Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Hormónalyf notuð við kjötframleiðslu í Ameríku
Mynd / Wikimedia Commons
Fréttir 17. júlí 2014

Hormónalyf notuð við kjötframleiðslu í Ameríku

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Í íslenskum fjölmiðlum hefur að undanförnu verið talsvert fjallað um kröfu bandarísku verslanakeðjunnar Costco um að fá undanþágu til að flytja til Íslands hrátt og ófrosið nautakjöt frá Bandaríkjunum. Látið er í veðri vaka að þetta snúist eingöngu um frjálsa samkeppni á matvörumarkaði en ekki er haft mikið fyrir því að upplýsa neytendur um alla þætti málsins.

Í umræðunni hefur verið varpað upp spurningum um hvort ekki sé sjálfsagt mál að afgreiða slíka ósk. Fyrst kjötið sé nógu gott fyrir Bandaríkjamenn hljóti það einnig að vera fullboðlegt fyrir Íslendinga. Um leið hefur verið gert gys að mjög illa rökstuddum fullyrðingum stjórnmálamanna um að nautgripakjöt frá Bandaríkjunum sé verulega mengað af ýmiss konar lyfjum. Lítið fer þó fyrir því að fjölmiðlar og almenningur geri tilraunir til að kanna sannleiksgildi slíkra fullyrðinga, þó að auðvelt sé að nálgast slíkar upplýsingar.

Staðreyndirnar eru grafalvarlegar

Íslendingar eru blessunarlega lausir við óhóflega notkun fúkkalyfja við dýraeldi vegna kjötframleiðslu. Reyndar eru íslenskir bændur þar sér á parti ásamt norskum kollegum sínum varðandi minnstu notkunina sem þekkist í heiminum. Þetta hefur ítrekað verið staðfest í úttektum ESB.

Þar kemst notkun vaxtarhormóna ekki einu sinni á blað og eru þau ekki notuð sem vaxtarhvetjandi efni í kjötframleiðslu hér og heldur ekki sem hvati í mjólkurframleiðslu.

Þegar litið er á nokkrar staðreyndir í málinu og opinber bandarísk gögn um lyfjanotkun í þarlendum landbúnaði er varla hægt að segja annað en að umfjöllunin á Íslandi að undanförnu risti furðulega grunnt. Þráfaldlega hefur þar verið byggt annaðhvort á verulegri vanþekkingu eða vísvitandi rangfærslum. Samt er upplýsingar víða að finna sem segja allt aðra og alvarlegri sögu en ætla má af fjölmiðlaumræðunni hér. Varla er það heldur aðhlátursefni fyrir neytendur.

Allt vottað – en samkvæmt heimildum um lyfjanotkun

Það er ekkert leyndarmál að bandarískur landbúnaður hefur notað hormón og fúkkalyf í stórum stíl sem vaxtarhvetjandi efni á umliðnum áratugum og kanadískur landbúnaður tók að nokkru upp svipaða framleiðsluhætti sem og bændur víða á meginlandi Evrópu. Samt er þessi framleiðsla stimpluð í bak og fyrir og vottuð, enda í samræmi við opinberar heimildir um vaxtarhvetjandi lyfjanotkun.

Einhver ástæða er samt fyrir því að fólki, t.d. í Kanada, er farið að ofbjóða. Það sættir sig ekki lengur við lyfjamengað kjöt. Eru söluaðilar því farnir að leita í aðra heimshluta eftir „ómenguðu“ nautakjöti eins og lesa má um m.a. á vefsíðu The Western Producer. Því er nú hafin ný markaðssókn hjá skyndibitaveitingakeðjunni A&W, sem segist ekki vilja lyfjamengað kjöt í sína framleiðslu undir slagorðunum; „Better beef for better burgers.“ Þessi veitingahúsakeðja er með 790 skyndibitastaði í Kanada og er næststærst á eftir McDonald´s.

„Nautum sem alin eru fyrir A&W í Kanada, Bandaríkjunum og Ástralíu er haldið aðskildum frá öðrum dýrum sem alin eru á „hefðbundinn hátt“ til að tryggja að þau fái ekki vaxtarhormón,“ segir Susan Senecal, markaðsstjóri A&W í samtali við The Vancouver Sun. Fyrirsögn þeirrar fréttar er A&W útilokar stera, hormón og lyfjanotkun í kjötframleiðslu. Í fréttinni kemur einnig fram að Læknasamtök Kanada (Canadian Medical Association), hafa skorað á yfirvöld að stöðva notkun fúkkalyfja í landbúnaði nema einungis til að lækna dýr af sýkingum. Samtökin vara einnig við hormónanotkun í dýrum þrátt fyrir misvísandi upplýsingar um hvort neysla afurða af slíkum dýrum geti haft krabbameinsvaldandi áhrif á fólk.

60 þúsund Bandaríkjamenn deyja árlega vegna fúkkalyfjaónæmis

Bandarísku samtökin Læknar fyrir samfélagslega ábyrgð berjast fyrir velferð manna og dýra og gegn óhóflegri lyfjanotkun við matvælaframleiðslu. Þessi samtök hlutu friðarverðlaun Nobels árið 1985. Á vefsíðu samtakanna er greint frá tölum lyfjaeftirlits Bandaríkjanna (Center for Disease Control and Prevention – CDC). Eftirlitið áætlar að 60 þúsund bandaríkjamenn deyi árlega vegna áunnins ónæmis fyrir fúkkalyfjum. Er það talið stafa af óhóflegri inntöku fúkkalyfja sem rekja má til mikillar notkunar þeirra í landbúnaði.

Um 80% fúkkalyfjanna talin fara til landbúnaðar

Samtökin telja að um 80% af allri fúkkalyfjanotkun í Bandaríkjunum megi rekja beint til notkunar í landbúnaði. Þar sem fúkkalyfjum beitt sem vaxtarhvetjandi efni þar sem þau koma í veg fyrir að dýrin veikist á vaxtatímanum.

Þá benda samtökin líka á að á árinu 2008 hafi Fæðu- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) samþykkt að leyfa sölu á mjólk úr klónuðum dýrum, þrátt fyrir áhyggjur vísindamanna innan eftirlitsins.

Vísindamenn Cornell-háskóla vara við krabbameinshættunni

Cornell-háskóli hefur margsinnis bent á hættu á krabbameini vegna notkunar stera og annarra lyfja í matvælaframleiðslu. Var starfrækt vinnustofa á vegum skólans, svokallað BCERF-verkefni, um málið sem lauk í mars 2010. Þar kemur fram að menn hafi uppgötvað það um 1930 að kýr sem sprautaðar voru með nautahormónum framleiddu meiri mjólk en aðrar.

Byrjað að leyfa vaxtarhvetjandi hormón í kjötframleiðslu upp úr 1950

Á vefsíðu bandaríska heilbrigðis­ráðuneytisins (U.S. Department of Health & Human Service) má m.a. finna eftirfarandi upplýsingar í lauslegri þýðingu:

„Upp úr 1950 gaf Fæðu- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (Food and Drug Administration – FDA) út leyfi til notkunar á fjölmörgum sterahormónum til nota við eldi nautgripa og sauðfjár. Þar á meðal var náttúrulegt kvenhormón (estrógen), progestrogen, karlhormón eða testosterone, og ýmsar efnafræðilegar útgáfur af þessum hormónum. Þessi lyf auka vaxtarhraða í dýrum, með því að auka virkni þess hvernig þau umbreyta fæðunni sem þau neyta í kjöt.“

Þá segir að FDA hafi heimilað notkun þessara lyfja eftir viðamiklar rannsóknir sem sýndu að afurðir sem fólk neytti af þessum dýrum sköðuðu ekki þá sem neyttu þeirra. Einnig að lyfin sköðuðu ekki dýrin sem fengju lyfin og sköðuðu heldur ekki umhverfið. Þarna er líka tekið skýrt fram að FDA gaf sjálft út viðmiðunarreglurnar sem farið hefur verið eftir og segja hvað séu hættulaus mörk fyrir neyslu almennings á kjöti sem innihalda lyf sem FDA hefur samþykkt. Síðan fylgir FDA málinu eftir með því að hafa sjálft eftirlit með eigin reglum og gefur út viðeigandi vottorð um að kjötið sé í lagi. Dýralæknir hjá íslensku eftirlitsstofnuninni MAST lýsir því síðan fjálglega í Fréttablaðinu á þriðjudag hvað matvælaeftirlitið í Bandaríkjunum sé gott.

Þessar heimildir FDA til lyfjanotkunar hafa, einkum á síðari árum, verið harðlega gagnrýndar á þeim forsendum að þeim hafi verið komið í gegn fyrir mikinn þrýsting fjárhagslegra sterkra hagsmunaaðila í lyfjageiranum. Þykir mörgum því furðu sæta að FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna styðji við bakið á FDA varðandi leyfisveitingar.

Um 30% bandarískra mjólkurkúa fá hormón

Miklar framfarir hafa orðið í framleiðslu stera í stórum stíl og voru stigin þar stór skref á níunda áratug síðustu aldar. Árið 1993 heimilaði FDA notkun hormóns (bovine growth hormone – rbGH), til að auka mjólkurframleiðslu í kúm. Samkvæmt gögnum Cornell-háskóla er talið að um 30% af mjólkurkúa í Bandaríkjunum séu meðhöndlaðar með hormónagjöfum.

Dr. Terry Etherton er sérfræðingur í næringarfræði dýra og yfirmaður vísindadeildar um mjólk og dýr hjá Landbúnaðarháskóla Pennsylvaníu. Hann er stuðningsmaður FDA og telur að hlutfallið við mjólkurframleiðslu sé nokkuð lægra eða um 20%. Segir hann að kýr sem fái hormónagjafir framleiði um 10-15% meiri mjólk en kýr sem ekki fá hormónagjafir. Fullyrðir hann líka að umræðan um krabbameinsáhættu af neyslu hormóna sé orðum aukin.

Fjölmargir vísindamenn, lyfjafræðingar, dýralæknar, aðrir læknar, manneldisfræðingar og fleiri hafa samt stigið fram á undanförnum árum og varað mjög við neyslu á lyfjamenguðum matvælum. Meira að segja Evrópusambandi hefur gert slíkt hið sama þó stöðugt berist þaðan upplýsingar um að reglurnar séu sniðgengnar í gegnum svartan markað með lyf. Þetta hefur líka komið fram á ráðstefnum sem haldnar hafa verið m.a. á Íslandi á undanförnum árum. Þar hafa íslenskir læknar og sérfræðingar varað við innflutning á hráu kjöti, ekki síst vegna óhóflegrar fúkkalyfjanotkunar við framleiðsluna sem er að verða að stórkostlegu heilbrigðisvandamáli víða um heim og aðvaranirnar koma úr mörgum áttum.

70% af ölum fúkkalyfjum í Bandaríkjunum fara í dýraeldi

Dr. Michael Wayne, sérfræðingur í kínverskri lyfjafræði og frumkvöðull á sínu sviði með yfir aldrafjórungs klíníska reynslu í heilsugæslu, gagnrýnir lyfjanotkun við kjötframleiðslu harðlega og ræðir um óhóflega notkun fúkkalyfja. Hann hefur ritað fjölda greina í vísindarit og gaf m.a. út bókina Quantum-Integral Medicine: Towards a New Science of Healing and Human Potential árið 2005. Í grein sem hann ritaði 2009 undir yfirskriftinni; The meat you eat: Steroid use in livestock, segir hann m.a.:

„Þar með er þó aðeins hálf sagan sögð varðandi lyfjanotkun við dýraeldi því fúkkalyf eru ekki einu lyfin sem gefin eru til að auka vaxtarhraða í dýrum,“ segir Wayne og er ekki að skafa utan af hlutunum.

Um 99% nautgripa í Banda­ríkjunum talin vera á sterum

„Á hverju ári rækta bandarískir bændur um 36 milljónir nautgripa. Um 99% af öllum nautgripum sem ræktaðir eru til kjötframleiðslu í Bandaríkjunum eru gefin hormón (sterar) til að framkalla hraðari vöxt. Stór hluti af kjúklingum og svínum eru einnig gefin þessi lyf,“ fullyrðir Wayne. Þessar tölur hafa reyndar verið víðar til umfjöllunar eins og á vefsíðum ASPCA, PETA og USC háskóla í Suður-Kaliforníu.

„Mörgum nautgripum er síðan einnig gefið vöðvabyggingarlyf, venjulega testósterón eins og sumir íþróttamenn nota. Önnur dýr fá estrógen kvenhormón eða prógestín sem stoppar æxlunarferlið. Prógestín nýtir þannig orkuuppsprettu í líkama dýranna til kjötframleiðslu sem annars hefðu farið í að ala afkvæmi,“ segir Wayne.

„Á sama tíma og opinberir aðilar banna fólki að nota flestar gerðir af sterum, er heimilað að gefa þessi sömu lyf til framleiðslu á nautakjöti. Það þýðir að í hvert sinn sem þú borðar slíkt nautakjöt, kjúkling eða svínakjöt og drekkur mjólk, þá ertu að innbyrgða lyf sem þér hefur ekki verið ráðlagt að taka inn.“

Inntaka hormóna getur haft alvarlegar afleiðingar

„Að innbyrgða aukalega hormóna truflar náttúrulegt jafnvægi líkamans. Við að neyta afurða af dýrum sem eru uppfull af hormónum getur haft alvarlegar afleiðingar, bæði fyrir börn og fullorðna.“

Dr. Wayne heldur áfram og vitnar í frétt í The Los Angeles Times sem segir:

„Magn estradíóls í tveim hamborgurum sem borðaðir eru á einum degi af átta ára barni getur hækkað heildarhormóna­hlutfallið um allt að 10% og orsakað mjög lágt náttúrulegt hormónahlutfall.“ Þá vitnar Wayne í krabbameinsvarnarsamtök í Bandaríkjunum sem vari foreldra við því að jafnvel lítið af dýraafurðum innihaldi nóg af hormónum til að skaða börnin.

Aldrei hættulaust

„Engin neysla á hormónum er hættulaus. Kjötbiti sem er aðeins eins og smápeningur (dime) að stærð inniheldur milljarða af hormónamólikúlum. Þegar barn borðar nautakjöt sem meðhöndlað hefur verið með hormónum, getur aukning hormóna haft truflandi áhrif á þróun heila og kynfæra.“

Varla lýgur Evrópusambandið

Wayne vísar meira að segja til skýrslu Evrópusambandsins sem varla er dregin í efa á Íslandi. Skýrslan er um áhrif af notkun hormóna við kjötframleiðslu. Þar segir:

Sum líffæri eru viðkvæmari fyrir áhrifum af estrógeni, andrógeni og anti-andrógeni [allt hormón sem notuð eru við eldi nautgripa til kjötframleiðslu] á uppvaxtarferlinu en önnur. Þessi líffæri eru meðal annars heili og kynfæri.“

Bendir Wayne á að kynþroski stúlkna á Vestur­löndum færist æ neðar. Nærri helmingur bandarískra stúlkna af afrískum uppruna og um 15% hvítra stúlkna verði nú kynþroska um átta ára aldur. Þá bendir Wayne á að Evrópusambandið hafi bannað notkun vaxtarhormóna við kjötframleiðslu árið 1988 af fyrrnefndum ástæðum. Alvarlegt tilfelli hafi komið upp í Púertó Ríkó snemma á níunda áratugnum þar sem þúsundir barna upplifðu ótímabæran kynþroska á kvalafullan hátt. Segir hann að orsökin hafi verið rakin til neyslu á hormónamenguðu nautkjöti. Þá segir hann að samt haldi lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) áfram að leyfa þessi lyf í nautgriparækt þó að sama lyfjaeftirlit banni lyfjaverslunum að selja venjulegu fólki slík lyf til eigi notkunar. Ekki sé þó bara hægt að einblína á að fólk fái lyfin í gegnum kjötið sem það innbyrðir, því þau fljóti einnig í gegnum meltingarveg dýranna og fari þaðan út í umhverfið og geti hæglega endað í drykkjarvatni.

5 myndir:

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...