Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Góð verkefnastaða hjá SAH-Afurðum á Blöndósi
Fréttir 11. desember 2014

Góð verkefnastaða hjá SAH-Afurðum á Blöndósi

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Verkefnastaðan hjá okkur er þétt,“ segir Gunnar Tryggvi Halldórsson, framkvæmdastjóri SAH Afurða á Blönduósi. 

Sauðfjárslátrun lauk nýverið, fleira fé en áður var slátrað hjá fyrirtækinu. Folaldaslátrun hófst um miðjan september og stendur fram yfir áramót. Þá er verið að leggja lokahönd á reykingu jólahangikjötsins og í framhaldi af því hafist handa við að útbúa jólagjafapakka sem félagið býður og nýtur æ meiri vinsælda.  Eins er þorramaturinn löngu kominn í súr og bíður síns sölutíma. „Það er alltaf nóg að gera hjá okkur, eitt tekur við af öðru,“ segir Gunnar.

Magnið um 100 tonnum meira en í fyrra

Alls var slátrað um 105 þúsund fjár hjá SAH Afurðum á Blönduósi í nýliðinni sláturtíð, sem er nokkru meira en var í fyrra, aukningin nemur um 2.000 fjár.  „Það hafa bæst við hjá okkur nýir viðskiptavinir og við túlkum það sem svo að innleggjendur beri til okkar traust,“ segir Gunnar. Meðalþyngd dilka er um 400 grömmum meiri en var í sláturtíð í fyrra, aukin þyngd og meira magn þýðir að um 100 tonnum meira af kjöti fór í gegnum vinnsluna þetta haustið.

Gunnar segir að sláturtíð hafi gengið eins og best verður á kosið.  Alls eru fastir starfsmenn hjá fyrirtækinu á milli 40 og 50 talsins, en í sláturtíð bætast um 100 við, þannig að heildarfjöldinn er um 140 til 150 manns.

Aukin folaldaslátrun

Félagið hefur á liðnum árum aukið mjög folaldaslátrun og hófst hún nú um miðjan september.  Gunnar segir að í vetur verði að líkindum slátrað um 2.000 folöldum hjá fyrirtækinu og standi sú tíð fram að áramótum, jafnvel eitthvað fram í janúar. „Það hefur orðið aukning í þessu hjá okkur undanfarin ár, þetta kjöt líkar vel, en við seljum bæði í heildsölur og til einstaklinga.  Einstaklingar geta keypt heila eða hálfa skrokka og fengið þá úrbeinaða í þeirri stærðareiningu sem hentar, allt eftir fjölda heimilismanna og þá bita sem þeir kjósa. Okkar viðskiptavinum líka það vel að geta ráðið för í þeim efnum.“

Hangikjötið klárt fyrir jólin

SAH Afurðir reka tvö sláturhús, annars vegar stórgripasláturhús og hins vegar sauðfjársláturhús, reykhús og kjötvinnslu, „þannig að þetta er fjölbreytt hjá okkur,“ segir Gunnar.  Um þessar mundir eru starfsmenn að leggja lokahönd á reykingu hangikjöts, en um 50–100 tonn af hangikjöti eru unnin hjá félaginu ár hvert, bæði í verktöku fyrir aðrar vinnslur og eins til sölu til viðskiptamanna þess. „Við erum þessa dagana að setja saman jólagjafapakka sem seldir eru um land allt ár hvert,“ segir Gunnar.  Pakkarnir eru einfaldir og á hagstæðu verði. Til að byrja með voru jólagjafapakkar, fyrst og fremst hugsaðir til sölu á heimamarkaði, „en svo hefur þetta undið upp á sig, spyrst út og æ fleiri vilja fá frá okkur hangikjöt, þannig að þetta er eitt af því sem hefur vaxið undanfarin ár.“

Sviðasultan vinsæll skyndibiti

Þá hefur í haust einnig verið unnið að því að undirbúa þorramatinn og segir Gunnar að félagið sé trúlega eitt stærsta hér á landi í sviðasultugerð, árlega framleiðir það yfir 30 tonn af sviðasultu.  „Hér er verið að búa til sviðasultu í hverri viku, allt árið, ekki bara í tengslum við þorrann,“ segir hann.  „Sala á sviðasultu hefur rokið upp hin síðari ár, líklega er þetta eini skyndibitinn sem í boði er úr lambakjöti og þetta er hrein vara, bara kjöt og vatn, ekkert hveiti og engin sykur.  Fólk hefur áttað sig á því, sviðasulta er t.d. töluvert keypt í sjoppum, þannig að menn taka hana greinilega margir hverjir fram yfir annan skyndibita þegar þeir eru á ferðinni,“ segir Gunnar.

6 myndir:

Færri útflutt hross
Fréttir 7. janúar 2025

Færri útflutt hross

Útflutningur íslenskra hrossa árið 2024 verður minni en í fyrra.

Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt
Fréttir 7. janúar 2025

Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt

Ákveðið hefur verið að flytja meðferðarheimilið Lækjarbakka í Gunnarsholt á Rang...

Smáforrit til að panta sæðingar
Fréttir 6. janúar 2025

Smáforrit til að panta sæðingar

Smáforritið Fang, sem er notað fyrir pantanir á sæðingum og skráningar fyrir frj...

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins
Fréttir 6. janúar 2025

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins

Haukur Bjarnason, bóndi á hrossaræktarbúinu Skáney í Reykholtsdal, er nýr formað...

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti
Fréttir 6. janúar 2025

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti

Gagnkvæm viðurkenning er nú á landfræðilegum afurðaheitum Íslands og Bretlands o...

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu
Fréttir 3. janúar 2025

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu

Í haust keypti samlagsfélagið SÍA IV, framtakssjóður í rekstri sjóðstýringarfyri...

Hert á ferlunum
Fréttir 3. janúar 2025

Hert á ferlunum

Einfalda, hraða og stytta á ferli rammaáætlunar til að flýta fyrir orkuöflun í l...

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru
Fréttir 3. janúar 2025

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru

Framkvæmdir við uppbyggingu Laxeyjar á fiskeldi í Vestmanna­eyjum hafa gengið sa...