Hagsmunum svínabænda var haldið til haga
Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ, segir vegna yfirlýsingar svínabænda að áherslur svínaræktarinnar hafi verið ræddar í viðræðum um búvörusamninga.
„Hagsmunum svínabænda var haldið til haga við samningaborðið eins og reyndar hagsmunum allra annarra búgreina. Bændasamtökin létu dr. Vífil Karlsson gera skýrslu um tollasamninginn og RML skýrslu um kostnað vegna nýrra aðbúnaðarreglugerða, einmitt til að draga fram þann mikla kostnað sem svínaræktin og fleiri búgreinar eru að verða fyrir vegna þessara atriða. Því miður voru stjórnvöld ekki tilbúin að koma til móts við þessi sjónarmið nema að litlu leyti í svínaræktinni, en ekkert í öðrum greinum. Það eru vonbrigði að Svínaræktarfélagið sé að velta fyrir sér úrsögn úr Bændasamtökunum. Ég er og verð þeirrar skoðunar að bændur séu sterkari saman sem ein heild.“