Húðdropar frá Sif Cosmetics fá snyrtivöruverðlaun
Íslensku EGF Húðdroparnir TM frá Sif Cosmetics hlutu nýverið virt snyrtivöruverðlaun í flokki lúxus-snyrtivara.
Sif Cosmetics er dótturfyrirtæki ORF Líftækni sem hóf árið 2006 framleiðslu á svokölluðum vaxtarþáttum, sérvirkum próteinum, sem fyrirtækið ræktar í byggplöntum í hátæknigróðurhúsi í Grindavík. Vaxtarþættirnir eru seldir til háskólasjúkrahúsa, lyfjafyrirtækja og rannsóknarstofa og notaðir í stofnfrumurannsóknir og frumuræktun. Þeir fara einnig í snyrtivörur Sif Cosmetics sem stofnað var árið 2009.
Verðlaunin eru veitt af Twój Styl sem er eitt vinsælasta glanstímarit Póllands og voru afhent á glæsilegum gala-kvöldverði á Hilton-hóteli í Varsjá fyrir skömmu.
Verðlaunin hafa verið veitt árlega í tuttugu ár til alþjóðlegra og pólskra vörumerkja og húðvara sem þykja skara fram úr á hverjum tíma. Aðrir verðlaunahafar þetta árið voru Lancome, Clarins, La Mer, Estee Lauder, Tom Ford, L`Oreal Paris, Vichy og Issey Miyake.
Húðvörurnar frá Sif Cosmetics eru seldar undir vörumerkinu BIOEFFECT á erlendum markaði. BIOEFFECT hefur á skömmum tíma tryggt sér sess sem eitt þekktasta íslenska vörumerkið á alþjóðlegum neytendamarkaði. BIOEFFECT vörurnar eru nú seldar í yfir 700 stórverslunum, snyrtivöruverslunum, læknastofum, heilsulindum og flugfélögum í 25 löndum.