Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Í skýrslu sem verkfræðistofan Efla vann árið 2020 um tilhögun Hrútsmúlavirkjunar fyrir Gunnbjörn ehf. má finna þessa sýnileikamynd af vindmyllum ofan við Minni-Mástungu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. „Ef af þessu verður mun þetta rýra notagildi nærliggjandi jarða og hafa veruleg áhrif á umhverfið í kring,“ segir Jón Marteinn Finnbogason.
Í skýrslu sem verkfræðistofan Efla vann árið 2020 um tilhögun Hrútsmúlavirkjunar fyrir Gunnbjörn ehf. má finna þessa sýnileikamynd af vindmyllum ofan við Minni-Mástungu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. „Ef af þessu verður mun þetta rýra notagildi nærliggjandi jarða og hafa veruleg áhrif á umhverfið í kring,“ segir Jón Marteinn Finnbogason.
Mynd / Efla verkfræðistofa
Fréttaskýring 26. maí 2023

Stjórnvöld verði að fara í heildarstefnumörkun

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Hugmyndir um vindmyllur á Íslandi og að nýta vindorku í auknum mæli eru mjög umdeildar. Tekist er á um hvort ávinningurinn af vindorkuverum vegi þyngra en umhverfisáhrifin sem af hljótast og um hver þau séu í raun.

Vindurinn er óþrjótandi og þróun í vindmyllutækni fleygir fram. Áður en vindmylla á landi er reist þarf að gera plan fyrir undirstöðu hennar með tilheyrandi vegarlagningu. Vindmyllur eru í hæstu stöðu oft 150-200 metra háar og gefa frá sér hljóð og skuggaflökt þegar spaðarnir snúast. Vindmyllur verða að standa þar sem hægt er að koma að aðföngum og tengja rafmagnsframleiðslu þeirra við flutningskerfi raforku. Í vindmyllugarði geta verið tugir vindmylla.

Meðal þess sem huga þarf að vegna áforma um vindmyllur eru áhrif þeirra á náttúru og umhverfi svo sem gróður, jarðminjar, menningarminjar, búsvæði dýra og farleiðir fugla, ásýnd landsins og áhrif á fólk. Stærstu breyturnar í umhverfismati vindorkuvera eru sagðar annars vegar landslags- og ásýndaráhrif og hins vegar áhrif á fuglalíf. Vindmyllur breyta ásýnd landsins en bent hefur verið á að tiltölulega auðvelt sé að fjarlægja þær aftur og endurvinna efni þeirra að hluta. Líftími vindmylla er sagður að jafnaði vera tveir til þrír áratugir og er þá jafnvel hægt að endurnýja þær eða fjarlægja og færa svæðið sem næst fyrra horfi.

Á Íslandi hefur verið farin sú leið að nýta vatnsafl og jarðhita til raforkuframleiðslu en m.a. vegna knýjandi þarfar um viðbrögð við umhverfisvá loftslagsbreytinga er krafa um fleiri leiðir til raforkuframleiðslu og orkuskipti; úr jarðefnaeldsneyti í endurnýjanlega orkugjafa og mikil eftirspurn er eftir grænni orku.

Framleiðsla vindorku er talin henta vel með framleiðslu orku úr vatnsafli, líkt og hér er ráðandi, þar sem hægt sé að geyma vatn í lónum þegar vindurinn blæs en nýta vatnsaflið þegar vindaskilyrði eru lakari.

Hvað varðar vindmyllur á hafi er tæknin við þær skemur á veg komin en á landi. Kostnaðarsamara mun vera að tengja og keyra orkuver á sjó en á landi og áhrif á dýralíf og náttúru talin nokkuð sambærileg og hjá vindorkuverum á landi.

Hugmyndir um tugi staðsetninga misstórra vindmyllugarða vítt og breitt um landið hafa komið á borð verkefnastjórnar í 3. eða 4. áfanga Rammaáætlunar á undanförnum misserum. Framkomnar hugmyndir eru á ýmsum stigum, flestar aðeins á frumstigi og alls óvíst um afdrif margra þeirra. Einkafyrirtæki standa að flestum hugmyndanna og ljóst er að margir einkaaðilar, bæði innlendir og erlendir, hafa mikinn áhuga á uppbyggingu vindorkugarða hér á landi. Íslenskt orkuumhverfi hefur á síðustu árum verið að færast yfir í meira markaðsumhverfi og vaxandi krafa er um að leyfisferli verði gerð gegnsærri og skilvirkari og að arður af auðlind vindorkunnar skili sér til þjóðarinnar burtséð frá eignarhaldi.

Samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun er nú í vinnslu umhverfismat fyrir 11 vindorkuver á landsvísu. Orkustofnun hefur fram að þessu gefið út þrjú virkjunar- leyfi vindorku: Fyrir Belgsholt í Hvalfjarðarsveit árið 2011 fyrir allt að 30 kW vindrafstöð, til Landsvirkjunar 2012 fyrir rannsóknavindmyllurnar nærri inntaksmannvirkjum Búrfellsvirkjunar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, og 2014 til Biokraft ehf. fyrir tvær 600 kW vindrafstöðvar í Þykkvabæ í Rangárþingi ytra.

Skipulagsstofnun er nú með í vinnslu umhverfismat vegna ellefu vindorkuvera en tugir hugmynda að staðsetningum vindorkuvera um allt land hafa komið fram, þótt ætla megi að ekki allar nái landi.

Vindorkuver séu í eigu þjóðarinnar

Eins og áður segir er víða verið að skoða möguleika á vindorkuverum og deilt um hvort þau eigi rétt á sér. Rök hníga bæði með og á móti; meðan sumir telja vindmyllur hið mesta þarfaþing og gagnlega viðbót í raforkuframleiðslu eru aðrir algerlega á öndverðum meiði og segja fjölmargt sýna fram á skaðsemi þeirra og að þær séu í raun óumhverfisvænar þegar grannt sé skoðað. Enn aðrir segja vindmyllur ýmist eiga heima fjarri byggðu bóli og helst á öræfum eða aðeins á svæðum sem þegar er búið að raska með mannvirkjum og í grennd við þéttbýli.

Landsvirkjun reisti árið 2012 tvær vindmyllur í rannsóknarskyni norðan við Búrfell og áformar svonefndan Búrfellslund, vindgarð austan við Sultartangastöð á Þjórsár- og Tungnársvæðinu. Þar rekur Landsvirkjun sjö vatnsaflsstöðvar, og háspennulínur, vegir og ýmis stoðvirki eru þegar til staðar. Vindorkuverið var endurhannað með tilliti til athugasemda og ábendinga við eldri útfærslu í umhverfismati og 3. áfanga Rammaáætlunar og var svæðið minnkað, myllum fækkað úr 67 í allt að 30 og þar með dregið úr uppsettu afli frá 200 MW í 120 MW. Áætluð orkuvinnsla er áætluð 440 GWst á ári, sem nemur um 3% af orkuvinnslu Landsvirkjunar 2022.

Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hefur verið til umfjöllunar hugmynd um vindorkugarðinn Hrútmúlavirkjun á jörðinni Skáldabúðum, með 22 vindmyllum og allt að 85 MW framleiðslugetu. Jón Marteinn Finnbogason, bóndi í Minni-Mástungu þar í sveit, segist ekki endilega vera mótfallinn Búrfellslundi, sem verður innan vébanda Rangárþings ytra. Hann sé á svæði þar sem búið er að prófa tvær vindmyllur sem virðist hafa gefið þokkalega raun og innviðir til staðar sem nýtist, auk þess að vera ekki yfirgnæfandi hvað ásýnd varðar. Hins vegar gegni allt öðru máli um hugmyndir að Hrútmúlavirkjun sem rísa eigi á næstu jörð við Minni-Mástungu niðri í sveitinni, þar sem áhrif, svo sem hljóðvist og ásýnd, hafi veruleg áhrif á nærliggjandi jarðir.

Jón Marteinn Finnbogason, bóndi í Minni-Mástungu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, segist ekki mótfallinn Búrfellslundi en hafnar hugmyndum um vindorkuver á nágrannajörð.

„Ég er gífurlega mótfallinn þessum áformum og það hefur ekkert samráð verið haft við okkur landeigendur í kring af hálfu forsvarsmanna verkefnisins,“ segir Jón Marteinn. „Þetta á að vera garður með 22 150 m háum vindmyllum (Hallgrímskirkja er 74,5 metrar) og í ofanálag standa Skáldabúðir í 220 metrum yfir sjávarmáli þannig að vindmyllurnar blasa við þegar ferðast er um Hreppa og Skeið og Rangárþing.“ Hann segist fyrst hafa komist á snoðir um áformin fyrir tilviljun þegar hann rakst á skýrslu verkfræðistofunnar Eflu um verkefnið sem fylgigagn fundargerðar sveitarstjórnar á vefnum.

„Ef af þessu verður mun þetta rýra notagildi nærliggjandi jarða og hafa veruleg áhrif á umhverfið í kring. Þetta vakti mikinn óhug okkar. Er ekki það sama að gerast í Hvalfirði, Borgarfirði og Dölunum? Ég hef engan áhuga á vindmyllum og að ég þurfi að eyða tíma mínum í að afla upplýsinga til að verða einhvers konar vindorkuverasérfræðingur til að verjast þessu – og að íbúar í dreifbýli þurfi að ráða sér lögfræðinga til að verja hendur sínar – er fráleitt,“ heldur hann áfram.

„Á fundi með sveitarstjórn Skeið-Gnúp 2021 lýstum við ásamt landeigendum nærliggjandi jarða áhyggjum okkar og óánægju af þessum áformum eftir að landeigandi Skáldabúða hafði kynnt verkefnið fyrir sveitarstjórn nokkru áður, þar með lagði sveitarstjórn þetta mál til hliðar, sérstaklega í ljósi þess að það er enginn lagarammi kominn um þetta. Sveitarfélögin hafa sáralitlar tekjur af vindmyllum og því enginn hvati þar. Þar við bætast neikvæð áhrif á ferðamannaiðnað á svæðinu. Mín sýn er að ef reisa á vindorkuver eigi þau að vera í eigu okkar allra og vera á fáum og vel völdum stöðum. Ég er ekki hlynntur framkvæmd einkaaðila þar sem að baki standa erlend stórfyrirtæki. Ég set líka spurningarmerki við að Íslendingar framleiði sex sinnum meira rafmagn pr. íbúa en aðrar velmegunarþjóðir í kringum okkur og hvort sé í raun svona mikil þörf á orku, eins og nú þegar Landsvirkjun er að knýja Hvammsvirkjun í gegn,“ segir Jón Marteinn að lokum.

Með og á móti

Svo annað dæmi sé tekið af handahófi er Klausturselsvirkjun á Fljótsdalsheiði í Múlaþingi á frumstigi en þar áætlar fyrirtækið Zephyr Iceland að reisa í áföngum 70 til 100 vindmyllur með allt að 500 MW afli. Fyrsti áfangi yrði á bilinu 50-300 MW. Þá hefur Orkusalan hug á að setja upp tvær vindmyllur við Lagarfossvirkjun, 150-160 m háar, sem framleiði allt að 9,9 MW.

Aðalsteinn Jónsson, bóndi í Klausturseli á Jökuldal, segir að líta beri til fjölbreyttra raforkukosta í ljósi ákalls um aukningu raforkuframleiðslu. Mynd / Steinunn

„Ég er hlynntur virkjun vindsins og vindmyllur um alla Evrópu virðast gefa þokkalega raun,“ segir Aðalsteinn Jónsson, fyrrum bóndi í Klausturseli á Jökuldal, en Marteinn Óli, sonur hans, er tekinn við jörðinni og búskapnum. „Því skyldum við ekki nýta þessa leið eins og aðrir hafa gert með góðum árangri? Þó þarf að tryggja nærsamfélagi arð af raforkuframleiðslunni umfram það sem er í dag.“ Aðalsteinn segist ekki telja að vindmyllur Klausturselsvirkjunar muni fæla frá ferðafólk enda væru þá færri ferðamenn í löndum Evrópu en raun beri vitni. Fyrirhuguð Klausturselvirkjun komi ekki til með að sjást frá byggðu bóli enda dalir djúpir á svæðinu og heiðin 20 km milli fjallsbrúna.

„Við þurfum að bæta við raforkuframleiðslu, eða það er okkur allavega sagt.“ Nýta þurfi fjölbreytta raforkuframleiðslukosti og hann nefnir í því sambandi að nágranni hans á Hákonarstöðum hafi farið í jarðvarmaskipti til að hita upp hús sitt og sparað sér umtalsverð raforkukaup síðan. „Þar er til dæmis möguleiki fyrir einstök býli á köldum svæðum. Það segir ekki mikið í heildarpakkanum en menn eiga að horfa á alla kosti.“

Fyrirhuguð Klausturselsvirkjun mun standa í landi Klaustursels. Aðalsteini þykir nokkuð sérstakt hvernig Landvernd hafi beitt sér af afli á móti vindmyllugarðinum, sem verði á einkalandi. Þáverandi sveitarfélagið Fljótsdalshérað gaf leyfi fyrir uppsetningu rannsóknarmasturs árið 2019 en hið sameinaða Múlaþing telur að endurnýja þurfi rannsóknarleyfið þrátt fyrir að fyrirtækið að baki framkvæmdinni bendi á að leyfi sé þegar til staðar og vilji reisa mælingamastur nú í sumar. Aðalsteinn telur að ef stjórnvöld fari fljótlega í lagasetningu gæti Klausturselsvirkjun jafnvel orðið að veruleika á næstu þremur til fimm árum.

Anna Bryndís Tryggvadóttir, bóndi á Skriðuklaustri í Fljótsdal, telur að talsmönnum vindorkuvirkjana beri að hlusta á gagnrýnisraddir og koma með raunveruleg mótrök ef þau séu til á annað borð.

Anna Bryndís Tryggvadóttir, bóndi á Skriðuklaustri í Fljótsdal, segist vera algjörlega á móti öllum áformum um vindorkuver og því hversu fegrað tungutak er notað um vindvirkjanir, þetta séu ekki lengur neinar myllur, heldur risaorkuver. 

„Ég er búin að velta þessu vandlega fyrir mér og finnst þessi áform galin. Ég var hlynnt vindmyllum og hefði einhvern tímann getað hugsað mér að setja vindmyllu hér við íbúðarhúsið, en þetta snýst ekki lengur um að búa til rafmagn fyrir fólkið á svæðinu heldur um að fjárfestar og braskarar versli með peninga og þeim mönnum er alveg sama um náttúruna og umhverfið.“ Hún segir að í samanburði finnist sér Kárahnjúkavirkjun barnaleikur. „Skemmdirnar og skaðinn sem þetta veldur eru ótrúleg. Hengifoss er til dæmis 128 metra hár en stöpull á einni vindmyllu er 120 metrar. Það gerir enginn sér grein fyrir hvers konar stærð er á því sem troða á hér uppi á heiði.“

Hún nefnir dæmi frá Evrópu um neikvæð áhrif á dýralíf og mannlíf. „Það er einhver hátíðni frá vindmyllunum sem hrekur skepnur í burtu og hefur áhrif á heilsu fólks.“ Þá minnir hún á að á vindmyllum séu rauð ljós sem blikki allan sólarhringinn árið um kring, ískur, slysahætta, eldhætta og að þótt vindmyllur eigi að endast í 25 ár dugi þær oft ekki nema í áratug og hnigni strax á fyrstu árum í rekstri. Svo þurfi að urða mest af þeim því takmarkað sé hægt að endurvinna. „Það þyrfti miklu öflugri vegi upp á heiðar en okkar íslensku vegi, til að flytja þessi ósköp, stólpana, spaða og annað, á áfangastað. Svo eru brýrnar allt of mjóar og þær eru þar að auki margar gamlar og lúnar.“ Hún segir fólk skiptast í fylkingar og skoðanaskipti vera hörð. „Eitthvað er jákvætt við þetta, það hlýtur að vera, en mér finnst að horfa eigi til allra sjónarmiða sem teljast neikvæð og svo eigi forsvarsmenn vindmylla þá að hrekja rökin með óvéfengjanlegum staðreyndum, þannig að raunveruleg áhrif liggi ljós fyrir.“

Framkvæmdaaðilar Klaustursels- og Lagarfossvirkjana hafa báðir skilað inn matsáætlun sem er til meðferðar hjá Skipulagsstofnun og hafa verið gerðar athugasemdir við þær af ýmsum aðilum. Múlaþing ákvað hins vegar í janúar sl. að sveitarfélagið myndi ekki samþykkja uppbyggingu vindorkuvera innan sveitarfélagsins fyrr en stefnumótun ríkisvaldsins í þeim málum yrði ljós. Í fyrra vann verkfræðistofan Efla ítarlega greiningu á hentugleika landsvæða í Múlaþingi m.t.t. vindorkunýtingar.

Þörf á heildarstefnumörkun

Í áfangaskýrslunni Vindorka - valkostir og greining sem starfshópur umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins skilaði í apríl, er m.a. fjallað um hvernig megi einfalda uppbyggingu vindorkuvera til grænnar orkuframleiðslu, með hvaða hætti eigi að ákvarða stærð og staðsetningu þeirra og hvernig megi ná sem víðtækastri sátt um slíkt.

Í ljósi þess hversu umfang verkefnisins er mikið og umræðan enn að þroskast var verkefninu áfangaskipt og í fyrsta hluta liggur fyrir greining á viðfangsefninu og yfirlit um helstu valkosti.

Lykilspurningar eru t.d. hvort vindorkuver eigi áfram að heyra undir lög um Rammaáætlun eða standa utan hennar, hvernig hátta skuli gjaldtöku af þeim, m.a. skiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, og hvort forgangsraða þurfi orkuöflun í þágu loftslagsmarkmiða og skuldbindinga Íslands í þeim efnum.

Einnig er spurt hvort tilefni sé til að setja sérstök viðmið um staðsetningu, fjölda og stærð vindorkuvera. Gerð er grein fyrir hvernig Danmörk, Noregur, Skotland og Nýja-Sjáland haga vindorkumálum sínum og fjallað upp að einhverju marki um möguleika vindorkuvera á sjó. Í þessum fyrsta áfanga vinnu starfshópsins er meginniðurstaðan að stjórnvöld verði að fara í heildarstefnumörkun vindorkumála.

Í starfshópnum sitja Hilmar Gunnlaugsson, lögmaður og formaður hópsins, Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, og Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrverandi þingmaður.

Skýrslan hefur undanfarið verið kynnt á opnum fundum út um landið og segir í henni að það sé von starfshópsins að hún verði grundvöllur opinnar umræðu um málefnið. „Það hve skammt á veg við erum komin í málefnum vindorku, miðað við margar aðrar þjóðir, gefur okkur færi á því að horfa heildstætt á málefnið og setja skýran ramma til framtíðar. Þar skiptir ekki síst máli hvernig samspili orkuöflunar verður háttað við áætlanir um að ná kolefnishlutleysi og hætta notkun jarðefnaeldsneytis árið 2040. Ljóst er að ef þau markmið eiga að nást á 17 árum þarf heildstæða stefnumótun í öllum orkubúskap þjóðarinnar,“ segir í skýrslunni. Jafnframt er bent á að mörg álitaefni eigi jafnt við um aðrar virkjanir sem nýta vatnsafl og jarðvarma.

Því séu stjórnvöld hvött til að huga heildstætt að orkukerfinu.

Á Náttúruverndarþingi 2023, sem haldið var 29. apríl sl. í Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, sagðist Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telja að vindorkuver ættu heima undir Rammaáætlun. Þingið varaði í ályktun við skautun í samfélaginu þar sem loftslagsumræðu væri oft stillt upp á móti náttúruvernd. Draga þurfi úr upplýsingaóreiðu með fræðslu til skólabarna, háskólanema, fjölmiðlafólks, þingmanna, sveitarstjórna og almennings.

Stjórnvöld verða að fara í heildarstefnumörkun í vindorkumálum.

Sveitarfélög vilja meiri vigt

Um fjörutíu manns fóru nýlega í fræðsluferð um hagnýtingu vindorku í Noregi en hún var skipulögð af íslenska sendiráðinu í Noregi í samstarfi við Grænvang, samstarfsvettvang atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir. Fulltrúar Skeiða- og Gnúpverjahrepps og sveitarstjórna á Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi fóru í ferðina auk hagsmunaaðila úr íslenska orkugeiranum og fulltrúa ráðuneyta og starfshópa. Þar hitti hópurinn m.a. forsvarsmenn sveitarfélaga, orkuframleiðendur og fleiri hagaðila við hagnýtingu vindorku. Áður hafa verið farnar fræðsluferðir, t.d. til Danmerkur, í sömu erindagjörðum.

Bjarni H. Ásbjörnsson, varaoddviti Skeiða- og Gnúpverja- hrepps, skrifar í pistli um ferðina, sem birtist í Gauknum, fréttabréfi Skeiða- og Gnúpverjahrepps, í apríl sl., að Norðmenn hafi verið jákvæðir gagnvart vindmyllum á landi í upphafi en það hafi breyst eftir því sem tækni fleytti fram og myllurnar urðu hærri og stærri til að auka framleiðslugetu. Norðmenn horfi nú mögulega fremur til þess að reisa vindorkugarða úti fyrir strönd landsins með fljótandi vindmyllum sem stagaðar væru niður í stað þess að standa á hafsbotni.

Dýptarviðmið vindmylluframleiðenda eru skv. Vindorkuskýrslunni 100 m fyrir botnfastar vindmyllur og fljótandi vindmyllur notaðar á dýpri hafsvæðum. Viðmiðin breytist hins vegar hratt. Hafsbotn í kringum Ísland með minna en 100 m dýpi er um það bil 43.447 km2 eða um 5,7% efnahagslögsögunnar.

„Leyfi til framleiðslu á rafmagni með vindorku í Noregi er veitt til 30 ára,“ skrifar Bjarni í grein sinni. „Á þeim tíma er framleiðanda skylt að leggja hluta af tekjum af raforkusölunni í sjóð sem notaður verður til þess að fjármagna það að taka niður vindmyllurnar eftir 30 ára notkun og ganga frá landi þannig að það verði sem næst því sem það var áður en uppbygging hófst.“

NVE, ríkisstofnun sem heyrir undir norska olíu- og orkumálaráðuneytið og yfirfer allar umsóknir um orkuframleiðslu í landinu, hefur samkvæmt Bjarna hafnað umsóknum um orkuframleiðsluleyfi vegna rökstuddrar gagnrýni frá samfélögum og sveitarstjórnum. Niðurstaðan sé endanleg og ekki kæranleg. Rík áhersla sé lögð á aðkomu íbúa og nágrannasveitarfélaga í undirbúningi leyfisveitinga NVE.

Í Vindorkuskýrslunni er minnst á að meðal leiða til að einfalda ferli leyfisveitinga gæti verið að sameina eða fækka leyfum sem sækja þurfi um, efla stofnanir sem veita leyfi og einfalda ferlið t.d. með því að skilgreina eina stofnun sem aðilar geti sótt upplýsingar um öll leyfi til.

Samtök orkusveitarfélaga telja að sveitarfélög beri ekki nóg úr býtum af virkjunum innan þeirra vébanda, m.a. vegna þess að orkumannvirki eru undanþegin lögum um fasteigna- skatta, að frátöldum eiginlegum stöðvarhúsum. Hafa sum hver hætt að veita framkvæmdaleyfi fyrir nýjum virkjunum að óbreyttu. Samorka, samtök veitu- og orkufyrirtækja á Íslandi, telur mögulega heppilegra að sveitarfélög ráði framtíð vindorkunýtingar fremur en Alþingi.

Ljóst virðist að umræðan um vindorkuver er enn skammt á veg komin á Íslandi og finna þarf henni farveg sem byggir á áreiðanlegum upplýsingum, óhlutdrægni og yfirvegun.

Ákvörðunarferli

  • Áður en vindmyllur eru reistar verður að liggja fyrir samkomulag framkvæmdaaðila við eigendur þess lands sem þær verða reistar á. Landið getur ýmist verið í einkaeigu eða eigu opinberra aðila.
  • Til að fá heimild til að reisa og reka vindmyllu fer verkefnið í gegnum margvísleg skref í stjórnsýslunni. Segja má að sveitarfélög séu þar þýðingarmesta stjórnvaldið enda fara þau með skipulagsvald innan sinnan marka.
  • Á undirbúningsstigi fer framkvæmdin í gegnum umhverfismat á grundvelli laga nr. 106/2000. Í því mati er framkvæmdaaðila skylt að rannsaka og gera skilmerkilega grein fyrir verkefninu og umhverfisáhrifum s.s. áhrifum á náttúru og þá sem búa í umhverfi þess.
  • Framkvæmdin fer í gegnum skipulagsferli viðkomandi sveitarfélags og þarf að samrýmast bæði aðal- og deiliskipulagi. Ýmsar opinberar stofnanir veita umsagnir um skipulagstillöguna s.s. Umhverfisstofnun um náttúruvernd og mengunarmál og Minjastofnun Íslands um fornleifar og húsvernd. Skipulagsstofnun leiðbeinir sveitarfélögum við skipulagsgerð og staðfestir aðal- og svæðisskipulag.
  • Áður en framkvæmdir hefjast þarf framkvæmdaleyfi sveitarfélags að vera til staðar. Við útgáfu framkvæmdaleyfis er gætt að því að undirbúningur framkvæmdarinnar hafi verið fullnægjandi og í samræmi við lög.
  • Orkustofnun veitir hið eiginlega leyfi, svokallað virkjunarleyfi, til að reisa og reka vindorkuver skv. 4. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Orkustofnun er heimilt að setja skilyrði í leyfið.
  • Í núgildandi rammaáætlun sem samþykkt var 15. júní 2022 af Alþingi eru tveir vindorkunýtingarkostir í orkunýtingarflokki, annars vegar Búrfellslundur með uppsett afl 120 MW (440 GWst á ári) og Blöndulundur með uppsett afl 100 MW (350 GWst á ári).

Skylt efni: Vindmyllur | vindorka

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver
Fréttaskýring 30. desember 2024

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver

Stefnt er að stofnun rekstrarfélags á næstunni utan um starfsemi á lífgas- og áb...

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...