Góð kornuppskera á Austurlandi
„Við fengum alveg prýðilega uppskeru og erum ánægðir,“ segir Friðjón Þórarinsson, bóndi í Flúðum við Egilsstaði, sem í félagi við þrjá bændur stendur að kornræktun austur á Héraði. Þeir sáðu á sumardaginn fyrsta og luku við að þreskja nú í vikunni. Alls fengu þeir um 24 tonn af korni af 8 ha lands.
Auk Friðjóns eru þeir Einar Örn Guðsteinsson á Teigabóli, Helgi Bragason á Setbergi og Jóhann Þórhallsson í Brekkugerði með í kornræktuninni og segir Friðjón að þetta sé fyrsta sumarið sem þeir standi saman að slíku verkefni. „Þetta var tilraun og hún tókst mjög vel í sumar,“ segir hann. Áður hafi hver og einn prófað sig áfram með minni skika.