Hnökrar hjá þvottastöðinni í ullarþurrkun og -móttöku
Á undanförnum vikum hafa hnökrar verið á ullarþurrkun í ullarþvottastöðinni á Blönduósi. Nýr og umhverfisvænn ullar þurrkari var settur upp í desember í stað þess olíuknúna sem fyrir var og breytingarnar hafa valdið tæknilegum örðugleikum í vinnslunni.
Þeim vandræðum hafa fylgt enn meiri tafir en venjulega eru, á því að hægt sé sækja ull eins hratt og æskilegt er talið. Guðmundur Svavarsson, verksmiðjustjóri í ullarþvottastöð Ístex, segist hafa heyrt óánægjuraddir meðal bænda með að Ístex hafi ekki náð að sækja ullina heim á bæi í eins miklum mæli og æskilegt sé.
Risastór örbylgjuofn
Guðmundur segir að vegna þess hversu hægt hafi gengið að þurrka þá ull sem þegar er í stöðinni þá hafi hreinlega ekki verið geymslupláss fyrir meiri ull. „Þetta var nú ekkert alvarlegt og allt á réttri leið nú þó við séum ekki komin á alveg full afköst, en beðið er eftir íhlutum í nýju vélina.
Við erum vön því að heyra þessar raddir, þetta er ekkert nýtt að bændur séu ókátir með að fá ekki ullina sótta. Vandamálið er að við erum ekki með nógu stórar ullargeymslur hér og á meðan svo er þá verður þetta vandamál á hverju ári. Það vilja auðvitað allir losna við ullina í einu,“ segir hann. „Aðalfréttin frá okkur er sú að við erum hætt að nota kínverskan þurrkara, sem þurfti að brenna olíu til að búa til gufu til að þurrka ull. Núna notum við nýjan umhverfisvænan þurrkara sem virkar eins og risastór örbylgjuofn,“ bætir Guðmundur við.