Hefur drepið milljónir dýra
Alvarlegur niðurgangsfaraldur hefur herjað á svín í Bandaríkjunum á liðnum misserum og hefur drepið yfir 7 milljónir grísa á einu ári.
Afleiðing pestarinnar er minna framboð á svínakjöti og ört hækkandi verð.
Málið er litið mjög alvarlegum augum í Bandaríkjunum en vírsusinn gengur undir nafninu Porcine Epidemic Diarrhoea, eða PED. Sjúkdómurinn veldur niðurgangi með þeim afleiðingum að svínin hætta að nærast, ofþorna og drepast. Haft er eftir Tony Forshey, yfirmanni dýraheilbrigðismála í Ohio, að vírusinn virki líkt og „sláttuvél“ á meltingarfæri svínanna. Um leið og þessi líffæri hætti að virka geti svínin ekki nærst eðlilega, hvorki af fóðri né vatni. Lyfjafyrirtækið Harrisvaccines Inc. hefur verið að reyna að þróa mótefni gegn þessum vírus. Þá hafa stóru lyfjafyrirtækin Merck Animal Health og Zoetis Inc. tekið saman höndum um að þróa mótefni í samvinnu við bandaríska háskóla.
Samkvæmt umfjöllun fréttastofu Reuters fannst vírusinn fyrst í Ohio í maí á síðasta ári og hefur nú breiðst til meira en 4.700 býla í 30 ríkjum Bandaríkjanna. Um þriðjungur af 3.000 svínabúum í Norður-Karólínu hefur sýkst síðan í júní 2013. Þá hefur vírusinn einnig verið að breiðast út til Kanada, en svínaræktin þar hefur verið nátengd þeirri bandarísku. Á sumum stöðum eiga menn nú í miklum erfiðleikum með að útvega svínakjöt á markaðinn.
Uppruninn óljós
Um nákvæman uppruna sjúkdómsins er ekki vitað, en hann er sagður mjög svipaður vírus sem kom upp í svínum í Anhui-héraði í Kína. Þá er greint frá því að vægari tilfella sjúkdómsins hafi orðið vart í Evrópu, Japan, Mexíkó og í hluta af Suður-Ameríku á undanförnum árum.
Talið er að sjúkdómurinn berist með svínaskít og er einnig talið að ekki þurfi nema eina teskeiðarfylli af sýktum svínaskít til að sýkja öll svín í Bandaríkjunum. Þá sýna rannsóknir Minnesota-háskóla að vírusinn getur lifað í vatni við stofuhita í 13 daga. Þó er ekki talið að vírusinn geti smitast í menn. Eru bændur hvattir til að gæta ítrasta hreinlætis við meðhöndlun svínanna og að vera í hreinum vinnufatnaði. Þá hefur svínasýningum víða verið aflýst eins og í Virginíu, Suður-Dakota og Ohio. Eins eru gripaflutningabílstjórar hvattir til að sótthreinsa bíla og búnað. Eru þeir m.a. hvattir til að þvo bíla sína með hreinu vatni en ekki endurunnu. Er talað um að slík hreinsun bílanna geti kostað um 500 dollara aukalega og tveggja tíma vinnu.
Annar vírus að stinga sér niður
Ekki bætir úr skák að önnur veira, Swine Delta Corona virus (PDCv), sem hefur svipuð einkenni, er einnig að breiðast út í Bandaríkjunum. Samkvæmt upplýsingum bandarísku dýraheilbrigðisþjónustunnar USDA (Animal Health Inspection Service), þá hafa fundist 382 tilfelli um sýkt dýr af í 17 ríkjum eða í 7,2% þeirra tilfella PDCv sem rannsökuð hafa verið. Hefur USDA farið fram á aukafjárveitingu til að berjast við þessa plágu.
Stór skörð höggvin í hjarðir margra bænda
Í apríl á þessu ári greindi Reuters frá því að yfir 10% af bandaríska svínastofninum væri sýktur af niðurgangspestinni PED. Þar var greint frá einstökum svínabændum sem höfðu misst tugþúsundir grísa frá því í fyrrahaust. Dæmi eru þar nefnd um bændur sem höfðu misst 25% af sínum stofni. Á einu ári er pestin sögð hafa drepið meira en 10% af svínastofninum.
Minna framboð af kjöti og verð hækkar
Svínapestin hefur leitt til minnkandi framboðs á svínakjöti á markaði og hækkandi afurðaverðs. Er búist við að svínakjötsframleiðslan í Bandaríkjunum dragist saman um 2% á þessu ári vegna svínapestarinnar. Samkvæmt fréttum frá bandaríska landbúnaðarráðuneytinu hefur þetta leitt til þess að neytendur hafa verið að greiða nærri 13% hærra verð fyrir svínakjöt í stórverslunum. Fréttir berast af metverði á svínakjöti vegna minnkandi framboðs, en svínakjöt hefur dekkað nærri fjórðung kjötmarkaðarins í Bandaríkjunum. Kemur það næst á eftir nautakjöti sem hefur verið um 29% markaðshlutdeild. Nær helmingur kjötneyslu Bandaríkjamanna er alifuglakjöt, en kindakjöt er einungis með um 1% hlutdeild.
Frá því í júní 2013 fram í apríl 2014 er talið að sjö milljónir svína hafi drepist, en samkvæmt tölum landbúnaðarráðuneytis Bandaríkjanna var stofninn talinn vera um 63 milljónir dýra hinn 1. mars 2014.