Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Þingmenn með þvagprufur.
Þingmenn með þvagprufur.
Fréttaskýring 30. júní 2016

Þingmenn 13 landa ESB pissuðu plöntueitri

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Vaxandi áhyggjur eru af notkun skordýraeiturs og gróðureyðingarefna í landbúnaði víða um lönd. Leiddar hafa verið líkur að því að notkun slíkra efna sé farin að hafa alvarleg áhrif á heilsu fólks sem neytir afurða sem framleiddar eru með aðstoð slíkra efna. Ítarleg úttekt var m.a. um þessi mál í franska blaðinu Courrier í maí en það er dótturblað Le monde.
 
Varðandi notkun slíkra efna í landbúnaði, sem og notkun fúkkalyfja, hefur íslenskur landbúnaður að öllum líkindum mikla sérstöðu. Sem dæmi þá notar íslensk ylrækt, sem ræktar m.a. jarðarber, tómata gúrkur, blóm og margs konar grænmeti, lífrænar varnir (skordýr) til að verja sína uppskeru en ekki eiturefni.  
 
Verður glýfósat bannað í Evrópu eða ekki?
 
Glýfosat (Glyfhosate) eða N-(phosphonomethyl)glycine, er eitt þeirra virku efna, m.a. í illgresiseyðinum Roundup, sem um ræðir. Evrópusambandið frestaði því í annað sinn þann 19. maí að greiða atkvæði um að staðfesta bann við notkun þess innan ESB sem taka á gildi 30. júní.
 
Gríðarlegir peningahagsmunir eru í húfi og ljóst að framleiðendur efnanna leggja mikið á sig til að tryggja áframhaldandi notkun. Roundup, sem inniheldur glýfósat, er mest notaða plöntueitur í landbúnaði Evrópu og uppspretta um eins þriðja af tekjum framleiðandans Monsanto í álfunni. Efnið er talsvert notað hér á landi, en einkum af opinberum aðilum og einstaklingum. 
 
Gríðarleg og ört vaxandi notkun
 
Á árinu 2011 nam notkunin á glýfósat-­gróðureyðingarvörum um 650.000 tonnum. Söluandvirðið (2010) nam um 6,5 milljörðum Bandaríkjadollara eða meira en söluandvirði allra annarra tegunda gróðureyðingarefna samanlagt. Hefur notkun glýfósat og svipaðra efna  verið að aukast hröðum skrefum undanfarin ár vegna aukinnar notkunar eiturefnaþolinna afbrigða, ekki síst í korni. Það þýðir að mögulegt er að nota enn meira af illgresiseyði en ella.  
 
Því hefur verið spáð að notkunar­tölur á glýfósati frá 2011 muni tvöfaldast til 2017. Um 85% af erfðabreyttu korni var árið 2012 með innbyggt þol fyrir gróðureyðingarefnum. Í Bandaríkjunum var þá um helmingur kornuppskerunnar erfðabreyttur eða „Monsanto’s Roundup Ready“, en það var ræktað á um 65 milljónum hektara. Evrópusambandið hefur fengið inn á sitt borð vaxandi fjölda umsókna um ræktun á erfðabreyttu korni. Það er m.a. eitt af lykilatriðunum í TTIP-tollaviðræðunum við Bandaríkin.
Samkvæmt frétt Observer um leyniskjöl sem þar hafa verið í umræðunni hefur ESB boðið 97% tollaafslátt. Það þýðir að bandarískt nautakjöt ætti greiða leið inn í sambandið, en það er framleitt að stórum hluta með erfðabreyttu kornfóðri. Þar með ykist krafan á að fá að rækta erfðabreytt korn í Evrópu sem yrði aldeilis vatn á myllu einkaleyfishafa eins og Monsanto.   
 
Glýfósat finnst í þvagi manna
 
Samkvæmt tölum Vina jarðar, hefur glýfósat fundist í þvagi 44% þeirra sýna sem tekin voru í 18 Evrópulöndum. Það kemur ekki hvað síst úr Roundup frá Monsanto, en einnig frá fyrirtækjum eins og Syngenta og Dow. Evrópusambandið opinberar ekki tölur um það magn gróðureyðingarefna sem notað er í löndum sambandsins. 
 
Vitað er þó að glýfósat er algengasta eiturefnið í landbúnaði í Bretlandi og stendur fyrir um 35% af illgresiseyðisnotkuninni í Danmörku. Í þýskalandi hefur glýfósat verið úðað á um 4,3 milljónir hektara árlega, eða um 39% af ræktarlandinu. Samkvæmt tölum Vina jarðar er áætlað að um 50–60% af sólblómauppskerunni í Frakklandi (þar sem glýfósat á þó að heita bannað), Rúmeníu og Ungverjalandi sé meðhöndlað með glýfósati. Þá er þetta efni algengasta eiturefnið í ávaxtaframleiðslu í Bretlandi.  
 
Þrælmengaðir Evrópusambandsþingmenn
 
Í apríl var kunngerð rannsókn á þvagsýnum sjálfboðaliða meðal þingmanna Evrópusambandsins. Var rannsóknin gerð að undirlagi Græningja á Evrópuþinginu. Alls tóku 48 þingmenn frá 13 ESB-löndum þátt og lögðu fram þvagsýni. Flestir þingmannanna voru frá Belgíu, Frakklandi og Þýskalandi. 
 
Í öllum sýnunum, sem skoðuð voru hjá Biocheck Laboratory í Þýskalandi, fannst eiturefnið glýfósat. Að meðaltali voru 1,7 míkrógrömm af glýfósati (miðað við lítra) í þvagi hvers þingmanns, eða 17 sinnum meira að meðaltali en heimilt er í drykkjarvatni í Evrópu. Hlutfallið var misjafnt, eða allt frá 5 sinnum meira en í drykkjarvatni, upp í 42 sinnum hærra. Hæsta glýfósathlutfallið var í þvagi þingmanna frá Litháen, Spáni og Króatíu, en lægst hlutfall í þingmönnum frá Finnlandi, Írlandi og Ítalíu. Niðurstaðan sýnir að glýfósat er í umtalsverðu magni í þeirri fæðu sem þingmenn neyta m.a. á þinginu.
 
Nánast allir Þjóðverjar eru mengaðir af glýfósati
 
Önnur þýsk rannsókn, „Urinale 2015“, notaði þvagsýni úr 2.000 einstaklingum. Þar kom í ljós að 99,6% þátttakenda voru með glýfósat yfir 1% viðmiðunarmarki drykkjarvatns í líkama sínum. 
 
Glýfósat í þýskum bjór
 
Í enn einni rannsókninni kom í ljós að glýfósat er í mörgum af þekktustu bjórtegundum Þýskalands. Magnið er allt að 30 míkrógrömm í lítra, eða þrítugfalt það magn sem eðlilegt er talið í vatni. Umhverfisstofnunin í München sagði þessa niðurstöðu kasta rýrð á 500 ára gömul lög um  hreinleika á bjór í landinu.   
 
Í rannsókn sem gerð var á 48 bændum, eiginkonum þeirra og 79 börnum í Bandaríkjunum árið 2004, kom í ljós miklu hærra innihald glýfósat í þvagi en greindist í þingmönnum ESB. Reyndist það vera á bilinu 2,3 til 233 ppb-gildi. Í rannsókn á þvagi fransks bónda árið 2012 var ppb-gildið 9,5 og allt að 2 ppb í börnunum hans þremur.   
 
Innan ESB hefur ekki fengist meirihluti um að framlengja leyfið eða veita undanþágu til áframhaldandi sölu á efninu í 12 til 18 mánuði eins og framleiðandinn hefur farið fram á. Reyndar hafði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sent frá sér reglugerð í maí á þessu ári til umfjöllunar innan ríkja ESB um að leyfa glýfósat í sjö eða níu ár til viðbótar en ekki í 15 ár eins og áður hafði verið lagt til. 
Bretar eru mjög óhressir með að atkvæðagreiðslan um framlengingu hafi ekki náð fram að ganga. Þess má geta að Monsanto, risafyrirtækið sem hannaði Roundup og markaðssetti árið 1974, hefur lýst yfir áhuga á að flytja höfuðstöðvar sínar frá Bandaríkjunum til London. Notkun á glýfósati er opinberlega bönnuð í Frakklandi, en miklar efasemdir eru um að það bann hafi haldið. Samkvæmt frétt á EcoWatch.com hafa um 1,4 milljónir Evrópubúa skrifað undir áskorun til ESB og Evrópuráðsins um að glýfósat verði bannað í ríkjum ESB. Sú áskorun er studd af fulltrúum Frakklands, Svíþjóðar, Ítalíu og Hollands á Evrópuþinginu. 
 
Tímabært að rannsaka Íslendinga
 
Í ljósi þessa hlýtur að vera tímabært að gera nú þegar viðlíka þvagrannsókn á Íslendingum, ekki síst þeim sem lítið eru á ferðalögum erlendis. Þar þyrfti einnig að gera úrtak á þeim sem neyta nær eingöngu íslenskrar fæðu og hinna sem neyta hærra hlutfalls af innfluttum landbúnaðarvörum. Þá ætti að koma í ljós hvernig raunveruleg staða landbúnaðar er hér á landi. Áríðandi er að slík rannsókn fari fram sem fyrst til að hægt verði að nota niðurstöðurnar til samanburðar ef staðan breytist í Evrópu. 
 
Alvarlegur stofnanaágreiningur um hættuna
 
Alþjóðaskrifstofa um krabbameinsrannsóknir (IARC), sem er hluti af Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna (WHO), hafði gefið það út í mars 2015 að tengsl gætu verið á milli glýfósat í matvælum og tíðni krabbameins í mannfólki. Áhættumatsstofnun Þýskalands (Bundesinstitut für Risikobewertung) gaf út úrskurð um málið á síðasta ári; „Glýfósat er ekki krabbameinsvaldandi.“ Í nóvember á síðasta ári lagðist Fæðuöryggisstofnun Evrópu (European Food Safety Authority – EFSA), sem er með aðsetur í Parma á Ítalíu, á sveif með Áhættumatsstofnuninni og sagði: „Glýfósat er líklega ekki krabbameinsvaldandi.“ 
Svo vitnað sé í grein franska blaðsins Courrier eru þar tekin ýmis dæmi af áhrifum eitrunarinnar, m.a. á kýr á bæ einum nærri Hamborg í Þýskalandi. Þar var allt rekið samkvæmt ýtrustu reglum og undir reglulegu eftirliti búfræðinga, dýralækna og sérfræðinga í nautgriparækt. Sven Krey, bóndinn á bænum, og eiginkona hans, urðu þess áskynja að nytin í kúnum þeirra 150 fór að minnka verulega. Síðan tóku þær að léttast, fengu niðurgang, fleiður á júgur og fótalömun. Árið 2014 varð að slátra sex gripum af þessum sökum og ástandið á hjörðinni í heild var orðið afar slæmt. Hjónin vissu ekki sitt rjúkandi ráð, en loks kom möguleg skýring; langvarandi eituráhrif af völdum glýfósats. 
 
Þrátt fyrir þá vitneskju að glýfósat drepur dýr og er um leið hættulegt mönnum, hefur efnahagslegi ávinningurinn vegna aukinnar framleiðslu vegna efnanna haldið notkuninni gangandi.  

3 myndir:

Skylt efni: plöntueitur | glýfosat

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...