semi Maruha er í Japan en alls á félagið og rekur 150 fyrirtæki um allan heim og hjá því starfa um 10.000 manns.

Japansmarkaður fyrir markíl er árlega um 120–140.000

Yamazaki stýrir nú öllum innkaupum, framleiðslu og sölu á uppsjávarfiski innan Maruha. Innkaup uppsjávarsviðsins eru aðallega makríll, loðna, síld auk grálúðu og karfa, mest úr NA-Atlantshafi. Framleiðslan fer að mestu fram í SA-Asíu, aðallega í Kína og afurðirnar síðan seldar í Japan.
Velta uppsjávardeildar Maruha er um 20 milljarðar íslenskra króna, eða álíka mikil og velta Síldarvinnslunnar sem nýverið var skráð á markað.

Maruha kaupir árlega 13–15.000 tonn af makríl, aðallega frá Noregi. Árlega kaupa Japanir 120–140.000 tonn af þeim makríl sem við veiðum, og nánast eingöngu frá Noregi. Helmingur magnsins fer beint til Japan og hinn helmingurinn fer í vinnslur í SA-Asíu, aðallega í Kína og þaðan til Japan.
Útflutningur Íslendinga á makríl til Japan nam 4.000 tonnum árið 2019 og til Kína var hann tæp 9.000 tonn. Því má ætla að heildarútflutningur á íslenskum makríl til Japan hafi numið á bilinu 8–13.000 tonn árið 2019.

Makílvinnsla.

Norski makríllinn er betri

Aðspurður um mismun milli íslensks makríls og þess norska segir Yama­zaki:
,,Norskur makríll hefur miklu lengri sögu á japanska matvöru­markaðnum en sá íslenski og er þekktur fyrir gæði sem skipta máli, einkum rétt fituinnihald, og þéttleika sem gefur fiskinum betra bragð og áferð. Það skiptir auðvitað miklu máli því japanskir neytendur eru íhaldssamir. En stóri munurinn er að norskur makríll hefur rétt fituinnihald.

Við köllum íslenska makrílinn sumarmakríl því hann hefur ekki þá eiginleika sem hinn norski hefur. Íslenski makríllinn er í ætisgöngu norður frá hrygningarstöðvum við Skotland og Írland og fitnar í ætinu við Íslandsstrendur og annars staðar í Norður Atlantshafi. Á þeim tíma er hann lausari í sér, er oft fullur af átu og hefur ekki sama fituinnihald og áferð eins og sá norski.“

,,Annar galli íslenska makrílsins er sá,“ segir Yamazaki , að hann er erfiðari í vinnslu. Fiskur fullur af átu hefur hlutfallslega minna magn af fiskinum sjálfum. Það segir sig sjálft að Íslendingar eru ekki bara að veiða makríl, heldur líka átu, sem þyngir fiskinn er leiðir til þess að flakið verður hlutfallslega minna. Nýting fiskjarins í vinnslu verður því lakari. Það er líka erfiðara að flaka fiskinn þar sem hann er lausari í sér og flökunargallar verða fleiri. Öllu þessu til viðbótar hefur átan svo þau áhrif að hún skemmir þunnildið á fiskinum þegar hún byrjar að éta fiskinn að innan og þá þarf oftar en ekki að skera þunnildið af.“

Mismunandi veiðiaðferðir

,,Norðmenn veiða megnið af sínum fiski í nót en Íslendingar í troll,“ segir Yamazaki.
,,Það er mikill munur á makríl veiddum í nót eða troll. Nótaveiddur fiskur verður fyrir mun minna hnjaski við veiðarnar. Við trollveiðar verður fiskurinn fyrir meira hnjaski, einkum ef togað er of lengi. Þá gefst fiskurinn upp og endar aftast í trollinu í einni kös þar sem hann kremst, sem leiðir til mars eða blóðbletta í holdinu. Það sjáum við ekki í nótaveiddum makríl.“

Geta Íslendingar bætt makrílinn sinn?

En hvað geta Íslendingar gert, er einhver leið fyrir þá til úrbóta?
,,Mikilvægast er,“ segir Yamazaki, ,að stytta togin og taka minna magn í hverju hali. Það minnkar líkurnar á skemmdum á fisk­inum. Þá skiptir kæling miklu máli.

Norsku skipin koma með mun minna magn í land í hverri ferð en þau íslensku. Norsk skip sem taka 1.500–2.000 tonn í lest koma einungis með 3–600 tonn í hvert skipti. Kælitankar skipanna eru fullir af köldum sjó og hlutfall fiskjar á móti köldum sjó er mun minna í norskum skipum en þeim íslensku. Fiskur á móti köldum sjó er 1/3 eða 1/4 hjá norskum skipum en íslensku skipin eru oftast með helming af fiski á móti köldum sjó. Það segir sig sjálft að þá verður kælingin betri og meðferð fiskjarins einnig.“

Japanir veiða 4–500 þúsund tonn af makríl

En nú veiða Japanir mikið af makríl, er það ekki rétt hjá?
,,Jú, Japanir veiða 4–500 þúsund tonn árlega af makríl við strendur Japan en gæði hans eru afar mismunandi. Fiskveiðistjórnun í Japan er gjörólík því sem við þekkjum við Ísland og Noreg. Makrílkvóta er ekki skipt á milli skipa eða fyrirtækja, heldur er heildarkvóti og ólympískar veiðar, það er að segja kapphlaup. Fiskurinn er því veiddur í miklu magni þegar hann gefst og meðferð aflans um borð í skipum og í vinnslum er lök.

Það er ekkert skipulag á veiðum og vinnslu eins og við þekkjum frá Íslandi og Noregi. Þetta leiðir til þess að megnið af japönskum makríl er fluttur út á afar lágu verði, aðallega til Afríku eða hann fer í bræðslu eða niðursuðu. Það eru því engir hvatar til að veiða fiskinn þegar hann er verðmætastur og bestur. Það eru einungis um 25% af afla japanskra fiskimanna sem við getum samþykkt fyrir kröfuharða japanska neytendur. Þetta er afar sorglegur samanburður japansks sjávarútvegs annars vegar og þess norska og íslenska hins vegar,“ sagði Yamazaki að lokum.

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver
Fréttaskýring 30. desember 2024

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver

Stefnt er að stofnun rekstrarfélags á næstunni utan um starfsemi á lífgas- og áb...

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...