Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Loðnan skilar tugmilljarða verðmætum
Fréttaskýring 15. janúar 2018

Loðnan skilar tugmilljarða verðmætum

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Loðnan er einn af mikilvægustu nytjafiskum Íslendinga og jafnframt sá fiskur sem mest óvissa ríkir um. Á árinu 2016 var útflutningsverðmæti loðnuafurða rúmir 18 milljarðar króna og kom loðnan næst á eftir þorskinum að verðmætum.

Íslenski uppsjávarflotinn er öflugur og er loðnan drjúgur hluti af veiðiheimildum hans. Seinni árin hefur eiginleg loðnuvertíð ekki hafist fyrr en í janúar og oft og tíðum renna menn blint í sjóinn í upphafi vertíðar með hve mikið megi veiða af loðnu vegna þess hve erfiðlega hefur gengið að mæla veiðistofninn. Að þessu sinni liggur upphafskvóti í loðnu fyrir þótt hann sé ekki mikill. Því geta veiðar hafist en vonir standa til að kvótinn verði aukinn.

Tínd á fjöru, veidd í beitu

Loðnan var lengst af lítið sem ekkert nýtt hér við land. Helst var hún tínd upp á harðindatímum er hún fannst rekin á fjörur. Á fyrri hluta 20. aldar og fram til ársins 1964 er loðna veidd í beitu í takmörkuðum mæli. Árið 1965 verður gagngerð breyting. Þá er loðna veidd í fyrsta sinn að einhverju marki úr hrygningargöngum suður af landinu til bræðslu.

Sumarveiðar íslenskra skipa á loðnu norðan Íslands hófust svo 1976. Norðmenn fóru að veiða loðnu sumarið 1978 nálægt Jan Mayen og skip fleiri þjóða stunduðu þessar veiðar utan lögsögu Íslands.

Veiddu  mest 1,3 milljónir tonna

Loðnuveiðin var lítil fyrst framan af en jókst smám saman. Hún var 50 þúsund tonn árið 1965, tæp 200 þúsund tonn 1971 og 964 þúsund tonn 1979. Til viðbótar veiddu erlendar þjóðir 164 þúsund tonn það ár og heildarveiðin varð því 1.128 þúsund tonn.

Mest náðu íslensk skip að veiða 1,3 milljónir tonna af loðnu árið 1997. Hér er um gríðarlegt magn að ræða en þess má geta að árið 2016 veiddu íslensk skip tæpa 1,1 milljón tonna af öllum fisktegundum samanlagt.

Á þessari öld hefur loðnuveiðum hnignað. Það náðist að vísu að veiða 1,1 milljón tonna af loðnu árið 2001 en eftir það hefur veiðin verið undir 500 þúsund tonnum á ári. Nokkur ár veiddust aðeins 100 til 200 þúsund tonn og veiðin fór niður í 15 þúsund tonn eitt árið. Á árinu 2017 veiddu íslensk skip 196 þúsund tonn af loðnu.

Fjölbreyttar afurðir og taugastríð í lokin

Í upphafi var loðnan veidd til að afla hráefnis fyrir fiskismjölsverksmiðjur. Fljótlega var einnig farið að frysta loðnu í verðmætari afurðir til manneldis, í smáum stíl þó.

Minni loðnan, jafnt hængur sem hrygna, er fryst fyrir markaði í Austur-Evrópu. Stærri loðnan er fryst fyrir Japansmarkað og er þar um verðmætari afurð að ræða. Í því tilviki er hrygnan flokkuð frá hængnum og fryst sér þegar ákveðinni hrognafyllingu er náð.

Framleiðsla á frystri loðnu hefur verið mjög sveiflukennd. Hámarki náði framleiðslan árið 2014 en þá voru fryst rétt um 100 þúsund tonn.

Hrognin eru langverðmætasta loðnuafurðin. Mest hefur árs­fram­leiðslan náð um 15 þúsund tonnum en það var árið 2007. Hrognin eru unnin seint á vertíðinni þegar þau hafa náð fullum þroska. Þá er skammur tími til stefnu áður en loðnan leggst til hrygningar og ríkir gjarnan mikið taugastríð. Komi bræla síðustu viku vertíðar sem hamlar veiðum gæti það kostað þjóðarbúið milljarða í útflutningsverðmætum.

Markaður fyrir loðnuafurðir til manneldis er takmarkaður. Ætla má að um og yfir 200 til 250 þúsund tonn af hráefni dugi fyrir manneldisvinnsluna og vel það. Sé heimilt að veiða meira færi sú loðna í vinnslu fiskimjöls og lýsis en ágætt verð hefur reyndar fengist fyrir þær afurðir lengst af undanfarin ár.

Í öðru sæti í verðmætum

Loðnan hefur skilað miklum verðmætum í þjóðarbúið þótt aflinn hafi verið afar sveiflukenndur síðustu 15 árin eins og rakið hefur verið. Skiptir þá miklu máli hve mikið tekst að framleiða til manneldis og hvernig staðan er á helstu mörkuðum. Á árinu 2016 nam útflutningur loðnuafurða alls um 18,3 milljörðum króna, eða um 7,9% af heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða það ár. Endanlegar tölur um verðmæti útflutnings fyrir árið 2017 liggja ekki fyrir. Loðnan er næst á eftir þorskinum að verðmæti en á eftir loðnunni koma karfaafurðir með 14,3 milljarða og afurðir ýsu með 14,4 milljarða.

Loðnan hefur oft vegið þyngra, bæði í verðmætum og sem hlutfall af heild. Árið 2013 gaf loðnan 33,7 milljarða og nam 12,4% af heildarútflutningi sjávarafurða. Á árinu 2002 voru loðnuafurðir tæp 16% af heild.

Rússabannið dýrkeypt

Stærstur hluti af frystum loðnuafurðum frá Íslandi fer til ríkja í Austur-Evrópu. Lengi vel var Rússlandsmarkaður þýðingarmestur. Í kjölfar þess að Ísland tók þátt í viðskiptabanni Vesturveldanna gegn Rússum lokaðist Rússamarkaður fyrir matvæli frá Íslandi. Þetta var mikið högg fyrir íslenskan sjávarútveg, ekki síst fyrir framleiðendur á loðnuafurðum.

Noregur er mikilvægasti markaðurinn fyrir loðnumjöl.

Áhugaverður lífsferill

Lífsferill loðnunnar er áhugaverður en hún ferðast óralangar leiðir á skammri ævi. Loðnan hrygnir aðallega frá suðaustanverðu landinu og allt vestur í Breiðafjörð. Einnig hrygnir lítill hluti af stofninum fyrir norðan land þegar skilyrði eru fyrir hendi. Seiðin berast vestur og norður fyrir land, inn í Grænlandssund og Íslandshaf. Ungloðna, eins árs og yngri, heldur sig við utanvert landgrunn, frá Grænlandssundi til Norðausturlands.

Á öðru ári fer loðnan í miklar ætisgöngur lengst norður í höf. Hún snýr til baka og er komin á veiðislóðir norður af landinu undir lok ársins og þaðan gengur hún austur fyrir land. Hrygningargöngunni lýkur yfirleitt um og eftir miðjan mars. Loðnan drepst að hrygningu lokinni.

Hér áður fyrr var loðna veidd á sumrin og haustin norður af landinu en á veturna fyrir austan og sunnan land. Í seinni tíð fer veiðin nær eingöngu fram að vetri og ber þriggja ára loðna þá veiðina uppi. Einhver lítill hluti veiðistofnsins er þó fjögurra ára.

Breytt göngumynstur

Hlýnun sjávar hefur haft mikil áhrif á loðnustofninn. Útbreiðsla hans hefur breyst og brestur í nýliðun orðið algengari. Uppeldisstöðvar ungloðnu eru nú vestar og meira inni í grænlensku lögsögunni en áður. Veiðistofninn heldur sig einnig vestar en hann gerði fyrir árið 2000.

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um veiðar á loðnu byggist á mælingum á veiðistofni sem fram fara að hausti og síðan aftur í janúar/febrúar þegar loðnan hefur náð að þétta sig og betur tekst að ná utan um stofninn. Oft hafa síðustu mælingar leitt til þess að kvótinn er aukinn.

Misfarist haustmælingin, sem hefur iðulega gerst hin seinni ár, verður að treysta á að loðnan finnist í janúar/febrúar. Dæmi eru um það að ekki hafi legið fyrir fyrr en í lok janúar eða byrjun febrúar hvort yfirleitt mætti veiða einhverja loðnu á vertíðinni.

Flókin skipting heildarkvótans

Í haust lagði Hafrannsóknastofnun til í kjölfar stofnmælinga að í heild mætti veiða 208 þúsund tonn af loðnu. Kvótinn skiptist milli þriggja strandríkja: Íslendingar fá 81% af heildinni, Grænlendingar fá 11% og Norðmenn 8%.

Þessi skipting segir ekki alla söguna því loðnukvótarnir eru að hluta til notaðir sem skiptimynt í margvíslegum fiskveiðisamningum þjóða í milli. Þannig hafa Íslendingar framselt rúm 30 þúsund tonn af sínum kvóta til Norðmanna sem gjald fyrir Smugusamninginn svonefnda sem veitir Íslendingum rétt til að veiða þorsk í norsku lögsögunni í Barentshafi.

Af um 168 þúsund tonna kvóta sem Ísland átti rétt á í byrjun stóðu því aðeins eftir um 127 þúsund tonn sem úthlutað hefur verið til íslenskra skipa. Í þeirri tölu var gert ráð fyrir að Íslendingar létu Færeyingum í té 10.400 tonn af sínum kvóta. Sú veiðiheimild hefur reyndar verið afturkölluð þar sem ekki náðist samkomulag við Færeyinga um gagnkvæmar fiskveiðar.

Grænlendingar láta ESB hafa um það bil tvo þriðju af loðnukvóta sínum. Yfirleitt leigja Norðmenn þennan kvóta af ESB. Eiginlegur kvóti Norðmanna er aðeins tæp 17 þúsund tonn. Þeir fá hins vegar tæp 17 þúsund tonn af grænlenska kvótanum frá ESB og um 30 þúsund tonn frá Íslendingum og geta því veitt alls tæp 64 þúsund tonn. Norðmenn mega veiða allan kvóta sinn í íslenskri lögsögu. Grænlendingar mega veiða hér tæp 7 þúsund tonn og ef Færeyingar og Íslendingar leysa ágreining sinn um gagnkvæmar veiðar og semji á sömu nótum og áður fá Færeyingar væntanlega að veiða hér 10.400 tonn.

Skylt efni: Loðna | fiskvinnsla | fiskvinnsla

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...