Góð berjaspretta fyrir norðan og austan en lakari á Vesturlandi
Berjaspretta er mjög góð á Norður- og Austurlandi en minni á Vesturlandi, að sögn Sveins R. Haukssonar, læknis og áhugamanns um ber og berjatínslu.
„Berjatínsla er raunar hafin bæði fyrir norðan og austan og á það við um allar venjulegar tegundir sem flestir eru að sækjast eftir, eins og aðalbláber, bláber og krækiber.“
Þrátt fyrir að sprettan sé lakari á Vesturlandi en fyrir norðan og austan er samt víða ber að fá í nágrenni við höfuðborgina, eins og í Esjunni, í fjallendi uppi af Hvalfirði, í Svínadal og á Draghálsi. Ég ráðlegg fólki á Vesturlandi að bíða þar til um næstu mánaðamót með að fara í berjamó langi það að tína eitthvað að gagni.“
Sveinn segir að sólarleysið á Vesturlandi í sumar sé helsta ástæðan fyrir lakri berjasprettu í ár. „Berjaspretta fyrir sunnan og vestan var líka fremur léleg á síðasta ári. Maí á þessu ári var reyndar mjög góður og það er líklega helsta ástæða þess að þar vaxa á annað borð ber í ár. Þeim sem langar virkilega að komast í góð ber er því ráðlegast að fara austur eða norður og tína þar með öðrum sem tilheyra berjatínsluhreyfingunni.“