Fyrstu verðskrár birtar
Sauðfjárslátrun hófst hjá sláturhúsi KVH á Hvammstanga síðastliðinn mánudag. Á sjöunda hundrað fjár var þá slátrað til að útvega kjöt í sendingar til Whole Foods verslananna í Bandaríkjunum. Áfram verður slátrað næstu tvo mánudaga á Hvammstanga en regluleg slátrun hefst þar í fyrstu viku september.
Þá gaf SKVH út verðskrá í gær fyrir slátrun haustsins. Fljótt á litið virðist verðskráin vera óbreytt frá fyrra ári að viðbættri þeirri 15 króna uppbót á kíló sem SKVH og KS greiddu út fyrr á þessu ári. Verðskráin mun einnig gilda fyrir KS en þar hefst slátrun í fyrstu viku septetmber.
Aðrir sláturleyfishafar hafa ekki gefið út verðskrár en búast má við þeim öllum um eða eftir helgi. Í samtölum við forsvarsmenn sláturleyfishafa kemur fram að reikna má með því að verðskrár verði á svipuðu róli og sú sem SKVH kynnti í gær. Flestir hinna sláturleyfishafanna munu hefja slátrun strax upp úr mánaðamótum utan SS sem hyggjast slátra 20. ágúst, 27. ágúst, 3. og 4. september og hefja svo reglulega slátrun 10. september.