Frjósemi lækkaði árið 2013
Árið 2013 fæddust 4.326 börn á Íslandi, sem er nokkur fækkun frá árinu 2012 þegar hér fæddust 4.533 börn. Það komu 2.129 drengir í heiminn og 2.197 stúlkur árið 2013, sem jafngildir 969 drengjum á móti hverjum 1.000 stúlkum.
Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands er helsti mælikvarði á frjósemi fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu. Árið 2013 var frjósemi íslenskra kvenna lægri en tveir í fyrsta sinn frá 2003, eða 1,932 börn á ævi hverrar konu. Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til þess að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið. Undanfarin ár hefur frjósemi á Íslandi verið rétt um 2 börn á ævi hverrar konu. Frjósemin nú er nærri helmingi minni en hún var um 1960, en þá gat hver kona vænst þess að eignast rúmlega 4 börn á ævi sinni.
Frjósemi á Íslandi hefur verið hærri en annars staðar í Evrópu á síðustu árum. Ásamt Íslandi hefur frjósemi verið yfir tveimur í Frakklandi, á Írland og í Tyrklandi síðustu ár en verið að meðaltali 1,6 í 28 löndum Evrópusambandsins. Lægst var fæðingartíðnin innan álfunnar í löndum Suður-Evrópu árið 2012. Þar var hún á 1,28 í Portúgal, 1,32 á Spáni og 1,34 á Grikklandi.
Flest börn fæðast í Reykjavík
Flest nýfædd börn í fyrra voru skrásett með lögheimili í Reykjavík, 1.719, og flestar fæðingar voru í ágúst, 402, en fæstar í desember 329.
Meðalaldur mæðra hækkar
Meðalaldur mæðra hefur hækkað jafnt og þétt síðustu áratugi og konur eignast sitt fyrsta barn síðar á ævinni en áður. Frá byrjun sjöunda áratugarins og fram yfir 1980 var meðalaldur frumbyrja undir 22 árum en eftir miðjan níunda áratuginn hefur meðalaldurinn hækkað og var 27,3 ár í fyrra. Algengasti barneignaaldurinn er á milli 25 til 29 ára sem og 30 til 34 ára. Á þessum aldurbilum fæddust 117 börn á hverjar 1.000 konur árið 2013. Fæðingartíðni mæðra undir tvítugu í fyrra var 7,1 börn á hverjar 1.000 konur. Það er afar lágt miðað við þegar hún fór hæst á árabilinu 1961 til 1965, en þá fæddust 84 börn á hverjar 1.000 konur undir tvítugu.
Þriðjungur barna fæðist innan hjónabands
Aðeins tæplega þriðjungur barna á Íslandi fæddist í hjónabandi árið 2013 (31,7%). Þetta hlutfall hefur haldist nokkuð stöðugt frá því um miðjan 10. áratug nýliðinnar aldar, en þá var það 36,5%. Frá 1961 til 1996 lækkaði hlutfall þeirra barna sem fæddust í hjónabandi úr 74,3 % í 36,5%. Á sama tíma hækkaði hlutfall þeirra barna sem fæddust í óvígðri sambúð úr 13,4% í 50,9%. Þetta hlutfall er nær óbreytt árið 2013 (51,9%). Nokkuð fleiri börn fæddust því utan sambúðar eða hjónabands í fyrra en á árunum 1961-1956 (16,3% á móti 12,4%).
Af löndum Evrópu fæðast fæst börn innan hjónabands á Íslandi
Af 28 löndum Evrópusambandsins fæddust 39,3% barna utan hjónabands árið 2012. Sama ár fæddust 66,9% barna á Íslandi utan hjónabands. Næstólíklegast er að börn fæðist innan hjónabands í Eistlandi (58,4%) , Slóveníu (57,6%) og síðan Búlgaríu (57,4%). Til samanburðar fæðast varla börn utan hjónabands í Tyrklandi (2,6%), Grikklandi (7,6%) og Makedóníu (11,6%). Á Norðurlöndunum var rúmlega helmingur allra barna fæddur utan hjónabands árið 2012.