Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Svavar Kristinsson, sem er fyrrverandi lögreglumaður, hefur á undanförnum árum leitt vakningu í rafhjólavæðingu í Hveragerði. Vegna skertrar hreyfigetu í kjölfar slyss, ákvað Svavar að flytja inn rafmagnsþríhjólið frá Kína til eigin nota árið 2016. Framtakið opnaði dyr fyrir hreyfihamlaða og eldra fólk, en er nú í uppnámi vegna skráningarskyldu.
Svavar Kristinsson, sem er fyrrverandi lögreglumaður, hefur á undanförnum árum leitt vakningu í rafhjólavæðingu í Hveragerði. Vegna skertrar hreyfigetu í kjölfar slyss, ákvað Svavar að flytja inn rafmagnsþríhjólið frá Kína til eigin nota árið 2016. Framtakið opnaði dyr fyrir hreyfihamlaða og eldra fólk, en er nú í uppnámi vegna skráningarskyldu.
Fréttaskýring 3. nóvember 2020

Sala rafdrifinna léttra tví-, þrí-, fjórhjóla og jafnvel leikfangabíla er í uppnámi

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Um síðustu áramót tóku gildi nýjar reglur samkvæmt lögum um skráningu ökutækja. Í þeim felst að t.d. rafhjól sem ætluð eru hreyfihömluðu fólki og smáskutlur ungmenna eru nú skráningarskyld og refsiákvæði ef eldri hjól verða ekki færð til skráningar. Ljóst er að reglurnar eru þegar að leiða  til mikils óhagræðis og kostnaðar m.a. fyrir ungt reiðhjólafólk, eldri borgara og hreyfihamlaða einstaklinga.

Vegna nýju laganna myndast enn einn nýr tekjustofn fyrir ríkið sem tekinn er af léttum ökutækjum og þar með líka rafknúnum tví-, þrí- og fjórhjólum. Með lögunum er líka skylt að skrásetja öll létt bifhjól sem þegar eru í umferð og ekki var gerð krafa um skrásetningu á fyrir áramót 2020. Þar getur verið um að ræða að 2.000 til 3.000 hjól að mati Samgöngustofu. Hver skráning kostar að lágmarki um 15.000 krónur, en auk þess hefur til þessa verið ætlast til að fólk  að kaupa ábyrgðartryggingu á öll skráningarskyld ökutæki. Slíkar tryggingar hlaupa að lágmarki á tugum þúsunda króna á ári.  

Opnaði dyr fyrir hreyfihamlaða 

Svavar Kristinsson hefur á undanförnum árum leitt vakningu í rafhjólavæðingu í Hveragerði. Vegna skertrar hreyfigetu í kjölfar slyss, ákvað Svavar að flytja inn rafmagns þríhjólið frá Kína til eigin nota árið 2016. Framtakið opnaði dyr fyrir hreyfihamlaða og eldra fólk. Hafa slík rafmagnshjól síðan gert þeim kleift að ferðast um sitt nágrenni á rafmagnshjólum og stunda félagsleg samskipti sem þeim var annars orðið nær ókleift. Hefur þetta reynst vera mikil félagsleg lyftistöng fyrir þá sem minnst mega sín, ekki bara í Hveragerði heldur um allt land. Nú er öll þessi vinna í uppnámi. 

Mikil vakning sem nú er í uppnámi

Margir sýndu þessu framtaki Svavars áhuga og vatt innflutningur hans á rafknúnum hjólum upp á sig í framhaldinu. Með samþykkt Alþingis á breytingu á umferðarlögum  á síðasta ári voru rafhjól af þessum toga gerð skráningarskyld. Segir Svavar að þessi lagasetning með tilheyrandi reglugerðum hafi farið hugsunarlaus í gegnum þingið. Vegna hennar lenti hann í miklum hremmingum í sumar við innflutning á fjórum rafhjólum frá Kína og kostuðu tafir og umstang vegna þess umtalsverðar upphæðir. 

„Algjört klúður“

Svavar segir að lögin séu „algjört klúður“ og þannig úr garði gerð að í raun viti enginn hvernig framkvæmdin eigi að vera. Í kerfinu vísi hver á annan og málum sé vísað á milli Samgöngustofu, Vinnueftirlits og Tollgæslunnar. Þá hafi verið gerðar óskiljanlegar kröfur um upplýsingagjöf frá framleiðendum í Kína sem íslenskar stofnanir segjast svo jafnvel ekki viðurkenna upplýsingar frá. Heimtuð eru ýtrustu vottorð og helst í frumriti sem áður hefur ekki þurft, jafnvel vegna leikfangabíla sem eru með rafmótorum. Hefur framganga íslenskra reglugerðarembættismanna vakið furðu erlendra tækjaframleiðenda sem selja mikið af sínum vörum til annarra Evrópulanda.

Staðan sé þannig í dag að innflutningur hans á rafhjólum sé mjög snúinn vegna flækjustigs og vandamála sem sprottið hafi upp vegna lagasetningarinnar. 

Geta þurft að sæta refsingumá næsta ári

Þá liggur fyrir að sögn Svavars að þeir sem keypt hafa slík hjól á liðnum árum verði látnir sæta refsingu komi þeir ekki með hjólin til skráningar á næsta ári. 

Bendir Svavar á að þegar séu á götunum þúsundir rafhjóla af ýmsum toga sem með réttu ætti að kalla inn til skráningar. Í mars á næsta ári muni svo taka gildi reglugerð sem felur í sér heimild til Samgöngustofu um að innheimta sektir ef eigendur rafhjóla koma ekki með þau til skráningar. Undir slíka skráningu geti samkvæmt lögunum fallið rafknúin þrí- og fjórhjól, fjölmörg rafknúin reiðhjól, rafhjól sem flutt hafi verið inn sem og hjálpartæki fyrir fatlaða. Mörg rafknúin hlaupahjól geta líka fallið undir skilgreiningu laganna og golfbílar sömuleiðis. Slík skráningarskylda mun að mati sérfræðinga hjá tryggingarfélögunum sem Svavar hefur rætt við, óhjákvæmilega leiða til tryggingarskyldu sem getur þýtt að lágmarki tugi þúsunda króna árlegan aukakostnað, m.a. fyrir skjólstæðinga Tryggingastofnunar.   

Lögin áttu að lagfæra vankanta en bjuggu til nýja og enn verri

Lögin sem gengu í gildi um síðustu áramót eru í 13 greinum og fólu í sér breytingar á umferðarlögum, nr. 77/2019, með síðari breytingum. Var þeim meðal annars ætlað að lagfæra vankanta á gildandi umferðarlögum, koma í veg fyrir aukna stjórnsýslubyrði og kostnað borgara. 

Þrátt fyrir fögur fyrirheit í skýringum með lagagerðinni, þá virðist sumt í framkvæmd þessara lagabreytinga algjörlega hafa snúist upp í andhverfu sína hvað kostnað og hagræði borgaranna áhrærir. Ekki síst er varðar skráningarskyldu léttbyggðra rafknúinna farartækja.

Á vefsíðu Samgöngustofu má nú sjá að létt bifhjól í flokki I eru vélknúin ökutæki á tveimur, þremur eða fjórum hjólum sem hafa hönnunarhraða allt að 25 km/klst. hvort sem þau eru raf- eða bensíndrifin. Þá er miðað við hámarkshraða sem framleiðandi bifhjólsins gefur upp.  

Þetta felur í raun í sér að öll mótorknúin farartæki sem hingað til hafa verið hugsuð til að létta lífið hjá ungum og öldnum sem og hreyfihömluðum, eru skráningarskyld með tilheyrandi kostnaði. Þá falla rafknúin reiðhjól mörg hver undir þennan flokk og strangt til tekið einnig sum rafknúin hlaupahjól, „skútur“ eða hvað menn vilja kalla þau. 

Samgöngustofa hefur opnað rafræna skráningu á eldri léttum bifhjólum í flokki I (keypt fyrir 1. janúar 2020) og innan skamms verða öll slík ökutæki komin með appelsínugular númeraplötur sem eykur rekjanleika og eftirlit. Eftir 1. mars 2021 mega eigendur eldri hjóla af þessum toga svo búast við sektum ef þeir verða ekki búnir að skrá sín hjól fyrir þann tíma. 

Í leiðbeiningum Samgöngustofu segir: 

Öll eldri létt bifhjól í flokki I (keypt fyrir 1. janúar 2020) þarf nú að skrá rafrænt í gegnum Mitt svæði á vef Samgöngustofu - innskráning með rafrænum skilríkjum.

Tekið er fram að umsækjandi þurfi að hafa náð 18 ára aldri. Forsjáraðilar þurfa að skrá bifhjól einstaklinga sem eru undir 18 ára.

Skráningargjöld upp á ríflega 15.000 krónur

Greiða þarf skráningargjald að upphæð 600 kr. og gjald fyrir skráningarmerki 2.665 kr., alls 3.265 kr. Myndast við skráninguna krafa í heimabanka umsækjanda eða skráðs greiðanda en einnig er hægt að greiða með greiðslukorti.

Þegar staðfesting um skráningu hefur borist (það getur tekið nokkra daga), skal umsækjandi fara með bifhjólið í skráningarskoðun á þá skoðunarstöð sem valin var. Þar þarf að greiða skoðunargjald og nýskráningargjald sem er mismunandi milli skoðunarstöðva en slíkt gjald getur verið u.þ.b. 12.000 kr. Þar með eru opinberu skráningargjöldin komin í 15.265 krónur. 

Eigendum skráningarskyldra ökutækja hefur fram til þessa einnig verið skylt að kaupa á slík tæki tryggingar (ábyrgðatryggingu) sem eiga að mæta tjóni er tækið kann að valda öðrum. Fullt verð á tryggingu létts bifhjóls getur samkvæmt heimildum blaðsins numið allt að 130.000 krónum á ári. 

Mörg þeirra tví-, þrí- og fjórhjóla sem nýju lagareglurnar ná til geta svo mögulega fallið í flokk II yfir létt bifhjól. Þau hafa nægt afl til þess ef búnaður þeirra er ekki læstur fyrir lægri hraða frá verksmiðju. Í skilgreiningu Samgöngustofu segir um skráningarskyldu þessara hjóla segir: 

„Já, létt bifhjól í flokki II er skráningarskylt. Auðkennd með bláum númeraplötum.“

Í nánari skilgreiningu á flokki II segir Samgöngustofa:

„Létt bifhjól í flokki II, oft kallaðar skellinöðrur, eru vélknúin ökutæki á tveimur eða þremur hjólum sem ná ekki meiri hraða en 45 km/klst. Til þess að aka þeim þarf ökumaður að vera orðinn 15 ára og að vera með ökupróf – B-réttindi eða AM-réttindi.“

Um tryggingar á slíkum hjólum segir Samgöngustofa:

„Já, létt bifhjól í flokki II er tryggingaskylt.“

Mörg rafknúin reiðhjól geta hæglega náð þeim hraða sem um  getur í flokki II. Sama á við um mörg þrí- og fjórhjól. Einnig hefur verið bent á að séu innsigli rofin þá sé ekkert því til fyrirstöðu að rafknúin hlaupahjól geti náð þessum hraða og jafnvel mun meiri. 

Eitt af hjólunum fjórum sem Svavar sat fastur með í tolli í sumar, komið með skráningarplötu samkvæmt nýjum reglum yfirvalda.

Í hremmingum með innflutning á leikfangabílum

Jóhannes Ragnarson tekur þátt í innflutningi ásamt öðrum á þúsundum tonna af stáli á ári hverju frá Kína ásamt ýmsum öðrum iðnvarningi. Hann segist aldrei hafa kynnst öðru eins. Til gamans meðfram öðrum innflutningi hugðist hann flytja inn leikfangajeppa fyrir börn sem flokkast nú undir létt rafknúin ökutæki í flokki 1 samkvæmt nýrri reglugerð. 

„Nú eru tveir mánuðir frá því þessi tæki komu til landsins. Þau hafa vefrið föst í tolli þar sem enginn veit hvernig á að afgreiða þau vegna þeirrar reglugerðar sem tók gildi um síðustu áramót. 

Ég ætlaði að gefa barnabörnunum mínum sem búa út í sveit þessi leikföng, en þau eru með rafdrifið og með minni mótor en finna má í mörgum rafknúnum handverkfærum. Það var bara eins og ég væri að flytja inn einhverja stórhættulega bannvöru.“

- Hvaða skýringar eru á þessu og er þetta í samræmi við það sem gerist í öðrum Evrópulöndum?

„Mér sýnist þetta bara vera illa samin reglugerð og ekki í samræmi við viðteknar venjur annars staðar í Evrópu. Þó virðast menn ekki hafa á hreinu hvaða reglugerðum þeir eru að fara eftir. Í einu orðinu segjast menn vera að fylgja Evrópureglum, en framleiðandi þessara tækja segja mér að hann sé að flytja þetta til Þýskalands og Bretlands og þar hafi ekki komið upp nein svona vandamál. Þar eru þessi leiktæki ekki skráningarskyld eins og nú virðist vera á Íslandi. Þetta er eitthvað séríslenskt fyrirbæri. Hér er verið að búa til með nýrri reglugerð heilmikið vandamál úr engu. 

Þessi framleiðandi í Kína sem ég er að skipta við hefur flutt inn margs konar tæki til Þýskalands í ein þrjú ár, eins og rafknúin hjól og fleira. Hann hefur aldrei átt í neinum vandræðum við tollayfirvöld þar. Þessum hlutum fylgja bara skipspappírar og reikningar eins og venjan er og gildir almennt um innfluttar vörur til ESB-ríkja. 

Ég held að reglugerðin sem þarna er verið að fara eftir hafi verið svona illa unninn að þar stangast hvað á annað horn. 

Ég vissi ekkert af þessum breytingum á umferðarlögum þegar ég pantaði þessi leiktæki og hafði ekki hugmynd um breytinguna sem tók gildi 1. janúar síðastliðinn. Enda er ég ekkert í svona innflutningi og er aðallega að flytja inn stál. Mér og félögum mínum fannst bara sniðugt að flytja þessi tæki inn til að gefa barnabörnunum.“

Flytja inn tvö til þrjú þúsund tonn af stáli á ári en hefur aldrei lent í öðru eins

„Ég flyt inn í samvinnu við aðra um tvö til þrjú þúsund tonn af stáli á ári en það hvarflaði ekki að mér að þessi tveir leikfangabílar gætu orðið eitthvað vandamál. 

Strax þegar bílarnir komu til landsins byrjar ballið. Ég hafði samband við tollinn, en tollurinn vísaði mér fyrst á Vinnueftirlit ríkisins eins og og um atvinnutæki væri að ræða. Ég kom af fjöllum og spurði hvað þeim kæmi þetta við, þetta væri jú ekki jarðýta. Svo kom það í ljós að Vinnueftirlitið hafði ekkert með þetta að gera og þá var mér vísað á Samgöngustofu. Þá upphófust vandræðin fyrir alvöru. Þeir kröfðust alls konar pappíra og ég fékk afrit af þeim send í pdf-skjölum sem eru almennt viðurkennd í svona samskiptum nema hjá Samgöngustofu. Þeir kröfðust frumrita af reikningum og varð ég því að útvega þau með DHL hraðpósti. Í þessu furðulega máli eru alls staðar settir fyrir mann þröskuldar í kerfinu og erlendu framleiðendurnir eru gapandi hissa. Ég fékk póst frá framleiðandanum sem spurði hvort við værum ekki í EES. Ég sagði jú, en hann spurði á móti, hvað er þá vandamálið á Íslandi? Ég bara skil þetta ekki,“ segir Jóhannes.

Mun líka valda hreyfihömluðum miklum erfiðleikum

Jóhannes segir að leikföngin séu svo sem eitt, en verra sé að ný lög og reglugerðir séu farnar að hafa áhrif á hreyfihamlaða. Fólk sem þarf sárlega á rafdrifnum hjálpartækjum af ýmsu tagi að halda til að komast ferða sinna. 

„Konan mín er með Parkinsonveiki, en er mikil golfáhugamanneskja. Við keyptum því rafknúið þríhjól hjá Svavari í Hveragerði á sínum tíma sem hún hefur notað á golfvellinum sér til mikils gagns. Nú eru þessi tæki skráningarskyld með tilheyrandi kostnaði og erfiðleikum fyrir slíkt fólk.

Þetta er algjörlega afleitt þegar verið er að semja lagabreytingar og reglugerðir án samráðs við þá sem verða helst fyrir barðinu á þeim breytingum. Svo er enn verra þegar reglugerðirnar eru ekki nógu skýrar þannig að embættismenn í stofnunum ríkisins vita ekkert hvernig þeir eigi að túlka þær. Starfsmenn stofnana vísi bara hver á annan, þetta er engan veginn í lagi,“ segir Jóhannes.

Rafdrifinn leikfangabíll frá Kína sem valdið hefur uppnámi hjá Tollinum, Vinnueftirliti og Samgöngustofu vegna nýrra reglna um skráningu ökutækja.  Vissulega flott eftirlíking af amerískum herjeppa. Að krefjast skráningarskyldu á slíkt leikfang sem er með 1.200 W mótor, svona eins og miðlungs ryksuga, er kannski dálítið mikið í lagt af yfirvöldum á Íslandi. Meira að segja hefur verið nefnt að krefjast skráningar á þetta sem torfærutæki. Þetta finnst kínverska framleiðandanum Yongkang Liqian Industry and Trade co. ltd. vera undarleg stjórnsýsla og langt út fyrir það sem þekkist í öðrum Evrópulöndum sem slík leiktæki eru seld til.

„Halló, þetta eru leikföng fyrir 3–8 ára börn“

Svavar Kristinsson hefur einnig skoðað innflutning á rafdrifnum bílum fyrir börn frá Xingtai Qitai Trading Limited, sem voru enn veigaminni en bílar Jóhannesar. Þar voru gerðar sömu kröfur um alls konar pappíra og vottorð frá Kína með kröfum um skráningarskyldu. Sendi Svavar fyrirspurn um slíka pappíra til Kína. Örstutt svar lýsir vel undrun Kínverjanna, en í því stóð:

„HALLÓ bílarnir okkar og mótorhjólin eru fyrir börn á aldrinum 3–8 ára ...“

Skylt efni: rafhjól

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...