Fyrirtækið á engan bíl og framkvæmdastjórinn ferðast um á reiðhjóli
Fyrirtækið Inntré ehf. hóf starfsemi á Ísafirði 9. október síðastliðinn. Stefnan er að þjónusta heimamarkaðinn sem og að sækja á útboðsmarkað.
Framkvæmdastjóri þess er Þröstur Jóhannesson húsasmíðameistari sem er jafnframt einn af eigendum. Hann segist bjartsýnn á framtíð rekstrar trésmíðafyrirtækis af þessum toga á Ísafirði. Verið sé að hefja vinnu við fyrsta stóra verkefnið sem er smíði allra innréttinga í hjúkrunarheimilið Eyri á Ísafirði sem nú er í byggingu.
Skrifað var undir samninga um innréttingasmíði hjúkrunarheimilisins 20. nóvember sem er verk upp á um 55 milljónir króna. Segir Þröstur að því verkefni eigi að vera lokið í maí. Þangað til ættu menn að hafa nægan tíma til að leita nýrra verkefna.
„Ég byrjaði hér einn í lok júlí og við höfum smám saman verið að bæta við okkur mannskap, taka til á verkstæðinu og koma vélum í gott stand. Við vorum orðnir fjórir í nóvember og einn byrjaði til viðbótar um mánaðamótin og nú erum við að hefja vinnu við þetta útboðsverk.“
Inntré er vel tækjum, búið og er til húsa að Sindragötu 11 við Sundahöfnina á Ísafirði. Þar hafa nokkrir forverar þess einnig verið til húsa.
Ekki verra að vera á landsbyggðinni
Þröstur starfaði um áratug hjá Trésmiðjunni Hnífsdal, en það fyrirtæki var með verkefni víða um land og ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir staðsetningu trésmiðju á landsbyggðinni bæði hafa sína kosti og galla. Að sínu mati vegi kostirnir jafnvel meira.
Segir hann að reynslan sýni að vinnuafl sé nokkuð stöðugt á Ísafirði sem er ákveðinn kostur. „Mikil starfsmannavelta er dálítið erfið í þessum bransa því þá þarf að þjálfa upp nýtt fólk sem tekur langan tíma og kostar peninga. Ef menn þurfa mikið að búa við lítt þjálfað starfsfólk, þá leiðir það oft til þess að mistök eru gerð sem geta verið mjög dýr.
Varðandi flutningana, þá erum við vissulega ekki í nágrenni við birgjana, en við setjumst þá bara niður, hringjum og pöntum efnið og höldum svo áfram að vinna. Þeir sem eru nær þurfa kannski að senda einhvern af starfsmönnum sínum til að sækja efnið sem getur tekið drjúgan tíma. Þá þarf líka að leggja honum til bíl. Sá maður er þá ekki að gera neitt annað á meðan.“
Bendir Þröstur á að ekki sé þörf á þessu hjá Inntré ehf. sem staðsett er nánast við hlið flutningafyrirtækjanna sem sjái um að koma vörunni beint inn á gólf. Þannig hafi staðsetningin sína kosti sem geti oft vegið upp gallana.
Máli sínu til stuðnings bendir Þröstur á fyrirtæki eins og Miðás ehf. á Egilsstöðum sem gengur vel. Það er með markaðssvæði um allt land og framleiðir m.a. Brúnaás-innréttingarnar. Einnig nefnir hann verkefni Trésmiðjunnar í Hnífsdal sem hann starfaði hjá á sínum tíma.
„Við vorum mikið að starfa á höfuðborgarsvæðinu og sérstaklega í Kópavogi. Þar smíðuðum við inn í eina þrjá grunnskóla, Smáraskóla, Lindaskóla og Salaskóla. Einnig komum við að stækkun á Menntaskóla Kópavogs og fleira. Eitt stærsta verkefni okkar á þeim tíma var þó í Barnaspítala Hringsins, þar sem við smíðuðum innihurðir og hluta af innréttingum. Á sama tíma vorum við að smíða inn í gamla sjúkrahúsið á Ísafirði sem nú er safnahús. Þetta gekk mjög vel, en Trésmiðjan Hnífsdal var seld um svipað leyti og ég hætti þar 2005,“ segir Þröstur. Hann hóf þá störf sem kennari í húsasmíðum við Menntaskólann á Ísafirði, en er þar nú í launalausu ársleyfi.
Dapurlega staðið að iðnnámi
Þröstur segir reyndar dapurlegt hvernig staðið hafi verið að iðnnámi í landinu á meðan öll áhersla hafi verið lögð á bóknám. Nú sé fjórða árið í röð sem enginn hafi sótt um nám í húsasmíði í MÍ og því hafi hann þurft að stunda kennslu í öðrum greinum, sem ekki hafi verið eins spennandi fyrir sig. Því hafi það verið freistandi að ganga inn í þetta nýja fyrirtæki.
Tími til kominn að breyta iðnmenntuninni
Þröstur bendir á að það sé alltaf talað um að bóknámið sé ódýrara og þess vegna hafi menn látið kennslu í iðngreinum sitja á hakanum. Þetta sé ekki endilega raunin. Iðnnám taki að jafnaði fjögur ár. Þar af starfi nemendur í það minnsta eitt og hálft ár á samningi hjá iðnmeistara úti á vinnumarkaðnum. Á þeim tíma séu þessir iðnnemar farnir að greiða skatta til þjóðfélagsins sem bóknámsnemendurnir geri ekki í sama mæli.
„Því tel ég að iðnnámið sé alls ekki dýrara fyrir ríkið.“
Auk þess bendir hann á að skortur á iðnmenntuðu fólki sé beinlínis farið að trufla starfsemi þjóðfélagsins. Þá hafi eiginlega steininn tekið úr þegar í ljós kom að námsráðgjafar voru farnir að tala nemendur frá því að fara í verknám. Þegar málið hafi verið kannað nánar hafi komið í ljós að flest allir námsráðgjafar í landinu voru með bóknámsmenntun að baki, en nánast enginn í þeim hópi verknámsmenntaður.
Hann segir þó ljóst að gamla meistarakerfið sé barn síns tíma og því löngu tímabært að endurskoða fyrirkomulag iðnmenntunar í landinu þannig að nemendur geti lokið sínu iðnnámi á vegum skólanna. Galli kerfisins hafi komið berlega í ljós í hruninu, en þá hafi mikill fjöldi nemenda ekki komist á samning og hafi því ekki getað lokið námi sínu þegar fyrirtækin urðu verkefnalaus. Þröstur segist þó binda vonir við að nýja framhaldsskólafrumvarpið, sem samþykkt var 2008 en frestað gildistöku á síðan, öðlist gildi næsta vor. Þar er gert ráð fyrir að sérstakur sjóður komi að málinu þannig að allt iðnnám verði á hendi skólanna sem geti þá um leið tryggt að nemendur komist í starfsþjálfun.
Fyrirtækið á engan bíl og framkvæmdastjórinn ferðast á hjóli
Þröstur segir að fyrirtækið hefji skuldlaust sína starfsemi og eigi öll sín tæki og tól.
„Reyndar á fyrirtækið engan bíl og ég ferðast bara á hjóli,“ segir framkvæmdastjórinn, sem býr í Holtahverfi fyrir botni Skutulsfjarðar. „Maður sameinar því smá trimm og vinnu og mætir hér ferskur á morgnana.“
Reyndar er hann í góðu formi og er þekktur skíðagöngumaður og margfaldur Íslandsmeistari í þeirri grein.
Ef það verður ófært fyrir hjólið fer ég bara á skíðunum,“ segir Þröstur og hlær.
Eflaust mættu stjórnendur sumra ónefndra þjóðþekktra fyrirtækja taka þennan ferðamáta Þrastar sér til fyrirmyndar.
Fjórir eigendur
Eigendur Inntrés ehf. eru fjórir, Þröstur Jóhannesson húsasmíðameistari sem á 20%, fjárfestingarsjóðurinn Hvetjandi sem á 20%, Vestfirskir verktakar sem eiga 11% og Hólmberg ehf., sem á 49%.
Segir Þröstur að einn stjórnarmanna, Rafn Pálsson, hafi stofnað fyrirtæki fyrir tveim árum þegar TH ehf. hætti rekstri og keypti allar trésmíðavélarnar sem til staðar voru. Leigði hann síðan eigendum Trésmiðju Ísafjarðar vélakostinn, en þeir hættu rekstri á síðastliðnu vori. Þá stóð Rafn frammi fyrir því að þurfa að fjarlægja vélarnar eða reyna að finna flöt á því að koma aftur á fót fyrirtæki sem gæti nýtt þær.
„Hann fékk mig og Vestfirska verktaka að verkefninu og síðan kom inn í þetta fjárfestingarsjóðurinn Hvetjandi, sem settur var á fót á vegum Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. Við gengum inn í fyrirtæki Rafns sem átti vélarnar. Húsnæðið er aftur á móti leigt af félagi í Keflavík sem heitir Urtusteinn og er í eigu Samkaups sem á reyndar töluvert af öðru húsnæði á Ísafirði.“
Þröstur telur að nú sé góður tími til að opna trésmíðaverkstæði því verkefni fari aftur vaxandi eftir hrunið sem olli því að um 70% af markaðnum hrundi í þessari grein.“