Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Vilhjálmur Svansson segir að ef núgildandi reglur um innflutning á kjöti verði aflagðar aukist líkur á að ný smitefni nái hér fótfestu.
Vilhjálmur Svansson segir að ef núgildandi reglur um innflutning á kjöti verði aflagðar aukist líkur á að ný smitefni nái hér fótfestu.
Mynd / HKr.
Fréttaskýring 20. mars 2017

„Núverandi sjúkdómastaða er auðlegð sem okkur ber að verja“

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum á Keldum, segir að landfræðileg einangrun Íslands sé höfuð­ástæða þess að húsdýr hérlendis eru að mestu laus við mörg þeirra smitefna sem landlæg eru í húsdýrum utan Íslands. Þessa dýrastofna beri Íslendingum skylda til að verja. 
 
Í fyrirlestri sem Vilhjálmur flutti í Iðnó laugardaginn 25. febrúar kom fram að sjúkdómsstaða íslenskra búfjárstofna er óvenjuleg miðað við það sem þekkist erlendis. Einangrun landsins hefur gert það að verkum að mikill fjöldi smitefna getur valdið faröldrum í búfé hérlendis. Því eru  mörg smitefni sem þekkt eru erlendis ekki til staðar á Íslandi. Þar af leiðir að ónæmi fyrir ýmsum sjúkdómum er ekki fyrir hendi. Útbreiðsla sjúkdóma sem berst í búfé getur því orðið mjög hröð á skömmum tíma sökum mikils samgangs og flutninga.
 
„Núverandi sjúkdómastaða er auðlegð sem okkur ber að verja,“ sagði Vilhjálmur. „Ef núgildandi reglur verða aflagðar aukast líkur á að ný smitefni nái hér fótfestu. Það mun hafa þýðingu fyrir heilsu manna og dýra.“ 
 
Færri sjúkdómar mikill sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið
 
Vilhjálmur segir óumdeilt að sjúkdómastaða íslenska búfjárstofnsins sé mjög óvenjuleg á heimsvísu. Það hafi afgerandi þýðingu fyrir dýraheilbrigði og dýravernd og leiði til minni affalla, lægri meðferðarkostnaðar og minna afurðatjóns. Varðandi mannfólkið og lýðheilsu þá sé hér lægri tíðni matarsýkinga en þekkist víðast hvar um heiminn og færri innlagnir á sjúkrahús af þeirra völdum.
 
„Ísland er eyja án landamæra að öðrum ríkjum. Því ætti að vera auðvelt að verjast smitefnum,“ segir Vilhjálmur. Hann bendir þó á að hættan liggi í breyttum lifnaðarháttum landsmanna, auknum innflutningi matvæla og auknum straumi ferðamanna til og frá landinu. Smitleiðir til landsins séu því greiðari og fjölbreyttari en áður. 
 
Um 60% smitefna í mönnum geta tengst dýrum
 
Um 1.400 til 1.600 smitefnum hefur verið lýst í mönnum. Þá er misjafnt hve margir stofnar eru þekktir fyrir hvert smitefni. Maðurinn er sú dýrategund sem best er rannsökuð með tilliti til smitefna. Af þeim smitefnum sem sýkja menn teljast um það bil tveir þriðju til súna, en súnur eru smitefni sem geta borist milli manna og dýra. 
 
Árlega greinist 3 til 5 ný smitefni oftast eru þessi nýju smitefni veirur sem hafa tengingu við villt dýr. 
Samkvæmt Matvælastofnun Sameinuðuþjóðanna er álætlað að á jörðinni séu um 59 milljónir hrossa, 44 milljónir asna, 1.685 milljónir nautgripa og vatnabuffala, 1.006 milljónir geta, 1.210 milljónir sauðfjár,  987 milljónir svína og um 24 milljarðar alifugla. 
 
Þekking vísindanna á smitefnum í húsdýrum er mun minni en fyrir menn. Um 200 til 300 smitefni eru þekkt fyrir hverja húsdýrategund. 
 
Íslensku landnámskynin einstaklega viðkvæm fyrir smiti
 
Á Íslandi eru líklega um eða yfir 70 þúsund hross, en samkvæmt tölum MAST 2016 voru þau talin 67.762. Stofninn hefur verið mjög einangraður hér á landi allt frá landnámi. Aðeins er vitað um einn íslenskan gelding sem fluttur var úr landi og heim aftur 1867. Það var Sóti, reiðhest ur Gríms Thomsens. Síðan var norskur fjarðahestur í Viðey um 1920, að því er fram kom í erindi Vilhjálms. 
 
Rannsóknir í tengslum við nýlega faraldra hafa leitt í ljós að hross hérlendis eru laus við stóran hluta þeirra smitefna sem landlæg eru í hrossum erlendis. Íslenski hrossastofninn er því mjög viðkvæmur fyrir öllu utanaðkomandi smiti. Auk þessa eru engin alvarleg smitefni þekkt hérlendis í hrossum.
Ísland er eitt fárra landa þar sem hestainflúensa hefur aldrei greinst og líklega er hrossastofninn okkar sá eini í heiminum sem er laus við herpes-fósturlát og heilbólguveiruna auk  bakteríunnar sem veldur kverkeitlabólgu. 
 
Fyrstu lög um  innflutningsbann á hestum, nautgripum og sauðfé voru sett 1882. Árið 1909 var svo bætt um betur og sett lög sem einnig bönnuðu innflutning á svínum, geitum og hundum. Í lögum sem sett voru 1926 var innflutningur allra spendýra bannaður, auk þess var sett bann við innflutningi á vörum sem smithætta gat stafað af. Þó var undanþáguákvæði frá banni í lögunum frá 1882, 1909 og 1926.
 
Endurskoðuð lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim voru sett árið 1993. Þau lög féllu úr gildi þegar  matvælalöggjöf ESB var svo innleidd hér á landi árið 2009 að undanskildum  innflutningi á lifandi dýrum og hráum dýraafurðum, en þetta síðasta varnarvígi virðist nú vera við það að falla.  
 
Svipaða sögu má segja af sauðfé þar sem menn hafa ítrekað brennt sig á innflutningi. Þá erum við með örstofn af geitum, og einstakan nautgripastofn. Um öll íslensku landnámskynin gildir að okkur ber skylda til að vernda þau samkvæmt alþjóðasamningum. 
 
Margvíslegar smitleiðir
 
Vilhjálmur benti á í erindi sínu að leiðir nýrra smitefna í búfé hingað til lands væru margar hingað til lands.  
 
Má þar nefna beint smit með innflutningi lifandi dýra og erfðaefni þeirra. Menn eins og önnur dýr geta borið með sér smitefni. Smitburður með mönnum getur verið vegna sýkinga eða óbeinn með fatnaði og/eða áhöldum og matvælum sem höfð eru meðferðis. 
 
Af öðrum smitleiðum mætti nefna fatnað, matvæli og við saurmengun bithaga. Þar getur t.d. verið um það að ræða að ferðamenn skilja eftir sig matarúrgang eða ganga örna sinna úti í náttúrunni á beitilöndum búfjár.
 
Þá getur smitefni hæglega borist með verkfærum og farartækjum sem hingað eru flutt. Bendir Vilhjálmur á að þekkt séu þrjú smitdæmi hér á landi af innflutningi matvæla og hrárra dýraafurða. Innflutningur á fóðri er ein smitleið sem þurfi að hafa eftirlit með, farfuglum, leðurblökum og skordýrum sem hingað flækjast sé þó erfiðara að berjast við. Sem og smit af músum og rottum sem hingað geta borist með skipum.
 
Alþjóðavæðingin felur í sér áhættu
 
Aukin alþjóðavæðing viðskipta og verslunar ásamt miklum flutningum á fólki og fénaði stuðlar að því að mörg smitefni ná nú meiri og hraðari útbreiðslu en áður hefur þekkst. 
 
Alþjóðlegir samningar um aukið frelsi í viðskiptum hafa aukið mjög viðskipti með matvæli og fóður milli landa og heimsálfa, samhliða hefur hættan á smitdreifingu orðið meiri. Bendir Vilhjálmur á að matvæli – sem eru stór hluti þeirra vara sem eru á alþjóðamarkaði – geta hæglega borið með sér óæskilega sjúkdómsvalda til staða í órafjarlægð frá framleiðslustað og smitefnin eru þannig stærsti einstaki þáttur sem hindrar frjáls viðskipti með landbúnaðarvörur. 
 
Bendir Vilhjálmur á að að aukin hnattvæðing og sú staðreynd að smitefnin virða sjaldnast landamæri orsakar viðvarandi áhættu fyrir heilsu manna og dýra, auk þess að geta ógnað landbúnaðarframleiðslu og þar með fæðuöryggi mannkyns.
 
Innflutningur á óhitameðhöndluðum dýraafurðum
 
Á Íslandi hafa um áratugi verið mjög ströng lög í gildi varðandi innflutning á lifandi dýrum og búfjárafurðum. Árið 2004 var þó slakað á innflutningsbanni og leyfður innflutningur á óhitameðhöndluðum búfjárafurðum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Fjöldinn allur af smitefnum er þekktur af því að geta borist með hráum dýraafurðum í menn og dýr. Þau skilyrði í íslensku regluverki sem draga úr smitáhættu við innflutning á óhitameðhöndluðum dýraafurðum eru vottorð um frystingu í 30 daga og salmonellu-vottun auk reglna um geymslutíma osta úr ógerilsneyddri mjólk auk krafna til reykts og saltaðs kjöts. Þær smitvarnir sem felast í 30 daga frystigeymslunni eru tvenns konar. Annars vegar má líta á 30 dagana sem eins konar einangrunartíma vörunnar. Þannig að ef upp kemur grunur eftir slátrun um að varan geti mögulega innihaldið smitefni sem gætu haft þýðingu fyrir heilsu manna og dýra, þá má ætla að sá grunur ætti að vera kominn fram á geymslutímanum, varan því innkölluð og innflutningur bannaður. Hins vegar getur lengd frystitímans haft þýðingu við afvirkjun smitefnisins. Það fer síðan eftir smitefnum hvort frysting hafi afvirkjandi áhrif á smitefnið. Frysting hefur afgerandi áhrif við dráp á sníkjudýum og einfrumungum í matvælum. Hvað bakteríur varðar hefur frysting mismikil áhrif á dráp þeirra.
 
Camphylobacter-smit úr matvælum er ein algengasta orsök matarsýkinga í vestrænum samfélögum og hefur þar frystingin afgerandi áhrif á dráp bakteríunnar. Áhrif frystingar á veirur er vanalegast lítil. Þekktir eru yfir 2500 stofnar af Salmonella-bakteríum. Margir þessara stofna hafa aldrei greinst hérlendis í mönnum eða dýrum og skaði væri af því ef þeir bærust hér út í lífríkið. Salmonelllusmit í íslensku búfé er fátítt og salmonellusmit úr íslenskum dýraafurðum í menn er afar óalgengt. Salmonella-vottun innfluttra matvæla hefur því mikla þýðingu til að viðhalda lágri tíðni Salmonella-sýkinga í mönnum og dýrum hérlendis.
 
Kröfur íslenskra dýraheilbrigðisyfirvalda til innflutnings sem nú eru í gildi eru til komnar vegna sérstöðu landsins er varðar dýrasjúkdóma. Reglurnar draga úr þeirri hættu sem lýð- og dýraheilsu Íslands getur stafað af innflutningi matvæla unnum úr dýraafurðum. Blikur eru nú á lofti um að fella þurfi þessar reglur úr gildi. Ef svo verður má leiða að því líkur að tíðni matarsýkinga í mönnum hérlendis aukist. Jafnframt má ætla að smitburður í dýr af óæskilegum sjúkdómsvöldum muni eiga sér stað fyrr eða síðar, hvort sem það verður með vörunum sjálfum eða með þeim sem þeirra neyta. Afleiðingar þessara sýkinga og kostnaður samfélagsins mun ráðast af smitefnunum sem berast en getur í verstu tilfellum orðið mikill og afleiðingar alvarlegar og óafturkræfar.
 
 
 
Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...