Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Inga Sigríður Snorradóttir og Óli Finnsson í Heiðmörk.
Inga Sigríður Snorradóttir og Óli Finnsson í Heiðmörk.
Mynd / Heiðmörk
Fréttaskýring 12. október 2023

„Grænmetið sprettur ekki upp af sjálfu sér“

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Óli Finnsson og Inga Sigríður Snorradóttir tóku við garðyrkjustöðinni Heiðmörk í Laugarási í júní 2021. Hann segir brýna þörf á því að stuðingsfyrirkomulagið við garðyrkjubændur sé endurskoðað í heild sinni.

Neytendur kannast margir við salatið til að mynda frá stöðinni í gegnum tíðina og svo steinseljuna. Þau héldu áfram þessari ræktun, en hafa einnig bætt við sig paprikum í ýmsum stærðum og gerðum; svo sem snakkpaprikum, sætpaprikum ásamt nokkrum tegundum af eldpipar í mismunandi styrkleikum.

Að sögn Óla hefur papriku­ræktunin orðið fyrirferðarmeiri með tímanum og orðið ofan á eiginlega sem helsta tegundin.

Vantar aðlögunarstuðning við útiræktun

Hann segir að þau hafi prófað útiræktun eitt sumar áður en þau tóku við garðyrkjustöðinni. Honum finnist sú tegund ræktunar spennandi en það þurfi að styðja sérstaklega við þá sem hafa hug á því að hefja þess konar ræktun – í það minnsta í byrjun.

Ef það sé raunverulegur vilji stjórnvalda að auka hlutfall innlendrar grænmetisframleiðslu í íslenskum verslunum þá þurfi aukinn stuðning við greinina enda sprettur grænmetið ekki upp af sjálfu sér. „Já, ég held að það þurfi að koma til einhvers konar víðtækari nýliðunarstyrkur eða fjárfestingarstuðningur. Ég til dæmis átti ekki traktor og er ekki í aðstöðu til að fjárfesta í einum slíkum í augnablikinu og vantar auk þess aðra innviði hér á okkar stöð til að útiræktun geti orðið möguleg fyrir okkur. Það er ekkert hægt að gera þetta á smáum skala ef ræktunin á að standa almennilega undir sér.

Ég sé fyrir mér að það gæti verið gott fyrirkomulag annaðhvort af hálfu ríkisins eða lífeyrissjóða til dæmis, að bjóða upp á hlutdeildarlán eða þolinmótt fjármagn sem fjárfesting í greininni.“

Ekkert svigrúm til framleiðsluaukningar

Óli segir að markaðurinn kalli á meira grænmeti og fleiri tegundir – og þau vilji svara kallinu. „En eins og staðan er núna erum við að keppast við að hámarka afköst stöðvarinnar – og setja allan aukapening inn í reksturinn til að endurbæta húsakost og annan tækjabúnað sem þarf í ræktunina. En það væri æskilegt að okkur garðyrkjubændum yrði gert auðveldara fyrir að prófa okkur áfram með nýjar tegundir og ekki síður að stækka við okkur til framleiðsluaukningar.“

Á dögunum bárust fréttir af því að bændur í Dölunum hefðu lokið tilraunaræktun sinni á hvítlauk og hefðu þegar selt alla uppskeru næsta árs, sem er talin verða um sex til átta tonn. Óli segir að enginn vafi sé á að hægt sé rækta ýmislegt á Íslandi með góðum árangri sem hingað er flutt inn í miklu magni – eins og til dæmis ýmsar lauktegundir og rótargrænmeti. „Ég er alveg sannfærður um að við getum ræktað matlauk og fullt af öðrum tegundum. Vandamálið er að stjórnvöld og samningarnir sem þau hafa gert við bændur um starfsskilyrði þeirra, gera ekki ráð fyrir að lágmarksstærð sé minni en einn hektari til að fá beingreiðslur. Slíkt getur dregið úr þeim sem vilja prufa nýjar tegundir á smáum skala og gera nauðsynlegar tilraunir á yrkjum áður en farið er í nauðsynlegar fjárfestingar og ræktun á stærri skala.“

Skortur á heildarhugsun

„Það er heldur ekki gert ráð fyrir þeirri heildarhugsun sem þarf að vera til staðar í garðyrkjunni,“ heldur Óli áfram. „Eins og til dæmis bara varðandi það að halda jarðveginum frjósömum, eða leggja grunninn í byrjun búskapar að góðum jarðvegi. Beingreiðslurnar sem við njótum í dag gera til dæmis að mestu ráð fyrir að uppskorið sé af ökrunum til að greiddur sé út jarðræktarstyrkur, en ekki að nauðsynlegt geti verið að rækta jarðveginn sérstaklega. Kerfið þarf að laga sig að nútímanum að þessu leyti.

Lífrænir bændur tala um það að það þurfi að rækta jarðveginn með niturbindandi tegundum eða öðrum grænáburðarplöntum sem einungis eru ræktaðar til að bæta frjósemi hans. Það þarf að styðja við slíka heildstæða hugsun, meðal annars til að draga megi úr notkun á tilbúnum áburði. Enda vilja allir bændur stuðla að sjálfbærum búskap og draga úr áburðarkaupum eins og hægt er.“

Fyrirkomulagið alveg glatað

Óli segir að enn einn galli á stuðnings­greiðslum ríkisins sé að þau fái ekki alla stuðningsupphæðina í einu. „Afurðir sem ég uppsker til dæmis í janúar, fæ ég ekki beingreiðslurnar greiddar að fullu fyrr en í byrjun mars árið eftir. Það geta verið um 20–30 prósent af upphæðinni sem ráðuneytið heldur eftir til að greiða út sömu krónutölu á alla framleiðendur þeirrar tegundar yfir árið og ég þarf að bera kostnað af ýmsu öðru á meðan.

Beingreiðslur A eru lokaður pottur með fastri heildarkrónutölu sem skiptist niður á framleitt og selt heildarmagn af annaðhvort tómötum, paprikum eða gúrkum en ekki föst krónutala á hvert selt kíló af þeim tegundum, sem þýðir að það þarf að fara fram uppgjör síðar sem tekur tillit til þess hversu mikið var selt af viðkomandi tegund.Við bændur þyrftum að fá þennan stuðning að fullu í hverjum mánuði.

Óvissan getur oft verið mikil í landbúnaðarframleiðslu og því finnst mér það vera hlutverk ríkisins að einfalda kerfið og stuðla að eins miklum fyrirsjáanleika og mögulegt er í þessari framleiðslu, en ekki gera þetta flóknara en það þarf að vera. Sem dæmi mætti horfa meira til fyrirkomulagsins í endurgreiðslu á framleiddum kvikmyndaverkum á Íslandi.

Fyrirkomulagið er alveg glatað eins og það er núna og er jafnframt framleiðsluletjandi. Sama má segja um taxtaleiðréttinguna á raforkukaupum garðyrkjubænda frá Rarik sem virkar með sama hætti enda líka lokaður pottur en ekki föst 95 prósenta taxtaleiðrétting, þrátt fyrir fögur fyrirheit í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar virðist það ekki vera að raungerast á næstunni,“ segir Óli.

Hann bætir við að ef stuðnings­fyrirkomulaginu yrði breytt þannig að sköpuð yrðu fram­leiðsluhvetjandi skilyrði þá myndu þau vilja fara í stækkun á garðyrkjustöðinni sinni. Með því myndu þau vilja minnka það gat sem myndast á íslenska paprikumarkaðinum yfir dimmasta tímann og rækta íslenskar paprikur allan ársins hring.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...