Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Viðskiptabannið á Rússa hefur stórskaðað evrópska bændur
Fréttaskýring 11. maí 2016

Viðskiptabannið á Rússa hefur stórskaðað evrópska bændur

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Samkvæmt skýrslu OECD og FAO (Food and Agriculture Organization og the United Nations) um horfur í landbúnaði á árunum 2015 til 2024, þá mun heildar kjötframleiðslan í heiminum aukast úr um 313 milljónum tonna í 355 milljónir tonna miðað við niðurhlutað kjöt í smásölu að frátöldu úrkasti. Aukningin verður langmest í framleiðslu á alifuglakjöti. 
 
Miklar sviptingar í kaupum Rússa á landbúnaðarafurðum
 
Kaup Rússa á landbúnaðarafurðum frá öðrum ríkjum drógust saman um 6,4% á milli áranna 2013 og 2014 samkvæmt tölum  Global Trade Information Services, Inc. (GTI). Mestur varð samdrátturinn í innflutningi á svínakjöti, eða um 41%. Hafa danskir og finnskir bændur m.a. fengið að kenna verulega á þeim samdrætti sem orsakast af sértæku viðskiptabanni ESB gagnvart Rússum sem sett var á í ágúst 2014. Hrapaði innflutningur Rússa á svínakjöti frá ESB-löndunum um 71% í kjölfarið og um 53% á fiskafurðum sem Íslendingar hafa sannarlega fengið að kenna á vegna samstöðu með ESB í málinu. Hafa Rússar reynt að mæta þeim samdrætti m.a. með auknum innflutningi á svínakjöti frá Brasilíu sem jókst úr 21% árið 2013 í 72% á síðasta ársfjórðungi 2014. Þá tók innflutningur Rússa á alifuglakjöti frá Brasilíu mikið stökk, eða úr 9,8% í 25,4%. 
 
Sömuleiðis dró mjög úr innflutningi Rússa á mjólkurafurðum frá ríkjum Evrópusambandsins. Í staðinn juku þeir innflutning  á slíkum vörum frá Argentínu, Úrúgvæ og að verulegum hluta frá Hvíta-Rússlandi. Þannig jókst hlutfallslegur innflutningur Rússa á mjólkurafurðum frá Hvíta-Rússlandi úr 40% í 70% frá 2013 til 2014.
 
 
Varanleg áhrif
 
OECD og FAO telja í skýrslu sinni að viðskiptabann ESB gagnvart Rússum geti haft varanleg áhrif á innflutning þeirra á landbúnaðarafurðum. Þannig hafa viðskiptin á landbúnaðarafurðum verið aukin við Suður-Ameríkuríki, sem og Azerbaijan, Hvíta-Rússland, Kína, Ísrael, Serbíu og Tyrkland. Þá er Serbía að verða nýr og mikilvægur framleiðandi á svínakjöti fyrir Rússa. Það eru ekki góð tíðindi fyrir frændur vora Dani og Finna sem eru þá að stórskaðast af deilum ESB við Rússa út af Úkraínu. Mikil gjaldþrotahrina á sér nú stað í dönskum landbúnaði sem virðist staðfesta þessa stöðu.
Sviptingar í mjólkurframleiðslu
 
Mjólkurframleiðsla dróst víða saman á árinu 2013 vegna stóraukins fóðurskostnaðar. Þannig dróst mjólkurframleiðsla Kínverja saman um 5,7%. Sömuleiðis dróst mjólkurframleiðslan saman í Bandaríkjunum, Nýja-Sjálandi, Ástralíu og í ríkjum ESB.  
 
Breytingar á CAP, landbúnaðarkerfi Evrópusambandsins, með afnámi mjólkurkvótakerfis í mars 2015 samhliða viðskiptabanni á Rússa, umpólaði dæminu innan ESB. Offramboð varð á mjólk í ESB löndunum og gríðarlegt verðfall sem enn sér ekki fyrir endann á. Jókst mjólkurframleiðslan að meðaltali á einu ári í ESB-löndunum um 2,2%. Írar voru þó mun stórtækari en þar nam aukningin 12,9% frá árinu 2014 og um 6% í Hollandi. Mjólkurverð lækkaði í kjölfarið í ESB-löndunum að meðaltali um 11%. Er því spáð að mjólkurverð haldist lágt í Evrópu næstu tíu árin þótt það verði umtalsvert hærra en á árunum fyrir 2007. 
 
 
Tap vegna Rússaviðskipta nemur landsframleiðslu Svía á mjólk
 
Viðskiptabannið á Rússa hefur haft gríðarleg áhrif ef marka má frétt Bondebladet í Noregi. Þar er haft eftir markaðssérfræðingi LRF Mjölk að innan ESB hafi það verið reiknað út að útflutningstap vegna mjólkurvara til Rússlands á síðasta ári nemi sem svarar allri mjólkurframleiðslunni í Svíþjóð. Vegna viðskiptabannsins hafa tapast viðskipti með mjólkurvörur sem umreiknað hefur verið í 2,9 milljarða  kílóa af mjólk, eða svipuðu magni  og ársframleiðsla Svía. Svíar tapa þó sjálfir alls ekki svo miklu vegna þessa banns eða sem nemur sölu á  650 tonnum af mjólkurvörum. Það eru Holland, Finnland og Þýskaland sem tapa þar mestu. Þessi lönd stóðu áður fyrir meiru en helmingi útflutnings ESB-landanna til Rússlands. 
Viðskiptabannið við Rússa er að valda stórvandræðum meðal evrópskra mjólkurframleiðenda.
 
Bondebladet segir að stefnt sé að krísufundi í Brussel í september. Bændur eru ævareiðir út í forystu ESB og samtök þeirra hafa haft uppi öflug mótmæli víða um álfuna. Fremst í flokki hafa verið Copa, samtök evrópskra bænda, og Cocega, samtök samvinnufélaga í landbúnaði, sem munu væntanlega hafa uppi öflug mótmæli í Brussel í haust. 
 
Reiknað með 23% aukningu í mjólkurframleiðslu á heimsvísu
 
Í skýrslu OECD og FAO er reiknað með að mjólkurframleiðsla muni aukast í heiminum um 23% frá 2015 til 2024 í samanburði við árin 2012–2014. Spáð er að aukningin  nemi um 175 milljónum tonna. Talið er að um 75% af aukningunni komi frá þróunarríkjum, einkum í Asíu. Talið er að aukningin muni nema að meðaltali um 1,8% á ári sem er heldur minna en undanfarinn áratug þar sem aukningin var 1,9%. 
Í þróaðri ríkjum er reiknað með að mjólkurkúm fækki og draga muni úr stækkun hjarða í þróunarríkjunum. Samhliða þessu er búist við að framleiðni afurða á hverja kú muni aukast. Gert er ráð fyrir að neysla á mjólkurafurðum í þróunarríkjunum muni aukast um 1,4 til 2%, en aðeins um 0,2 til 1% í þróaðri ríkjum. 
 
Um helmingur undanrennudufts og mjólkurdufts er selt í milliríkjaviðskiptum
 
Í viðskiptum er hlutfallslega mest verslað með mjólkurduft milli landa. Þannig er í dag um 52% af undanrennudufti í framleiðsluríkjunum flutt til annarra landa. Gert er ráð fyrir að það hlutfall aukist í um 57% árið 2024. Næstmest hlutfall er í útflutningi á mjólkurdufti eða hátt í 50%. Þar á eftir kemur jurtaolía, sykur, olíujurtafræ, próteinmjöl og hveiti sem er með um 22% hlutfall. 
 
Heimsframleiðslan á undanrennudufti er rúmlega 4,1  milljón tonn en spáð er að hún muni aukast í 4,7 milljónir tonna til 2024. Mjólkurduftsframleiðslan er nú tæplega 5,4 milljónir tonna en verður rúmlega 6,6 milljónir tonna árið 2024 ef spár ganga eftir. Neyslan á undanrennudufti og mjólkurdufti mun haldast nokkuð vel í hendur við framleiðsluna. Í báðum tilfellum er þó reiknað með nokkurri verðlækkun á komandi árum. 
 
Spáð aukningu í smjör- og ostaframleiðslu
 
Framleiðsla á öðrum próteingjöfum úr mjólk mun líka aukast samkvæmt spánni. Þannig er áætlað að neysla á mjólk og mjólkurafurðum aukist verulega. Muni eftirspurn eftir þeim vörum aukast um 23% á þessu tíu ára tímabili. Þannig verði neysla á þessum vörum um 48 milljónir tonna árið 2024. Aukningin í þróaðri ríkjum heims verður þó hlutfallslega mun meiri en þetta meðaltal segir til um. Um 70% af próteininntöku úr mjólkurvörum kemur úr hreinni mjólk. Þó er spáð mestri hlutfallslegri aukningu í neyslu á smjöri eða um 1,9% og um 1,6% í neyslu á ostum. 
 
Heimsframleiðslan á smjöri samkvæmt skýslu OECD og FAO er í dag um 10,5 milljónir tonna, en verður ríflega 12,5 milljónir tonna árið 2024. Neyslan nú er örlítið minni en framleiðslan og því safnast upp einhverjar birgðir. Búist er við að verð á smjöri muni eitthvað lækka fram til 2020 er það taki að hækka á ný.  
 
Heimsframleiðslan á ostum er nú  tæplega 22,5 milljónir tonna. Spáð er að ostaframleiðslan verði orðin tæplega 25,5 milljónir tonna árið 2024. Neyslan mun verða í nokkru jafnvægi við framleiðsluna og reiknað er með að verð fari hækkandi. 
 
Ríki ESB öflugust í ostaútflutningi
 
ESB-ríkin eru í dag öflugust í ostaútflutningi með um 40% markaðshlutdeild, en Nýja-Sjáland er öflugast í smjörútflutningi með um 48% hlutdeild. Búist er við að Argentína og Sádi-Arabía muni gera sig meira gildandi í milliríkjaviðskiptum á komandi árum með osta og smjör.  
 
Smjöreftirspurn eykst í þróaðri ríkjum
 
Ef litið er á smjör- og ostaframleiðsluna í heiminum, þá er búist við verðhækkunum á þessum vörum næstu átta árin. Þá er reiknað með aukinni birgðasöfnun hvað smjör varðar í ár og næstu tvö ár. Síðan náist jafnvægi næstu tvö ár þar á eftir en eftir það fari heldur að ganga á birgðir. 
 
Áhugavert er að sjá að í þróaðri löndum verður töluverð umframframleiðsla á smjöri á meðan umtalsvert vantar upp á að þróunarlöndin nái að anna eftirspurninni. 
 
Í ostunum er aftur á móti reiknað með að töluvert gangi á birgðir á þessu og næsta ári, en þá verði nokkur birgðasöfnun fram til 2022 þegar framleiðsla og neysla verði komin í jafnvægi. Þá verður umframframleiðsla á ostum í þróaðri ríkjum á meðan framleiðslan mun ekki anna eftirspurn í þróunarríkjunum.
 
Aukin milliríkjaviðskipti
 
Útflutningur á nautakjöti mun aukast frá framleiðslulöndum og fara úr um 16% í 18%. Sömuleiðis  er gert ráð fyrir lítillega auknum viðskiptum á alifuglakjöti milli landa sem og á osti. Gert er ráð fyrir að draga muni töluvert úr viðskiptum milli landa með etanól-eldsneyti og lífdísil sem framleitt er úr lífmassa.  
 
Kjötframleiðsla eykst um 50 milljónir tonna til 2024
 
Árleg aukning kjötneyslu á heimsvísu fram til ársins 2024 er áætluð 1,4%. Það þýðir að kjötneyslan mun árið 2024 hafa aukist um 51 milljón tonna frá því sem var 2014 (42 milljónir miðað við 2015). 
 
Heimsframleiðslan á nauta- og kálfakjöti er nú um 68,2 milljónir tonna og mun aukast í um 75,4 milljónir tonna á næstu tíu árum ef spár ganga eftir.
 
Svínakjötsframleiðslan á heimsvísu er nú um 120,2 milljónir tonna en verður samkvæmt spá tæplega 128,8 milljónir tonna árið 2024. 
 
Alifuglakjötsframleiðslan nemur nú tæplega 114,4 milljónum tonna Hún mun aukast verulega og verða tæplega 133,8 milljónir tonna árið 2024. 
 
Heimsframleiðslan á kindakjöti er nú um 14,7 milljónir tonna en verður samkvæmt spá um 17,1 milljón tonna árið 2024. 
 
Kjöt mikilvægur próteingjafi
 
Kjöt er stærri hluti próteinneyslu í þróaðri ríkjum heims en í þróunarlöndunum. Þannig eru íbúar þróuðu ríkjanna að taka til sín um 26% af próteinneyslunni úr kjöti á meðan íbúar þróunarríkjanna eru einungis að fá um 9% af sinni próteininntöku með kjötneyslu. 
 
Samhliða aukinni heildarframleiðslu landbúnaðarafurða á heimsvísu mun neysla aukast að meðaltali úr 34,1 kg í 35,5 kg á mann. Athygli vekur að kjötneysla í þróaðri löndum er ríflega tvöföld miðað við meðaltalsneysluna í svokölluðum þróunarlöndum. Þannig er neyslan á mann í þróaðri ríkjum heims um 65 kílógrömm á mann í dag en verða, miðað við spá OECD og FAO, 67,6 kg á mann árið 2024. Í OECD-ríkjunum er þetta mjög svipað. Þar er kjötneyslan 65,4 kg árið 2016 og 67,3 kg árið 2024. Í þróunarríkjunum er meðaltalsneyslan nú um 26,8 kg en spáð er að hún aukist um tæplega tvö kíló á mann fram til 2024 og fari í 28,5 kg. Tekið er sérstaklega fram í skýrslunni að Ísland er ekki inni í þessari spá. 
 
Verulegt úrkast í kjötframleiðslunni
 
Heildarframleiðslan (brúttó) í kjöti er þó umtalsvert meiri en tölurnar hér að framan segja til um. Í þessum neyslutölum er miðað við sundurhlutaða skrokka í smásölu, en alltaf er talsvert úrkast eins og hausar og annað sem fellur til við slátrun. Þannig er margfeldistalan fyrir naut 0,7 sem og kálfa, en 0,78 fyrir svín, en 0,88 fyrir sauðfé og alifugla. Því má ætla að heildar kjötframleiðslan vegin við slátrun árið 2024 verði nálægt 475 milljónum tonna en ekki 355 milljónum eins og lagt er út af í spánni. 
 
Það hægir verulega á framleiðsluaukningunni 
 
Á síðustu tíu árum jókst heimsframleiðslan á landbúnaðarafurðum að meðaltali um 2,2% á ári. Mest var aukningin í Rússlandi, eða um 3,3%. Þá stóð Afríka undir 2,9% aukningu og Asíu- og Kyrrahafslönd líka með um 2,9% aukningu. Á sama tíma var aukningin í Norður-Ameríku 1,5% og í Vestur-Evrópu „aðeins“ 0,7%. Búist er við að hægja muni á aukningunni á öllum þessum svæðum næsta áratuginn. Eigi að síður er áætlað að aukningin muni nema um 2,4% bæði í Afríku og í ríkjum Mið- og Suður-Ameríku sem draga muni vagn aukinnar framleiðslu.  
 
Bandaríkin öflugur útflytjandi á landbúnaðarafurðum 
 
Áætlað er að öflugustu útflutningsríki jarðar á landbúnaðarvörum árið 2024 verði Bandaríkin, ríki Evrópusambandsins og Brasilía. Sem dæmi eru Bandaríkin með 33% af heimsviðskiptunum í korni, 32% í svínakjöti og 24% í bómull. Þá eru Bandaríkin meðal öflugustu útflutningsríkja í fjölda annarra landbúnaðarafurða og einnig í fiski. 
 
Fiskur líka mikilvægur
 
Fiskur er líka mikilvægur próteingjafi, þótt hann gefi ekki nærri eins hátt hlutfall próteinneyslunnar og kjöt, mjólk og korn. Gera sérfræðingar ráð fyrir að fiskneysla muni aukast um 19% og komast í 21,5 kg á mann árið 2024. Þá muni fiskneyslan standa undir um 6,5% af próteinneyslu jarðarbúa.
 
Framleiðsluaukningin í fiski verður yfirgnæfandi mest í þróunarlöndunum eða um 85% af heildar aukningunni.  
 
Neysla á fiski úr fiskeldi fór fram úr neyslu á villtum fiski í magni talið á heimsvísu á árinu 2014. Hafa ber í huga að umtalsvert magn af fiski er nýtt til fóðurgerðar fyrir dýraeldi sem OECD og FAO telja mikilvægt til að viðhalda fæðuöryggi í löndum heims. Framleiðsla á fiskimjöli í heiminum verður nokkuð stöðug, eða um 5 milljónir tonna árið 2024, og framleiðsla á lýsi mun nema um 1 milljón tonna samkvæmt spám. 
 
Mest aukning í fiskeldi
 
Talið er að fiskframleiðsla frá 2014 til 2024 muni aukast um 19% og komast þá í 191 milljón tonna. Stærstu hluti aukningarinnar mun koma úr fiskeldi sem verður þá að talið er komið í 94 milljónir tonna eða aðeins meira en fiskveiðar skila. Mun fiskeldi því verða í örustum vexti í fæðuframleiðslu heimsins á komandi árum, eða um 5,6% á ári, en eftir 2023 muni hægja þar talsvert á aukningunni. 
 
Bæði framleiðslan og neyslan á þessum fiski er hlutfallslega langmest í þróunarlöndunum. Stóraukin neysla í Bandaríkjunum hefur haft veruleg áhrif á framleiðsluaukningu í þróunarlöndunum, en einnig á útflutning eldisfisks frá Noregi. Verð hefur farið hækkandi á liðnum árum og virðist hafa náð hlutfallslegu hámarki á árinu 2014. 
 
Búist er við að takmarkanir á veiðum á villtum fiski muni ýta enn frekar undir fiskeldi á komandi árum. Gert er ráð fyrir að aukið fiskeldi muni síðan leiða til hægrar lækkunar á fiskverði eftir 2020. Jafnvægi náist um 2024 með verð sem verði nálægt meðaltali áranna 1990 til 2014. 
 
Aukin kornframleiðsla 
 
Veruleg aukning er í kornframleiðslu en síst í vanþróuðum ríkjum.
 
Gert er ráð fyrir aukinni neyslu í öllum matvælaflokkum. Þannig er t.d. spáð um 320 milljóna tonna aukningu í kornframleiðslunni sem einkum nýtist sem próteingjafi í þróunarlöndum og vanþróuðustu ríkjunum. 
 
Í vanþróuðustu ríkjum verður þó aðeins um 10% af kornframleiðsluaukningunni í heiminum, en 48% í öðrum þróunarlöndum og 42% í þróuðustu ríkjum heimsins. Umtalsverður hluti af kornframleiðslu heimsins er síðan nýttur til kjötframleiðslu sem mest er neytt af í þróaðri ríkjum. 
 
Aukin eftirspurn eftir olíuríku jurtapróteini til neyslu
 
Framleiðsla á olíuríkum jurtum mun vaxa samkvæmt spánni um 20% fram til 2024. Þar er gert ráð fyrir að framleiðsla á próteinauðugu korni muni aukast um 23% og komast í 355 milljónir tonna á árinu 2024.
 
Þá muni framleiðsla á jurtaolíu aukast um 24%. Í því sambandi er athyglisvert að búist er við að hægja muni verulega á slíkri framleiðslu í ríkjum sem hafa verið öflug í ræktun á sólblómum og repju. Er það þrátt fyrir vaxandi eftirspurn eftir próteini úr olíuríkum jurtum, en á móti kemur að draga mun úr framleiðslu á slíkum jurtum til eldsneytisframleiðslu. 

4 myndir:

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...