Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Bolti 09021 er frá Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi.
Bolti 09021 er frá Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi.
Á faglegum nótum 10. desember 2014

Helstu niðurstöður nýs kynbótamats í nóvember 2014

Höfundur: Guðmundur Jóhannsson

Nú í nóvember var keyrt nýtt kynbótamat í nautgriparæktinni og lesið inn í nautgriparæktarkerfið Huppu í beinu framhaldi af því. Niðurstöður þess eru því aðgengilegar notendum Huppu en hér verður stiklað á stóru um þau naut sem hafa verið og koma ný í dreifingu.

Fagráð í nautgriparækt tók á fundi sínum þann 26. nóvember s.l. ákvörðun um það hvaða naut verða í almennri dreifingu næstu mánuði. Ákveðið var að fjölga reyndum nautum í dreifingu á þann hátt að nú koma tvö ný naut til dreifingar og þau 18 sem áður voru í dreifingu verða það áfram. Í sambandi við þetta er þó rétt að hafa í huga að töluvert er farið að ganga á sæðisbirgðir úr ákveðnum nautum en þau verða í notkun svo lengi sem sæði er til úr þeim. Þetta á við um Hjarða 06029, Sand 07014, Húna 07041, Lög 07047, Laufás 08003 og Klett 08030. Áfram verður viðhöfð magnstýring á notkun úr þeim Flekki 08029, Kletti 08030 og Bamba 08049. Ánægjulegt er að sjá að þau naut sem hafa verið í notkun undanfarin misseri standa við fyrri dóm að mestu leyti. Stærstu breytingarnar eru til hækkunar og þau naut sem lækka í mati lækka í meginatriðum óverulega.

Segja má að afkvæmadómi 2008 árgangsins sé lokið en nú þegar eru þau naut sem telja má áhugaverð til framhaldsnotkunar úr þeim árgangi komin í dreifingu. Því miður er ekki um fleiri naut að ræða þar sem fengið hafa verulega gott mat að lokinni afkvæmaprófun.

Eins og áður sagði var ákveðið tvö ný naut í dreifingu sem reynd naut. Þessi naut eru enn með algjöran lágmarksfjölda dætra með afurðaupplýsingar bak við sitt mat en komin nægan fjölda dætra með útlitsmat og mjaltaathugun til þess að það mat sé komið með gott öryggi.

Ný naut í notkun

Þau naut sem koma ný inn í dreifingu eða nautaskrá eru Kraki 09002 og Bolti 09021. Hér verður gerð nánari grein fyrir þeim.

Kraki frá Egilsstaðakoti í Flóa.

Kraki 09002 er frá Egilsstaðakoti í Flóa, faðir er Þollur 99008 og móðir Sokka 372 Soldánsdóttir 95010. Dætur Kraka eru afurða kýr en hlutföll verðefna í mjólk eru undir meðallagi. Þetta eru meðalstórar kýr en fremur bolgrunnar og útlögur ekki miklar. Yfirlínan er sterk og þær eru í góðu meðallagi háfættar. Malir eru prýðilega gerðar, beinar og flatar en grannar. Fótstaða er góð og sterkleg. Júgurgerð þessara kúa er úrvalsgóð, júgrin eru vel gerð, ákaflega vel borin með mikla festu og sterkt júgurband. Spenagerð er góð, þeir eru stuttir, hæfilega grannir og meðal vel settir. Dætur Kraka eru mjög góðar í mjöltum og skapið er um meðallag. Um einn fjórði hluti afkvæma Kraka er einlitur og af grunnlitum eru rauðir og bröndóttir litir algengastir. Af tvílitum kemur skjöldóttur oftast fyrir. Ekki er þekkt að Kraki gefi hyrnd afkvæmi. Hæð dætra er að meðaltali 5,2.

Bolti 09021 er frá Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi og er hann fyrsti sonur Spotta 01028 sem kemur til framhaldsnotkunar. Móðir hans er Skinna 192 Snotradóttir 01027. Dætur Bolta eru afurða kýr og hlutföll verðefna í mjólk eru um meðallag. Þetta eru sérlega stórar og háfættar kýr með mikla boldýpt og útlögur en yfirlínan er fremur veik. Malir eru sérlega breiðar, hallandi og flatar. Fótstaða er ákaflega sterkleg og góð. Júgurgerð þessara kúa er úrvalsgóð, þau eru vel löguð, ákaflega vel borin með mikla festu og sterkt júgurband. Spenagerð er góð, þeir eru stuttir, hæfilega grannir og vel settir. Dætur Bolta eru góðar í mjöltum og skapið er um meðallag. Tæplega tveir þriðju hlutar afkvæma Bolta eru einlitir og af grunnlitum eru kolóttir litir algengastir. Af tvílitum kemur skjöldóttur oftast fyrir. Undan Bolta geta komið hyrndir gripir. Hæð dætra er að meðaltali 6,6.

Naut sem áfram verða í notkun

Þau naut sem áfram verða í notkun eru: Logi 06019, Dynjandi 06024, Hjarði 06029, Víðkunnur 06034, Sandur 07014, Rjómi 07017, Húni 07041, Toppur 07046, Lögur 07047, Keipur 07054, Blámi 07058, Laufás 08003, Blómi 08017, Þáttur 08021, Flekkur 08029, Klettur 08030 og Bambi 08049. Alls verða því 20 reynd naut í dreifingu í vetur eins og áður sagði.

Ef við lítum aðeins nánar á þau naut sem voru í dreifingu þá stendur Logi 06019 með 112 í heildareinkunn og hefur hækkað um eitt stig. Hans sterkustu þættir liggja í miklum mjólkurafköstum dætra, háu próteinhlutfalli, júgurgerð og skapi auk þess sem þessar kýr eru fremur júgurhraustar. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að fituhlutfallið er töluvert undir meðallagi sem kannski takmarkar notkunarmöguleika hans við kýr með hátt fituhlutfall í mjólk. Hæð dætra er að meðaltali 5,4.

Dynjandi 06024 lækkar um eitt stig í heildareinkunn og stendur nú með 111 í heildareinkunn. Dynjandi fékk til að byrja með óverðskuldað litla notkun enda atti hann þar kappi við Vindil 05028 og Birting 05043 sem eru samfeðra auk þess að eiga sameiginlegan móðurföður. Dynjandi gefur kýr með mikla afurðagetu, bæði hvað varðar magn og verðefni. Fituhlutfall í mjólk dætra er sérlega hátt og ekki er hægt segja annað en að júgur- og spenagerð dætra hans sé úrvalsgóð og mjaltirnar góðar. Ókostir Dynjanda liggja kannski helst í því að júgurhreysti er í tæpu meðallagi og þetta eru fremur bolléttar kýr. Hæð dætra er að meðaltali 5,6.

Hjarði 06029 hækkar um eitt stig í heildareinkunn og stendur í 113. Hjarði gefur afurðasamar kýr, mjólkurlagnar með góð verðefnahlutföll. Hans sterkasti þáttur er júgurhreystin en í mati fyrir frumutölu stendur hann í 144. Júgur- og spenagerð er mjög góð en mjaltir í slöku meðallagi. Hæð dætra er að meðaltali 4,8.

Víðkunnur 06034 gefur aðeins eftir og stendur nú með 107 í heildareinkunn. Dætur hans eru mjólkurlagnar með hátt fituhlutfall í mjólk en próteinhlutfall er nokkuð lágt. Taka þarf tillit til þess við notkun hans. Mesti styrkur hans liggur í frábærri júgurgerð dætra sem er með því albesta sem gerist og þá er spenagerð þeirra góð. Mjaltir og skap eru í góðu meðallagi og þessar kýr virðast ætla að endast vel. Hæð dætra er að meðaltali 5,3.

Sandur 07014 lækkar um eitt stig er nú með 113 í heildareinkunn. Sandur er tiltölulega lítt skyldur þeim nautum sem mest hafa verið undanfarin ár sem gerir hann góðan valkost m.t.t. þess. Dætur hans eru vel yfir meðallagi mjólkurlagnar með góð verðefnahlutföll. Sterkasti þáttur Sands liggur í mjöltunum sem eru úrvalsgóðar og ber hann áfram föðurarfinn frá Glanna til dætra sinna. Stærsti ókostur dætra Sands er að spenar eru í lengra lagi. Hæð dætra er að meðaltali 5,5. Sandur verður áfram til notkunar sem nautsfaðir.

Rjómi 07017 styrkir sína stöðu og er með 110 í heildareinkunn. Dætur hans eru gríðarmiklar mjólkurkýr en hlutföll verðefna eru um eða heldur undir meðallagi. Styrkleikar hans liggja að öðru leyti í mjög góðri júgur- og spenagerð, sérstaklega er júgurband áberandi, og afbragðsgóðum mjöltum. Veiki hlekkurinn er hins vegar lágt mat fyrir skap sem segir okkur að þetta eru skapmiklar kýr en þó verður að hafa í huga að Þollur, faðir hans, dregur hann verulega niður. Þrátt fyrir það raðast dætur hans hátt í gæðaröð sem segir að bændum líkar almennt vel við þessa gripi. Hæð dætra er að meðaltali 5,6.

Húni 07041 lækkar um eitt stig í heildareinkunn og stendur í 113. Húni gefur mjólkurlagnar kýr með úrvalsgóða júgur- og spenagerð eins og svo margir synir Laska 00010 hafa erft frá föður sínum. Skap þessara grip er sérlega gott og mjaltirnar mjög góðar. Þeir gallar sem dætur Húna sýna eru þeir helstir að fituhlutfall í mjólk er í tæpu meðallagi og þetta eru ekki bolmiklar kýr. Hæð dætra er að meðaltali 5,4. Húni verður áfram í notkun sem nautsfaðir.

Toppur 07046 heldur sínu og stendur áfram í 111 í heildareinkunn. Styrkur Topps felst í mjólkurlagni dætra og mjög háum veðefnahlutföllum í mjólk þeirra. Þær eru jafnframt mjög skapgóðar og júgurhreystin mikil en mjaltir eru í tæpu meðallagi og kippir þeim þar í kynið, sonardætur Hersis. Þá eru þetta bolléttar kýr og ætti einkum að nota Topp á bolmiklar og sterkbyggðar kýr. Hæð dætra er að meðaltali 5,5. Toppur verður í notkun sem nautsfaðir næstu mánuði.

Lögur 07047 stendur í stað í mati, með 112 í heildareinkunn. Styrkur Lagar liggur í byggingu dætra þar sem hann gefur kýr með afbragðsgóða júgur- og spenagerð auk mjög góðra mjalta og frábærs skaps. Þá verður ekki annað sagt en að þær séu ágætlega mjólkurlagnar og verðefnahlutföll í mjólk eru há, sérstaklega fitan. Hæð dætra er að meðaltali 5,7. Áfram er óskað eftir nautkálfum á stöð undan Legi.
Keipur 07054 bætir í og stendur nú með 111 í heildareinkunn. Dætur Keips eru stórar og bolmiklar samhliða því að vera mjög miklar mjólkurkýr með verðefnahlutföll í mjólk um eða rétt yfir meðallagi. Júgurgerð þeirra er mjög góð og spenagerðin með ágætum. Þá eru mjaltir mjög góðar en skapið er mikið þó rétt sé að hafa í huga að Þollur, faðir hans, dregur hann niður. Þrátt fyrir mikið skap koma þessar kýr vel út í gæðaröð sem sýnir að almennt líkar mönnum vel við þessa gripi. Hæð dætra er að meðaltali 5,6.
Blámi 07058 gefur örlítið eftir, lækkar um eitt stig í heildareinkunn og er nú með 109. Styrkur Bláma liggur í mjólkurafköstum dætra og góðri júgur- og spenagerð auk þess sem þeir eru mjög vel settir. Þetta eru stórar og rýmismiklar kýr með góða júgurhreysti. Ókostir liggja í fituhlutfalli sem er undir meðallagi og mjaltir eru um meðallag. Hæð dætra er að meðaltali 5,4. Áfram er óskað eftir nautkálfum á stöð undan Bláma.

Laufás 08003 bætir aðeins í og er nú með 114 í heildareinkunn. Segja má að Laufás gefi bara kýr sem hafa kosti til að bera en að meðaltali fyrir lítið fyrir göllum. Þetta eru stórar og öflugar afurða kýr með hátt próteinhlutfall í mjólk. Júgur- og spenagerð er mjög góð og skapið frábært en mjaltir um meðallag. Það sem telja má til ókosta er að fituhlutfall er einungis á meðaltali. Hæð dætra er að meðaltali 5,8. Laufás verður áfram til notkunar sem nautsfaðir.

Blómi 08017 styrkir sína stöðu verulega, hækkar um heil fjögur stig í heildareinkunn og stendur í 111. Hann sækir sinn styrk í afurðasemi dætranna sem og júgurhreysti ásamt júgur- og spenagerð. Spenar eru sérstaklega vel settir. Þetta eru stórar og bolmiklar kýr en mjaltir eru í tæpu meðallagi. Hæð dætra er að meðaltali 5,4.

Þáttur 08021 gefur heldur eftir, lækkar um 3 stig í heildareinkunn og stendur nú með 107. Þáttur er hins vegar í notkun vegna sérstöðu sinnar að segja má en hann og dætur hans eru í tæpu meðallagi mjólkurlagnar en gefa hins vegar gríðarhá efnahlutföll í mjólk, bæði fitu og prótein. Þetta eru fremur smáar kýr með prýðilega júgurgerð og úrvalsgóða spenagerð ásamt því að þeir eru mjög vel settir. Þá eru þetta skemmtilegar kýr í mjöltum og skapi. Hæð dætra er að meðaltali 5,8.

Flekkur 08029 heldur sinni stöðu og er með 113 í heildareinkunn. Dætur Flekks eru gríðarmiklar mjólkurkýr en fituhlutfall í mjólk er fremur lágt og próteinhlutfall nærri meðallagi. Þessar kýr eru fremur bolgrunnar og útlögulitlar með vel borin júgur. Sterkasti þátturinn liggur hins vegar í spenagerðinni sem er úrvalsgóð. Mjaltirnar eru um meðallag en skapið heldur mikið. Hæð dætra er að meðaltali 5,1. Flekkur verður áfram í notkun sem nautsfaðir auk þess sem kvóti er á notkun hans.

Klettur 08030 lækkar um tvö stig í heildareinkunn en heldur mjög háu mati eða 115 í heildareinkunn. Dætur Kletts eru gríðarmiklar mjólkurkýr en fituhlutfall í mjólk er fremur lágt og próteinhlutfall í meðallagi. Þetta eru stórar og virkjamiklar kýr með mjög góða júgur- og spenagerð. Þá eru mjaltir þeirra og skap úrvalsgott enda eru þær vinsælar og  mjög vel liðnar af eigendum sínum. Hæð dætra er að meðaltali 5,9. Klettur verður áfram í notkun sem nautsfaðir auk þess sem kvóti er á notkun hans.
Gói 08037 styrkir sína stöðu, hækkar um tvö stig í heildareinkunn og er nú með 109. Gói gefur geysilega mjólkurlagnar kýr með gríðarhátt fituhlutfall í mjólk. Próteinhlutfall er hins vegar í tæpu meðallagi. Júgur- og spenagerð þessara kúa er góð, sérstaklega eru spenar vel settir. Mjaltir eru hins vegar ekki nema um meðallag og skapið neðan þess. Hæð dætra er að meðaltali 5,3.

Síðastur, en alls ekki sístur, í röðinni er Bambi 08049. Bambi kom til notkunar í sumar með hæstu heildreinkunn allra nauta og hann bætir enn í, hækkar um tvö stig og er nú með 120 í heildareinkunn. Segja má að Bambi sé yfirburðagripur, fremstur meðal jafningja og hvergi veikan blett að finna í glæsilegu kynbótamati hans sem byggir orðið á þó nokkrum fjölda dætra. Þetta eru fremur smáar kýr með miklar útlögur, mjólkurlagnar og hutfall verðefna í mjólk er hátt. Júgur- og spenagerð ásamt mjöltum og skapi verður að teljast frábært enda eru þessar kýr geysivinsælar hjá eigendum sínum. Hæð dætra er að meðaltali 5,2. Bambi verður áfram í notkun sem nautsfaðir auk þess sem kvóti er á notkun hans. Sérstök ástæða er til þess að biðja menn að nýta sæðið úr honum vel, gæta hófsemi og sýna takmörkunum á dreifingu sæðis úr Bamba fullan skilning.

Nautsfeður

Eins og fram hefur komið í umfjöllun um nautin hér að ofan verða nautsfeður til notkunar næstu mánuði þeir Sandur 07014, Laufás 08003, Flekkur 08029, Klettur 08030 og Bambi 08049.

Áfram er óskað eftir að látið verði vita um nautkálfa undan nautsmæðrum og efnilegum kvígum sem fengu við Húna 07041, Toppi 07046, Legi 07047 og Bláma 07058 auk ofantalinna nautsfeðra.

Væntanleg naut

Við næstu keyrslu kynbótamats verða vonandi fleiri naut úr árgangi 2009 komin með nægilegan fjölda dætra með afurðaupplýsingar þannig að hægt verði að taka naut til notkunar úr þeim hópi. Á þessum tímapunkti hefði það verið hægt ef burðaraldur 1. kálfs kvígna væri ekki jafn hár að meðaltali og raun ber vitni. Þannig seinkar hár burðaraldur í raun erfðaframförum í kúastofninum til viðbótar þeim kostnaði og öðrum göllum sem hann hefur í för með sér.

Ef við víkjum að þeim nautum sem að öllum líkindum koma úr afkvæmaprófun við næstu keyrslu kynbótamats þá eru það naut fædd 2009. Feður þessara nauta eru einkum Skurður 02012, Spotti 01028, Kappi 01031, Flói 02029 og Lykill 02003. Þá eiga Hersir 97033, Þrasi 98052, Þollur 99008, Laski 00010, Gosi 00032, Snotri 01027 og Glæðir 02001 einnig syni í þessum árgangi sem er frekar stór, telur 27 naut. Eins og komið hefur fram koma tvö naut úr árganginum til notkunar nú og eru það synir Þolls 99008 og Spotta 01028. Því miður eiga nautsfeðurnir úr 2001 árgangnum það sammerkt að hafa fallið mikið í mati þannig að væntingar til sona þeirra eru vægast sagt mjög hóflegar. Fyrstu vísbendingar um syni Skurðs 02012 eru því miður á þann veg að dætur þeirra virðast fremur seinar í mjöltum. Þá hefur Lykill 02003 lækkað töluvert í mati en það sem einkum háir dætrum hans eru veikbyggð júgur auk þess sem þær eru ekki júgurhraustar. Seinni hluti árgangsins, sem telur einkum syni Glæðis 02001 og Flóa 02029, er mikið til óskrifað blað ennþá.

Besta naut 2007-árgangsins

Fagráð valdi á síðasta fundi sínum besta naut 2007 árgangsins. Fyrir valinu varð Sandur 07014 frá Skeiðháholti 1 á Skeiðum. Ræktandi Sands fær afhenta viðurkenningu fyrir nautið á fagþingi nautgriparæktarinnar sem haldið verður í mars á næsta ári en segja má að þetta séu æðstu verðlaun nautgriparæktarinnar hérlendis.

Sandur var fæddur 9. mars 2007 í Skeiðháholti 1 á Skeiðum, sonur Glanna 98026 og Jónu 654 Sprotadóttir 95036 og eru ræktendur hans þau Jón Vilmundarson og Guðrún Helga Þórisdóttir.
Dómsorð Sands eru: „Dætur Sands eru ágætlega afurðasamar varðandi mjólkurmagn og próteinhlutfall en fituhlutfall er undir meðallagi. Þær eru fremur útlögumiklar með fremur grannar og þaklaga malir en ágæta fótstöðu. Yfirlína er einnig fremur sterk. Júgurgerð dætra Sands er mjög góð, mikil festa og júgrin vel borin en júgurband ekki áberandi. Spenar eru langir og grannir en ágætlega settir. Mjaltir eru úrvalsgóðar og skap um meðallag.

Sandur 07014 hlýtur nafnbótina besta naut 2007 árgangs nauta frá nautastöð BÍ."

Sandur 07014 stendur nú með 113 í heildareinkunn í kynbótamati eins og þegar hefur komið fram.

 

3 myndir:

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...