Fullt afurðastöðvaverð fyrir alla mjólk
Egill Sigurðsson, stjórnarformaður Auðhumlu svf., lýsti því yfir á aðalfundi Landssambands kúabænda síðasta föstudag að félagið muni greiða fullt afurðastöðvaverð fyrir alla innvegna mjólk árið 2015. Er um mikið fagnaðarefni fyrir kúabændur að ræða enda var orðum Egils fagnað á fundinum.
Má setja yfirlýsingu Egils í samhengi við að í ræðu Sigurður Inga Jóhannssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrr á fundinum velti ráðherrann upp hvort kvóti í mjólk væri ekki orðinn hamlandi fyrir framleiðsluaukningu og taldi hann eðlilegt að taka núverandi kerfi til endurskoðunar þegar núverandi búnaðarsamningar rynnu út. Á uppboðsmarkaði með greiðslumark í mjólk sem fór fram nú 1. apríl síðastliðinn var sáralítil eftirspurn eftir kvóta en aðeins tvö gild tilboð um kaup bárust. Kemur það ekki á óvart miðað við þá stöðu sem uppi er, ekki síst í ljósi þess að greitt verði fullt verð fyrir alla innvegna mjólk.