Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sojabaunir.
Sojabaunir.
Fréttaskýring 14. október 2016

Um 28 milljónir tonna, eða um 87% af innflutningnum, er erfðabreyttur

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Genabreytt sojabaunaafbrigði (GMO) eru yfirgnæfandi í þeim sojabaunum og sojamjöli sem flutt er til landa Evrópusambandsins. Í sumum framleiðslulandanna er 100% framleiðslunnar erfðabreytt.
 
Þannig voru t.d. flutt 32 milljónir tonna af sojabaunum og sojamjöli til ESB-landa á árinu 2013 frá öllum helstu sojaframleiðsluríkjum heims. Um 72% framleiðslu þessara ríkja var ræktað upp af erfðabreyttum afbrigðum samkvæmt tölum úr tillögum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins 2015 um erfðabreyttar lífverur. Hlutfallsleg skipting innflutningsins milli framleiðslulandanna veldur því þó að 87,2% innflutnings á soja-afurðum til Evrópusambandslandanna var erfðabreytt, eða 27,9 milljónir tonna. Einungis 4,1 milljón tonna voru það ekki, eða 12,8%.  
 
Umdeild tækni
 
Þótt deilt sé um hvort neysla á erfðabreyttum matvælum sé örugg eða ekki, þá hefur líftæknin sannarlega leitt til margháttaðrar byltingar í ræktun. Samt er líka óumdeilt að ræktun á erfðabreyttum afbrigðum, eins og sojabaunum og korni, fylgir óhófleg notkun eiturefna sem fagmenn í greininni kalla gjarnan „varnarefni“. Þessi  mikla notkun á sér þá einföldu skýringu að í mörgum tilfellum eru erfðabreyttu afbrigðin beinlínis hönnuð til að þola það að miklu magni eiturefna sé úðað yfir akrana á ræktunartímanum. Sem dæmi má nefna afbrigði sem nefnd hafa verið  „Roundup Ready" soya og „Roundup Ready" korn. 
 
Getur haft umtalsverð áhrif á Íslandi
 
Þótt hér sé um innflutning til Evrópusambandsins að ræða getur það haft veruleg áhrif á margvísleg matvæli sem flutt eru til Íslands og einnig að einhverju leyti á matvæli sem hér eru framleidd. Sojamjöl og ýmsar afurðir úr sojabaunum er notað í fjölmargar fæðutegundir sem og iðnaðarvörur. Þar má nefna ýmiss konar álegg, hamborgara, pylsur, tómatsósu, drykkjarvörur ýmiss konar sem og málningu og aragrúa annarra vöruflokka. Oft getur verið mjög erfitt að átta sig á sojainnihaldinu í viðkomandi vörum. 
 
Stærstu útflutningslöndin með allt að 100% erfðabreytt
 
Hlutfallslega mest af  innfluttum sojaafurðum til ESB-landanna kemur frá Brasilíu, eða 43,8%, af því eru 89% erfðabreytt. Næstmest hlutfall kemur frá Argentínu, eða 22,4%, og þar er 100% framleiðslunnar erfðabreytt. Síðan eru það 15% af sojaafurðunum sem koma frá Bandaríkjunum. Þar eru 93% erfðabreytt. Þá kemur Paragvæ með 7,3% og 95% erfðabreytt. Kanada með 4,4% og 85% erfðabreytt. Úkraína með 2,6% og ekkert erfðabreytt. Úrúgvæ er með 1,9% sem er 100% erfðabreytt og frá Indlandi kemur 1,7% sojainnflutningsins en ekkert af honum er erfðabreytt.  
 
Erfitt virðist vera að fá óyggjandi upplýsingar um  notkunartölur á svokölluðum „varnarefnum“ (crop protection products) eða „Pesticides“ í landbúnaði á heimsvísu. Undir þessari skilgreiningu eru bæði margs konar sveppa- og illgresiseyðir sem og skordýraeitur. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna FAO hefur þó birt samantektir um slíkt þótt þær séu venjulega nokkurra ára gamlar þegar þær birtast. Sama má segja um margar aðrar stofnanir eins og Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna, EPA. Um leið og þessi efni eru gagnleg við að halda niðri margs konar óværu, þá eru þau hættuleg ef þau berast í menn. Þar liggur einmitt vandinn, því korn á akri þar sem „varnarefni“ eru notuð fær óhjákvæmilega á sig eitthvert magn eiturefna sem ekki hverfur við þreskingu. Það berst síðan með korninu inn í fæðukeðju dýra og manna. 
 
2,5 milljónir tonna af eiturefnum á heimsvísu 
 
Samkvæmt tölum US National Library of Medicine og National Institutes of Health eru yfir 1 milljarður punda, eða 450 þúsund tonn af „varnarefnum“, notuð á ári hverju í Bandaríkjunum einum. Um 40% af því voru ýmis afbrigði af illgresiseyði, um 17% var skordýraeitur og um 10% ýmiss konar sveppaeitur. Segir stofnunin að á  heimsvísu sé verið að nota rúmlega 2,5 milljónir tonna af  slíkum efnum á ári hverju.
 
Nær tveir milljarðar manna í snertingu við eiturefnin
 
Samkvæmt tölum stofnunarinnar er áætlað að 1,8 milljarðar manna komist í nána snertingu við eiturefni í landbúnaði um allan heim á hverju ári. Þar er átt við bæði gróðureyðingarefni og skordýraeitur. Mikill fjöldi kemst einnig í snertingu við slík efni við úðun á heimilum og í görðum. 
 
25 milljónir verða fyrir eitrun
 
Áætlað er að 25 milljónir landbúnaðarverkamanna verði fyrir eitrun af völdum svokallaðra „varnarefna“ á ári hverju. Samkvæmt heilbrigðisrannsókn sem vísað er til af stofnuninni, þá er áætlað að 16% af notendum slíkra efna verði fyrir miklum áhrifum eða eitrun á ári hverju. 
 
Landbúnaðarráðuneyti Banda­ríkjanna (US Department of Agriculture) hefur áætlað að 50 milljónir Bandaríkjamanna neyti drykkjarvatns sem er mengað af eiturefnum og og öðrum efnum sem notuð eru í landbúnaði. Þá verða börn á aldrinum 3–6 ára fyrir miklum áhrifum í gegnum húð. 
 
Talin valda krabbameini
 
Alþjóða krabbameinsrannsókna­stofnunin, (The International Agency for Research on Cancer – IARC), hefur skilgreint fjölmörg af svokölluðum varnarefnum í landbúnaði (pesticides) sem krabbameinsvaldandi. Yfir 20 þúsund tegundir af margvíslegum „varnarefnum“ hafa verið markaðssettar í Bandaríkjunum einum. 
 
Vísað er m.a. til heilsufarsrannsóknar sem gerð var í landbúnaði þar sem sönnur eru taldar hafa verið lagðar á krabbamein af völdum slíkra efna í blöðruhálskirtli, lungum, þörmum, brisi, blöðru, blóði (hvítblæði) og fjölþætt mergæxli vegna langvarandi snertingar við ákveðin varnarefni. 
 
Frá 1 til 6 kg á hektara
 
Tölfræðiútlistun á eiturefnanotkuninni víða um lönd sýnir að bandarískir bændur noti að meðaltali 1 kg á hektara ræktarlands á meðan kínverskir bændur nota 4,7 kg á hektara. Þá eru um 1,3 kg notuð á hektara í Bretlandi, 2,5 kg á Ítalíu og 5,9 kg í Japan. Þess má þó geta að eftir að notkun á skordýraeitrinu DDT (Organochlorine hydrocarbons) var bönnuð víðast hvar um heiminn voru tekin í notkun ný lífræn fosföt, „organophosphates“. Allt eru þetta samt efni sem hafa lamandi áhrif á taugastarfsemi skordýra og þess vegna manna. 
 
Gríðarlegir peningahagsmunir
 
Svokölluð varnarefni geta vissulega sparað bændum miklar upphæðir vegna uppskeru sem annars hefði eyðilagst. Áætlað er að sparnaðurinn nemi allt að fjórföldum þeim kostnaði sem bændur eyða í eiturefni og úðun þess. Ástæðan er meiri uppskera en ella.
 
Sumar úttektir benda til að bann við notkun eiturefna kunni að leiða til hækkunar matvælaverðs vegna minni uppskeru. Á móti hefur verið bent á að oft séu það framleiðendur efnanna sem kosti slíkar úttektir.
Því er spáð að eftir tvö ár, eða á árinu 2019, muni markaður fyrir eiturefni sem ætluð eru til að verja uppskeru velta um 52 milljörðum dollara, eða sem svarar nærri 749 milljörðum íslenskra króna.
Fyrirtækin sem framleiða þessi efni eru flest í eigu sömu aðila og eiga einkaréttinn á erfðabreyttu afbrigðum soja, korns og annarra erfðabreyttra nytjajurta. Þar er bandaríski efna- og líftæknifræðirisinn Monsanto án efa fyrirferðarmestur, en samsteypan var keypt á dögunum af þýska líftæknirisanum Bayer fyrir 56,6 milljarða dollara. 
 
Alþjóða krabbameinsrannsókna­stofnunin (The Inter­national Agency for Research on Cancer – IARC) hefur skilgreint fjölmörg af svokölluðum varnarefnum í landbúnaði (pesticides) sem krabbameinsvaldandi. Yfir 20 þúsund tegundir af margvíslegum „varnarefnum“ hafa verið markaðssettar í Bandaríkjunum einum.  
 
Samkvæmt tölum US National Library of Medicine og National Institutes of Health eru yfir 1 milljarður punda eða 450 þúsund tonn af „varnarefnum“ notuð á ári hverju í Bandaríkjunum einum. Um 40% af því voru ýmis afbrigði af illgresiseyði, um 17% var skordýraeitur og um 10% ýmiskonar sveppaeitur. Segir stofnunin að á heimsvísu sé verið að nota rúmlega 2,5 milljónir tonna af  slíkum efnum á ári hverju.
Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...