Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Sorporkustöðin á Amager, ekki langt frá óperuhúsinu í Kaupmannahöfn. Hún var tekin í notkun í apríl 2017 og þykir ein fullkomnasta stöð sinnar tegundar í Evrópu.  Á veturna er skíðabrekka ofan á þaki stöðvarinnar til ánægju fyrir Kaupmannahafnarbúa.
Sorporkustöðin á Amager, ekki langt frá óperuhúsinu í Kaupmannahöfn. Hún var tekin í notkun í apríl 2017 og þykir ein fullkomnasta stöð sinnar tegundar í Evrópu. Á veturna er skíðabrekka ofan á þaki stöðvarinnar til ánægju fyrir Kaupmannahafnarbúa.
Mynd / B&W Vølund
Fréttaskýring 4. febrúar 2019

Við getum ekki vísað ábyrgðinni af sorpinu okkar lengur yfir á aðra

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Hugmyndir eru nú uppi um að flytja sorp frá Íslandi með skipum til Svíþjóðar til eyðingar í sorpbrennslustöðvum. Það hlýtur að vera ansi sérkennilegt að það þyki allt í lagi að láta erlendar þjóðir sá um að brenna okkar sorpi á meðan engin áform virðast vera  uppi um að Íslendingar taki sjálfir ábyrgð á að eyða sínu rusli.  
 
Talið er að um 1,3 milljarðar tonna falli nú til af sorpi í heiminum á hverju ári og yfir helmingur af því sorpi, eða 59%, fari í urðun eða landfyllingar. Miðað við erlenda staðla er líklegt að hér á landi falli til um 410 tonn af sorpi á dag, eða um 1,17 kg á mann að meðaltali. Stórt hlutfall af sorpinu hefur verið urðaður í Álfsnesi, á Akureyri og við Blönduós. Af landfyllingum stafar mikill sóðaskapur, eitrun jarðvegs og grunnvatnsmengun sem og loftmengun. Á næstu árum mun urðun því trúlega verða bönnuð hér í samræmi við áform í öðrum Evrópulöndum. Víða um lönd er því verið að fara þá leið að brenna verulegum hluta sorpsins í háþróuðum sorpeyðingarstöðvum og framleiða þá hitaorku og rafmagn um leið. 
 
Á árinu 2016 voru starfræktar um 2.200 WTE (waste-to-energy) sorpbrennsluorkustöðvar í heiminum, þar af fjölmargar í Evrópu og Bandaríkjunum. 
 
Kosturinn við sorpbrennslu­orkustöðvarnar er að minna land fer til spillis, grunnvatn mengast síður og sorpið er nýtt til að framleiða orku sem annars væri framleidd með kolum eða olíu. Þá virðast ýmsar rannsóknir sýna að kolefnisspor frá brennslu í háþróuðum sorpbrennslustöðum sé minna en af sorpi sem hlaðið er upp í landfyllingum. Þetta er samt ekki óumdeild aðferð við að eyða sorpi og stöðugt leita menn leiða til að endurnýta stærri hluta af sorpinu fyrir ýmiss konar iðnaðarframleiðslu.  
 
Sveitarfélög á Suðurlandi í sorpvanda
 
Í fréttum að undanförnu hefur verið greint frá því að frá árinu 2009 hafi óflokkaður úrgangur frá sveitarfélögum á Suðurlandi verið fluttur til urðunar í Álfsnesi í samræmi við samkomulag SORPU og Sorpstöðvar Suðurlands, sem gengið var frá í framhaldi af lokun urðunarstaðar Sunnlendinga í Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi árið 2009.
 
Nú hafa stjórnendur Sorpu tekið ákvörðun um að hætta að taka við sunnlensku sorpi til urðunar í Álfsnesi þar sem urðunarsvæðið fer senn að verða fullnýtt. Sveitarfélög á Suðurlandi hafa því uppi áform um að senda sorp frá svæðinu til brennslu í evrópskum sorpbrennslustöðvum. Þessu fylgir þá væntanlega líka mengun frá skipum sem flytja sorpið til útlanda. 
 
Samhliða þessu eru aðgerðir hafnar til að auka flokkun úrgangs á upprunastað til að tryggja að auðlindir í úrganginum nýtist sem best. Jafnframt verður unnið áfram að leit að urðunarstað á Suðurlandi, en með aðaláherslu á úrgang sem fellur til innan svæðisins.
 
Sorp víða af Vesturlandi og Vestfjörðum hefur einnig verið sent í Álfsnes til urðunar og því vaknar spurning hvað verði um það í framtíðinni. 
 
Tvískinnungur
 
Mikill tvískinnungur hefur verið með sorpeyðingarmál í íslenska stjórnkerfinu. Hér var á liðnum áratugum oft beitt þeirri aðferð að brenna rusli og margvíslegum úrgangi og oftast í opnum gryfjum eða í ófullkomnum sorpbrennslum. Í stað þess að taka upp nýja tækni og styðja við og stuðla sem víðast að uppbyggingu á fullkomnum sorpbrennslustöðvum, var tekin sú afstaða að þvo hendur sínar að mestu af öllu sem héti loftmengun af völdum sorpbrennslu hér á landi. Þess í stað var farið í þá vegferð að láta flokka stóran hluta af sorpinu og senda með skipum í það sem kallað var endurvinnsla erlendis. Það var  aðallega til Svíþjóðar, annað skyldi urðað. Í Svíþjóð fór svo hluti af þessum endurvinnsluefnum eins og plasti til Kína, eða allt þar til á síðasta ári og stór hluti fór til brennslu. Litlum sögum fer þó af hvað endanlega verður af flokkuðu sorpi sem sent er frá Íslandi. Töldu menn þannig sæmandi að útlendingar tækju á sig að brenna ruslinu sem þurfti að brenna svo ekki félli kolefnisarða á hvítflibba þeirra sem vildu skilgreina sig sem umhverfissinnaða Íslendinga. Slík hugsun felur greinilega í sér mikinn misskilning og vanþekkingu á þeirri tækni sem nú stendur til boða í sorpbrennslu.
 
Ekki er allur flokkaði úrgangurinn endurvinnsluhæfur
 
Vitað er að stór hluti af þeim úrgangi sem sendur hefur verið úr landi er ekki endurvinnsluhæfur í þeim skilningi og hefur því verið brenndur í fullkomnum sorpeyðingarstöðvum sem breytti orkunni í rafmagn. Þetta hafa menn verið ansi tregir til að viðurkenna, þar til nýverið að farið er að tala um sænsku sorp­brennsluna sem „endurvinnslu“. Væntanlega er það gert til að réttlæta áframhaldandi útflutning á flokkuðum úrgangsefnum frá íslenskum heimilum og fyrirtækjum. 
 
Ófullkomnum sorpbrennslum var lokað en grunnvandinn enn óleystur
 
Það var díoxínmálið sem upp kom vegna brennslu á sorpi í Funa á Ísafirði 2010 sem setti allt stjórnkerfi umhverfismála á Íslandi í uppnám þegar uppvíst varð um andvaraleysi hjá stjórnkerfinu og eftirlitsstofnunum í málinu. Gripið var til þess ráðs að loka alfarið sorpbrennslu Funa á Ísafirði og flytja allt sorp af svæðinu til urðunar á sorphaugum höfuðborgarsvæðisins í Álfsnesi. 
 
Eftir tveggja ára vangaveltur um sorpeyðingarstöðvarnar tilkynnti umhverfisráðuneytið svo þann 20. mars 2012 að afnema ætti undanþágur sem verið höfðu í gildi fyrir sorpbrennslustöðvarnar á Klaustri og í Eyjum.
 
Elliði Vignisson, þáverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, gagnrýndi umhverfisyfirvöld harðlega og sagði þau vinna leynt og ljóst að því að útrýma sorpbrennslu hér á landi. Kallaði hann eftir heildarstefnu í sorpeyðingarmálum sem í dag virðast helst felast í því að flytja vandann til útlanda.  
 
Ófullkomin sorpeyðingarstöð Skaftárhrepps við grunnskólana á Klaustri fékk eðlilega sömu meðferð og sorpbrennslurnar í Eyjum og á Ísafirði og var á endanum lokað, enda ljóst að frá henni stafaði mikil og hættuleg mengun.  Þá var einnig greint frá því í Bændablaðinu 2012  að sorpeyðingarstöð Sorpsamlags Þingeyinga ehf. á Húsavík myndi hætta að taka við dýrahræjum til förgunar þann 1. september það ár. Stöðin var gangsett haustið 2006. 
 
Strangari reglur voru nauðsynlegar
 
Sérákvæði um starfandi sorp­brennslu­­­stöðvar voru felld úr gildi með breytingu á reglugerð um brennslu úrgangs árið 2012. Reglugerðin hafði í för með sér að allar íslenskar sorpbrennslu-stöðvar áttu nú að uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til sambærilegrar starfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu. Með breytingunni var sorpbrennslustöðvum gert að uppfylla öll ákvæði reglugerðarinnar eigi síðar en 1. janúar 2013. 
 
Sannarlega var komin full þörf á að setja strangar reglur um brennslu á sorpi. Það dugði þó skammt þar sem engar varanlegar heildarlausnir voru þá á borðinu varðandi sorpeyðingu frekar en nú. Það hefur nánast verið dauðasök og algjört „tabú“ að nefna brennslu á sorpi. Flokkun á sorpi hefur vissulega stóraukist sem og jarðvegsgerð úr lífrænum úrgangi. Þrátt fyrri það er verulegur hluti af vandanum enn óleystur og vandséð að Íslendingum verði stætt á að flytja þann vanda öllu lengur til útlanda. 
 
Vilja reisa hátækni sorpbrennsluorkustöð á Vestfjörðum
 
Í Bændablaðinu 9. maí 2018 birtist grein eftir Júlíus Sólnes, verkfræðing og fyrrum umhverfisráðherra, Stefán Guðsteinsson skipatæknifræðing og Braga Má Valgeirsson vélfræðing um sorporku undir fyrirsögninni „Fullkomin sorpbrennslustöð verði reist til orkuframleiðslu á Vestfjörðum“. Hugmynd þeirra gengur út á að stöðin yrði mjög tæknilega fullkomin, byggð skv. ströngustu reglum Evrópusambandsins í líkingu við þær stöðvar, sem nýlega hafa verið teknar í notkun á Norðurlöndunum, m.a. á Amager, nærri miðborg Kaupmannahafnar. Um er að ræða háhitabrennslu (um 1100 til 1200°C) með mjög fullkomnum mengunarvarnabúnaði, þannig að loftmengun er nánast engin.
 
Þetta yrði um 80 þúsund tonna stöð sem framleiddi um 7,5 MW af raforku og 23 MW af hitaorku, eða um 260 gígavattstundir af orku á ári. Með henni færi raforkuþörf Vestfirðinga um Vestfjarðalínu úr 150 MW/klst í u.þ.b. 15 MW/klst á ári miðað við óbreytt ástand. Þá fengist líka næg hitaorka til húshitunar í byggðarlögum við Djúp, og til margs konar atvinnustarfsemi. 
 
Stöðin kæmi til með að veita um 15 manns atvinnu, og að auki yrði um önnur afleidd störf að ræða.
 
Þótt þeir félagar hafi bent á að sorpbrennsla af þessu tagi sé mjög umhverfisvæn og tíðkuð í dag víða á Norðurlöndum, þá virðist enn takmarkaður skilningur á málinu. Júlíus Sólnes sagði í samtali við Bændablaðið í síðustu viku að samkvæmt tölum frá Babcock & Wilcox Vølund í Danmörku þá gæti fullkomin sorpbrennsluorkustöð sem reist yrði á Vestfjörðum kostað á bilinu 10–13 milljarða króna. Til viðbótar þyrfti skip og orkuflutningslagnir. 
 
Kalka á Suðurnesjum
 
Eina fyrirtækið sem hefur haft leyfi til sorpbrennslu undanfarin ár er Kalka sorpeyðingarstöð sf. (áður Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sf.). Fyrirtækið átti 40 ára afmæli á síðasta ári, var stofnað 1. ágúst 1978, og var gamla brennslustöðin formlega gangsett 31. ágúst 1979, Kalka er nú með starfsleyfi sem gildir til 21. september 2032.  
 
Þann 1. apríl 2004 flutti starfsemi fyrirtækisins í nýja  móttöku-, flokkunar- og eyðingarstöð í Helguvík sem ber nafnið Kalka. Þar fer fram öll móttaka á sorpi frá sveitarfélögum og fyrirtækjum á starfssvæði stöðvarinnar samkvæmt verðskrá. Þar er einnig rekið gámasvæði fyrir almenning sem og í Grindavík og Vogum, þar sem íbúar svæðisins geta komið með úrgang frá heimilum til eyðingar og endurvinnslu.
 
Brennsla umhverfisvænni en urðun
 
Jón Norðfjörð, framkvæmdastjóri Kölku, segir tímabært að Íslendingar fari að huga betur að því hvað framtíðin ber í skauti sér varðandi förgun á sorpi sem fellur til hér á landi. Hann segir mun umhverfisvænna að brenna sorpi en að urða það. Brennslustöðin Kalka sem getur brennt allt að 12.300 tonnum úrgangs á ári, er með mjög fullkomin reykhreinsibúnað sem heldur útblæstri frá stöðinni í algjöru lágmarki. Í upphafi var framleitt rafmagn í Kölku með 450 kw gufutúrbínu en það er um helmingi meira en stöðin þarfnaðist. Varmaorkan í stöðinni er 5 megawött. 
 
„Túrbínan reyndist ekki nógu vel og var því raforkuframleiðslunni hætt fyrir nokkrum árum,“ sagði Jón í samtali við Bændablaðið.
 
Hann segir að sorpbrennslustöðvar séu nokkuð mismunandi að gerð og stærð, en hann hafi ekki séð neina annars staðar sem er eins upp byggð og Kalka. Fyrir utan sorpið sem brennt er í Kölku, falla til á Suðurnesjum um 6–7 þúsund tonn af öðrum úrgangi sem er að hluta til sendur í endurvinnslu eða til urðunar. Stefnt er að því að endurvinnsluhlutfall aukist með flokkunarverkefni við heimili á svæðinu sem hófst á síðasta ári.
 
Auk þess að þjóna sveitar­félögunum fjórum á Suðurnesjum tekur Kalka á móti úrgangi frá flugþjónustusvæðinu á Keflavíkurflugvelli.  Þá tekur stöðin einnig til brennslu sóttmengaðan úrgang, m.a. frá sjúkrahúsum, sem og ýmsa flokka spilliefna sem falla til hér á landi. 
 
Geta ekki annað brennslu á sorpi af Suðurlandi
 
– Hvað með sorp af Suðurlandi, hafið þið bolmagn til að taka það til brennslu hjá ykkur?
„Nei, við erum að þjóna sveitarfélögunum og fyrirtækjum á Suðurnesjum og höfum verið ásetnir með pláss hjá okkur og ekki mjög aflögufærir að bæta miklu við. Mögulega getum við þó tekið einn og einn farm, en það er ekki til að treysta á varðandi allt það magn sem til fellur á Suðurlandi.
 
„Það er nægt landrými á Suður­landi til að urða óvirkan úrgang og við getum alveg verið sjálfum okkur nóg í þessum efnum. Það þarf að leita annarra leiða en að flytja sorpið úr landi. Það kostar of mikið og er í alla staði óhagkvæmt,“ segir Jón. 
 
Hann segist ekki vita til að nein áform séu uppi á vegum sveitarfélaga að reisa aðra sorpbrennslustöð á Íslandi, en Kalka hafi sótt um lóð fyrir sorpbrennslustöð við hliðina á athafnasvæði fyrirtækisins í Helguvík og fengið lóðinni úthlutað af Reykjanesbæ. 
 
Sorpbrennsla umhverfisvænni en urðun
 
– Nú er ljóst að landrými til urðunar í Álfsnesi er óðum að fyllast, er þá nokkuð annað til ráða að þínu mati en að setja upp sorpbrennslustöðvar?
„Nei, það held ég ekki. Við höfum verið í góðu samstarfi með ýmislegt við Sorpstöð Suðurlands, Sorpu og Sorpurðun Vesturlands og þar hefur þetta talsvert verið rætt. Þróunin í þessum málum er dálítið á þann veg að flokkun á sorpi, endurvinnsla og endurnýting mun aukast. Þá minnkar það magn sem þarf að urða eða brenna.”
 
Bannað verður að mestu að urða í Evrópu eftir 2030
 
„Reglur Evrópusambandsins sýna fram á það að um 2030 verður bannað að urða sorpi, nema því sem óvirkt er og útilokað að gera annað við, eins og byggingarúrgang og annað slíkt. Þá er stefnan í Evrópu að vera með brennslu til að mæta þeim reglum. Það ber öllum saman um að það er líka í raun mun umhverfisvænni sorpeyðing en urðunin. 
 
Miðað við þá tækni sem orðin er til að koma í veg fyrir mengun frá slíkum stöðvum, þá er stöð eins og okkar að skila mjög lítilli loftmengun og langt innan þeirra marka sem leyfileg eru, “ segir Jón. Hann segir að stöð eins og Kalka þurfi að geta verið með stöðuga brennslu allan sólarhringinn því ekki gangi að brenna aðeins hluta úr sólarhringnum. Hann segir að það sé m.a. ástæðan fyrri því hve seint var farið út í að flokka á Suðurnesjum, því stöðin hafi þurft á öllu sorpinu að halda. Nú sé staðan orðin önnur, sorp á svæðinu hafi aukist og því hafi verið ákveðið að fara út í flokkun við heimili á svæðinu. Það minnkaði umfangið á sorpinu, en samt er það fyllilega nóg til að halda stöðinni gangandi.
Íslensk endurvinnsla hefur átt erfitt uppdráttar
 
Það er sjaldnast sem hugur og aðgerðir í stjórnkerfinu hafa fylgt fjálglegu tali stjórnmálamanna um að gera þurfi átak í endurvinnslu. Pure North Recycling er t.d. eina plastendurvinnslufyrirtækið á Íslandi. Það hefur stundað það þjóðþrifaverk að taka til endurvinnslu rúlluplast frá bændum og ónýta plastkassa frá matvælafyrirtækjum. Þar er raforka frá endurnýjanlegum orkulindum, heitt og kalt vatn notað til að þvo og vinna plastúrgang í nothæft hráefni til endurnýtingar í margvíslegar iðnaðarvörur. Annar verksmiðjan um 2.500 tonnum af úrgangsplasti á ári sem er þó aðeins brot af því sem til fellur frá heimilum og margháttaðri starfsemi á Íslandi. Sigurður Halldórsson, framkvæmdastjóri Pure North Recycling, hefur gagnrýnt að takmarkaður áhugi hafi verið meðal stjórnmálamanna á að styðja við slíka endurvinnslu hér á landi. Þar hafa samt ýmsir reynt fyrir sér, m.a. við endurvinnslu á netum og öðrum veiðarfærum, en skort fjárhagslegt bolmagn og stuðning til að halda því gangandi.
 
Vandi endurvinnslu á Íslandi er lítið umfang á efni
 
Jón Norðfjörð hjá Kölku segir vandann við endurvinnslu hér á landi aðallega vera þann hvað magnið er í raun lítið sem til fellur. Þó okkur Íslendingum finnist oft nóg um, þá sé efnismagnið oft ekki nægjanlegt til að hægt sé að halda úti hagkvæmri endurvinnslu nema að litlu leyti. Þá er aðeins tvennt eftir í stöðunni, annaðhvort að flytja efnið út með ærnum kostnaði eða að brenna það í fullkominni sorpbrennslustöð sem mundi framleiða orku. Í fljótu bragði virðist því ljóst að það sé farið að verða aðkallandi að reist verði í það minnsta ein öflug sorpbrennslustöð og þá með orkuvinnslu í huga. 
 
Engin framtíðarlausn að flytja út sorp
 
„Það er ekkert annað í boði en að fara að huga að þessu máli. Það er ekki nein framtíðarlausn að flytja sorp út til brennslu eða endurvinnslu. Það er þegar mjög þungt í vöfum og orðið erfitt með öll leyfi fyrir slíkum flutningum. Við erum að flytja út ösku til Noregs og það er bæði mjög erfitt að fá útflutningsleyfi og innflutningsleyfi í viðkomandi landi.“  Þá telur Jón að ekki sé hægt að treysta á að útlendingar taki við sorpi frá okkur til langrar framtíðar.  
 
Getum ekki vísað ábyrgðinni yfir á útlendinga
 
„Við verðum að átta okkur á því að sorpið heldur áfram að verða til og það þarf að gera ráðstafanir til að farga því. Við getum ekki vísað ábyrgðinni af því yfir á útlendinga, enda eigum við að geta verið sjálfum okkur nóg í öllum þessum málum,“ segir Jón Norðfjörð. 
 
Um 50% af sorpi í Svíþjóð er brennt
 
Svíar segjast „endurvinna“ um 99% af um 4,4 milljóna tonna úrgangi sem til fellur þar í landi árlega, en það hlutfall var 38% árið 1975. Þar af er um 50% eða 2,2 milljónum tonna brennt í orkuvinnslustöðvum eða svokölluðum „waste-to-energy (WTE)“ stöðvum. Fyrsta stöðin af svipuðum toga var reist þar í landi á fimmta áratug síðustu aldar. Um 1% af sorpinu fer í landfyllingar, sem hafa að mestu verið bannaðar í landinu. Áætlanir gera ráð fyrir að 100% af sorpi í Svíþjóð verði „endurunnið“ í landinu á næsta ári. Talsverður hluti er lífrænn úrgangur sem nýttur er til moltu- eða jarðvegsgerðar.  
 
Um 800.000 tonn af sorpi eru flutt árlega til endurvinnslustöðva í Svíþjóð frá Bretlandi, Noregi, Íslandi, Írlandi og frá Ítalíu. Þar er því brennt í 32 WTE brennslustöðvum.
 
Svíar hafa verið að standa sig þjóða best í þessum efnum, en það væri þeim gjörsamlega ómögulegt nema að tileinka sér nýjustu tækni til brennslu á sorpi til orkuframleiðslu. Eigi að síður eru samt fjölmargir á móti öllum bruna á sorpi.  
 
Kínverjar fengu nóg af því að stunda sorpeyðingu fyrir Vesturlandabúa
 
Hluti af íslenska útflutnings­sorpinu, og þá einkum plast sem sent var úr landi, var um árabil áframsent til Kína. Ekki er þó auðvelt að nálgast áreiðanlegar tölur um þá flutninga. Þetta var gert til áramóta 2017 er Kínverjar hættu að taka við slíkum úrgangi. 
 
Á árinu 2017 var sorp farið að hlaðast upp í Kína í gríðarlegu magni, eða sem nam um 520.000 tonnum á dag. Svonefnd „endurvinnsla“ Kínverja á plastúrgangi frá Vesturlöndum og öðru sorpi fólst í að stórum hluta í brennslu og framleiðslu á hitaorku og rafmagni. 
 
Kínversk stjórnvöld telja brennslu á sorpi æskilegustu leiðina. Þar horfa þau til hátækni brennslustöðva eins og  Gao'antun orkustöðina sem rekin er af Chaoyang-hverfisstjórninni í Beijing. Sú stöð getur brennt með yfir 1000° hita á Celsíus og er að skila raforkuframleiðslu fyrir 140 þúsund heimili. Kínversk stjórnvöld höfðu stefnt að því að á árinu 2020 yrði um 40% af öllu sorpi sem félli til í landinu brennt í slíkum stöðvum. Gallinn við þá áætlun var sagður að flestar stöðvarnar eru einkareknar og þær sem hafa boðið lægsta móttöku- eða endurvinnslugjaldið [undir 4 dollurum á tonnið] hafa jafnframt verið að brenna við mjög ófullkominn bruna og við lægra hitastig. Það þýðir stórfellda loftmengun.
 
Kínverjar reisa stærstu sorpbrennsluorkustöð í heimi
 
Í borginni Shenzhen í Kina er nú verið að reisa stærstu sorpbrennslu­orkustöð í heimi sem brenna mun um 5.000 tonnum af sorpi á dag. Hún á að vera komin í gagnið 2020 og er ætlað að stemma stigu við stjórnlausa losun á sorpi í landfyllingar á svæðinu. 
 
Á árinu 2015 létust þar tugir manna í Shenzhen þegar ruslahaugur gaf sig. Þak nýju sorpbrennslunnar í Shenzhen verður 44.000 fermetrar og verður þakið með sólarsellum til raforkuframleiðslu. Þessi stöð er ein af 300 waste-to-energy (WTE) sorpbrennslustöðvum sem Kínverjar hyggjast reisa í landinu. Það bætist þá við ríflega 400 stöðvar sem brenna rusli til raforkuframleiðslu sem fyrir eru.  
 
Þjóðir heims sjái sjálfar um sína sorpeyðingu
 
Nú brenna Svíar öllu sem þeir geta brennt, líka plasti, en eftir að Kínverjar lokuðu á móttöku á úrgangsplasti fóru ruslahaugar að hlaðast upp í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar. Hefur því verið vaxandi krafa uppi um að þjóðir heimsins sjái sjálfar um að eyða sínu sorpi og úrgangsefnum. Því hlýtur að vera óhjákvæmilegt að Íslendingar endurskoði sína afstöðu m.a. til brennslu á sorpi með eins vistvænum hætti og mögulegt er. 
 
Á árinu 2017 voru starfræktar í Bandaríkjunum 71 WTE sorpeyðingarstöð í 20 ríkjum með samanlagða raforkuframleiðslugetu upp á 2,3 gígawött. Fyrsta stöðin af þeim toga var Palm Beach Renewable Energy í Flórída sem reist var 1995. Árið 2018 voru stöðvarnar þar orðnar 11. Þá voru 10 slíkar stöðvar í New York. 
 
San Francisco í Bandaríkjunum stefnir að því að ekkert sorp fari til urðunar eða í landfyllingar árið 2020, en fram undir þetta hefur um 80% af sorpi í borginni verið hlaðið upp í landfyllingar, en nú á að snúa þessu við. Svipuð áform eru upp á teningnum víðar um lönd og virðast fullkomnar sorpbrennslustöðvar vera þar efst á blaði til að umbreyta ruslinu í raforku.
 
Í Þýskalandi eru 72 stöðvar, Hollandi 12, í Danmörku 29 og 24 í Bretlandi svo eitthvað sé nefnt, samkvæmt vefsíðu YaleEnviroment360.  
 
Skiljum eftir okkur þyngd okkar í rusli á tveggja mánaða fresti
 
Á vefsíðu The Atlantic kemur fram að meðalmanneskja í þróuðum OECD-ríkjum heims er að skilja eftir sig um 1,17 kg af sorpi á dag. Það þýðir að hver meðalmaður á Íslandi skilur eftir sig ígildi þyngdar sinnar í rusli á rúmlega tveggja mánaða fresti.  
 
Um 59% af öllu sorpi heimsins er urðað og nýtt í landfyllingar. Það sorp mun á endanum m.a. valda mengun og eitrun á grunnvatni. Um 13–33% er hent á ruslahauga á landi.
 
Af öllum ruslaúrgangi heimsins er lífrænn úrgangur talinn vera um 46%. Þá er pappír 17%, plast 10%, gler 5%, málmar 4% og annað óskilgreint er 18%. 
 
Það vekur athygli að þrátt fyrir allt tal um endurvinnslu, þá er einungis endurnotað og endurunnið um 1% af öllu ruslinu. Auðvitað er þetta svo mjög mismunandi eftir ríkjum eins og tölur frá Svíþjóð benda til. 

5 myndir:

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...