Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Argentínska strandgæslan hefur afskipti af kínversku túnfiskveiðiskipi.
Argentínska strandgæslan hefur afskipti af kínversku túnfiskveiðiskipi.
Fréttaskýring 19. janúar 2021

Stór hluti heimsaflans úr ólöglegum, óskráðum og stjórnlausum veiðum

Höfundur: Guðjón Einarsson

Áætlað er að 20–50% af fisk­aflanum úr heimshöfunum komi frá ólöglegum, óskráðum eða stjórnlausum veiðum. Þetta er ein ástæða þess að mörgum fiskistofnum hrakar hratt. Rányrkjan kemur harðast niður á fátækum strandveiðisamfélögum. Þessi ólöglega starfsemi elur svo af sér annars konar glæpi, svo sem vinnuþrælkun og mansal, en glæpamennirnir sleppa yfirleitt með lágar sektir og halda síðan áfram iðju sinni.

Þessar ólöglegu veiðar birtast á margvíslegan hátt. Breska tímaritið The Economist gerir þessu málefni skil nýlega og nefnir nokkur dæmi.

Nú um nokkurra ára skeið hefur það undarlega gerst að frumstæð tréfiskiskip frá Norður-Kóreu hefur rekið upp að strönd Japans í hundraða tali, oftast mannlaus en stundum með líkamsleifum sjómanna um borð. Vitað er að fiskveiðar í Norður-Kóreu eru vanþróaðar en sjórinn við strendur landsins er ríkur af sjávarfangi. Því hafa menn furðað sig á því að svona frumstæðar fleytur hafi leitað svo langt frá landi að þær hafi annaðhvort týnst eða hrakist af leið í stormum og stórsjó í Japanshafi.

Eitt af hundruðum norður-kóreskra „draugabáta“ sem rekið hafa upp að strönd Japans í seinni tíð.

Þúsund skip á veiðum

Á sama tíma hefur strandgæsla Suður-Kóreu orðið þess vör að stór floti hraðskreiðra smokkfiskskipa frá Kína hafi siglt í einni röð í gegnum lögsögu Suður-Kóreu með slökkt á sjálfvirku auðkenniskerfi þeirra (AIS). Með hjálp gervihnattaeftirlits hefur verið áætlað að næstum eitt þúsund kínversk smokkfiskskip hafi verið að veiðum á ári hverju innan 200 mílna lögsögu Norður-Kóreu. Ofveiði þessara skipa er talin hafa hrakið norður-kóreska sjómenn lengra á haf út en góðu hófi gegnir með fyrrgreindum afleiðingum. Auk þess er ofveiði kínversku skipanna við strendur Norður-Kóreu talin orsök þess að mjög hefur dregið úr smokkfiskafla úti fyrir ströndum Suður-Kóreu og Japans hin síðari ár.

The Economist segir að ólíklegt sé að kínversku skipin séu þarna að veiðum samkvæmt samningi kínverskra stjórnvalda og Kim Jong Un, einræðisherra í Norður-Kóreu, en jafnvel þótt sú sé raunin séu veiðarnar engu að síður ólöglegar því þær séu brot á viðskiptabanni Sameinuðu þjóðanna frá 2017 gagnvart Norður-Kóreu vegna kjarnorkuvopnamála.

Kínverjar umsvifamiklir á heimshöfunum

Kínverjar eru mjög umsvifamiklir í fiskveiðum á heimshöfunum. Skömmu eftir að skýrsla um smokkfiskveiðar þeirra við Norður-Kóreu var birt var frá því skýrt að floti 260 kínverskra fiskiskipa væri á smokkfiskveiðum rétt utan við lögsögu Ekvador við Galapagoseyjar og sum þeirra hefðu slökkt á tækjum sínum og laumast inn fyrir lögsögumörkin. Flest skipanna voru þó að veiðum á alþjóðlegu hafsvæði og virtust því ekki brjóta nein lög. Smokkfiskveiðar í úthafinu eru ekki háðar neinni stjórnun gagnstætt því sem á við um t.d. túnfiskveiðar, og því er ekki hægt að hafa neinn hemil á þeim. Kínverski flotinn flytur sig yfirleitt í kringum áramót að landgrunnsbrún Argentínu og mokar þar upp smokkfiski áður en smokkfiskvertíð Argentínumanna byrjar í kjölfar hrygningar. Þetta skerðir lífsafkomu þúsunda suður-amerískra fiskimanna sem veiða nær landi.

Sókn í smokkfisk í heimshöfunum hefur aukist verulega í seinni tíð vegna þess hve mjög hefur verið gengið á stofna fiska sem eru ofar í fæðukeðjunni. Þetta er ekki síður alvarleg þróun vegna þess að smokkfiskur er mikilvæg fæða margra fisktegunda, sem fiskimenn með ströndum fram byggja afkomu sína á.

Víðtækt vandamál

Þótt kínverski flotinn sé sá umsvifamesti á heimshöfunum er hann auðvitað ekki sá eini. Þannig hefur verið ljóstrað upp um ólöglegar veiðar næstum 200 íranskra fiskiskipa sem nota reknet til veiða á túnfiski undan ströndum Sómalíu og Jemen og svo eru ólöglegar veiðar á hinum verðmæta tannfiski í Suðurhöfum einnig áhyggjuefni, svo einhver dæmi séu nefnd.

Þótt ólöglegar veiðar svonefndra sjóræningjaskipa séu alvarlegt og útbreitt vandamál má ekki loka augunum fyrir því að flest brotin eiga sér stað á skipum sem eru löglega skráð. Skip sem veiða meira en þau hafa leyfi fyrir eða skrá ranglega þær tegundir sem þau veiða. Skip sem nota ólögleg reknet eða net með of smáum möskvum svo inn hrúgast meðafli sem síðan er fleygt í sjóinn, bæði fiskur og friðuð sjávardýr.
Vinnuþrælkun og mannréttindabrot

Svo rammt kveður að þessum lögbrotum að eftirlitsaðilum í fátækari löndum heims, svo sem í Afríku, Suðaustur-Asíu og við Kyrrahaf, er algjörlega ofviða að stemma stigu við þeim eða koma lögum yfir brotamennina. Ofan á fiskveiðilagabrotin koma svo alvarleg mannréttindabrot á sjó. Vinnuþrælkun og önnur misnotkun á vinnuafli er útbreidd um borð í asískum fiskiskipum. Fiskveiðar eru gríðarlega stór atvinnugrein í Taílandi en Taílendingar eru sjálfir tregir til að ráða sig í skipsrúm og því er tugþúsundum manna smyglað inn í landið á ári, aðallega frá Kambódíu og Míanmar, til að vinna á skipunum. Óvandaðir skipstjórar versla með þessa menn eins og búfénað og aðbúnaðurinn og meðferðin á mannskapnum er oft eins og í þrælabúðum. Taívan hefur einnig orð á sér fyrir illa meðferð á sjómönnum og slæma umgengni um fiskistofna. Það leiddi m.a. til þess að Evrópusambandið hótaði árið 2015 að banna innflutning á sjávarafurðum frá landinu og bandarísk tollayfirvöld hafa hert eftirlit sitt af sömu ástæðu. Ólöglegum veiðum fylgir svo einnig önnur ólögleg starfsemi, svo sem vopnasmygl og peningaþvætti.

Hvað er til ráða?

Erfitt er að meta umfang ólöglegra, óskráðra og stjórnlausra veiða í heimshöfunum en hugveitan Stimson Center í Washington í Bandaríkjunum áætlar að hún geti numið milli 20% og 50% heimsaflans og hagnaður af þeim mælist í tugum milljarða dollara.

En hvað er þá til ráða? Í grein The Economist er bent á tvennt. Annars vegar að beita í auknum mæli nýjustu tækni við eftirlit með veiðum bæði innan og utan lögsagna ríkja og hins vegar að ná alþjóðlegu samkomulagi um bann við styrkjum sem ýta undir ólöglegar veiðar, einkum niðurgreiðslu á eldsneyti til fiskiskipa. Ef niðurgreiðslu á olíu yrði hætt og gerðar yrðu ráðstafanir til þess að stöðva þrælahaldið um borð í skipum myndi helmingur af úthafsveiðum í heiminum verða óarðbær.

Ástandið á okkar hafsvæði

Eins og áður sagði kveður rammast að ólöglegum og stjórnlausum veiðum í Kyrrahafi og á hafsvæðum við Afríku og Suðaustur-Asíu. En hvernig er ástandið í okkar nærumhverfi, Norður-Atlantshafinu?

Auðvitað má alls staðar finna dæmi um brot á fiskveiðilögum en brotastarfsemi af því tagi sem viðgengst annars staðar á hnettinum er ekki til staðar lengur á okkar hafsvæði svo nokkru nemi. Margir muna eftir hentifánaskipum sem stunduðu veiðar á úthafskarfa utan lögsögu á Reykjaneshrygg á árunum eftir síðustu aldamót í trássi við reglur Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC), FAO og hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna. Þær veiðar voru stöðvaðar með auknu eftirliti Landhelgisgæslunnar og þrýstingi á þá aðila sem veittu skipunum þjónustu á hafi úti og tóku við afla þeirra. Tilgangurinn var að koma í veg fyrir að þau gætu landað illa fengnum afla og það tókst. Skipin hættu veiðum.

Hafnbann áhrifarík ráðstöfun

„Aðgerðirnar gegn hentifána­veiðunum á Reykjanes­hrygg voru ekki hvað síst drifkraftur samstarfs NEAFC-ríkjanna gegn slíkum veiðum. Sú aðgerð tókst og eftir það hafa hentifánaskip ekki verið að veiðum í NA-Atlantshafi ef undan eru skilin nokkur frávik á túnfiskveiðum,“ segir Stefán Ásmundsson, skrifstofustjóri í atvinnuvegaráðuneytinu, í samtali við Bændablaðið. Hann segir enn fremur að samstarf NEAFC-ríkjanna á þessu sviði hafi verið útvíkkað til Norðvestur-Atlantshafs og nú séu Bandaríkjamenn, Kanadamenn og Japanir orðnir þátttakendur.

Það hefur sýnt sig að hafnbann á hentifánaskip og þjónustuskip þeirra hefur reynst áhrifaríkt ráð til þess að koma í veg fyrir ólöglegar veiðar þeirra á úthöfunum en Stefán bendir á að til þess að hafnbann nái sínum tilgangi þurfi víðtækt svæðisbundið samstarf margra ríkja. Hafnbann í einu ríki hafi lítil áhrif ef viðkomandi skip geti flutt sig yfir í næsta land til þess að losa sig við aflann. Þar að auki hafi mörg fátækari ríkjanna litla yfirsýn yfir það hvað veitt er innan og utan lögsögu þeirra sjálfra. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, hefur lagt ríka áherslu á að aðstoða ríki við að auka eftirlit og upplýsingaöflun í höfnum til þess að stemma stigu við ólöglegum veiðum og þess er vænst að þessar aðgerðir ásamt öðrum muni smám saman gera sitt gagn í baráttunni gegn rányrkju á heimshöfunum. En þetta mun allt taka langan tíma.

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...