Garnaveiki greinist í Héraðshólfi
Þann 3. nóvember síðastliðin var garnaveiki staðfest á sauðfjárbúi í Héraðshólfi, nánar tiltekið í Hróarstungu. reint er frá þessu á vef Matvælastofnunnar.
Á því svæði hefur garnaveiki ekki greinst síðan fyrir fjárskipti sem voru í kringum árið 1990. Garnaveiki er ólæknandi smitsjúkdómur í jórturdýrum. Á bæjum sem garnaveiki greinist á gilda ýmsar takmarkanir sem lúta að því að hindra smitdreifingu. Héraðsdýralæknir Matvælastofnunar mun í kvöld halda fund með bændum í Hróarstungu þar sem viðbrögð við sjúkdómnum verða rædd.
Garnaveikin uppgötvaðist við eftirlit dýralæknis Matvælastofnunar í sláturhúsi og af þeim 9 sýnum sem send voru til greiningar voru 5 sýni jákvæð m.t.t. garnaveiki.
Orsök sjúkdómsins er lífseig baktería af berklaflokki (Mycobacterium paratuberculosis). Helstu einkenni hennar eru hægfara vanþrif ásamt skituköstum. Í þeim hjörðum sem veikin kemur upp getur einnig verið þónokkuð um „heilbrigða smitbera“. Meðgöngutími í sauðfé er 1-2 ár eða lengri. Garnaveikibakterían veldur bólgum í mjógörn og oft einnig í langa, ristli og lifur. Sýklarnir berast út með saurnum og geta lifað í 1- 1 ½ ár í óhreinindum og pollum umhverfis gripahús, við afréttargirðingar, í sláturúrgangi og í líffærum skepna sem drepast út um haga. Sýking verður um munn með saurmenguðu fóðri og vatni.
Um garnaveiki og varnir gegn henni gildir reglugerð nr. 911/2011. Markmið hennar er að stuðla að útrýmingu garnaveikinnar. Í reglugerðinni eru m.a. ákvæði um þær takmarkanir sem gilda um garnaveikibæi. Þar á meðal er að óheimilt er að láta til lífs sauðfé, geitur eða nautgripi í 10 ár frá síðustu greiningu á garnaveiki eða vanrækslu á bólusetningu. Reglugerðin kveður einnig á um skyldu til bólusetningar sauðfjár á tilteknum svæðum á landinu.