Huga þarf að möguleikum viðurkenningar kjúklinga- og svínaeldis á forsendum dýravelferðar
Í síðasta Bændablaði var þeirri spurningu varpað fram, hvers vegna ekki væri lífrænt vottað kjúklingaeldi á Íslandi. Rætt var við dr. Ólaf R. Dýrmundsson, ráðunaut Bændasamtaka Ísland í lífrænni ræktun, um málið og kom fram í máli hans að margt væri óljóst um forsendur og skilyrði slíks eldis hér á landi. Til dæmis hafi það ekki legið fyrir hvaða skilyrði um aðbúnað og húsakost Vottunarstofan Tún gerði og ekki lægi ljóst fyrir hvort innleiða þyrfti nýjan kjúklingastofn til slíks eldis. Ólafur segir að hann hafi orðið var við nokkurn áhuga á slíku eldi en flestum þykir það of stórt skref í fyrsta áfanga. Hann telur að íhuga þurfi líka möguleikann á einhvers konar millistigi, þar sem ekki yrði um formlega lífræna vottun að ræða, heldur yrði viðurkenningin á forsendum dýravelferðar.
„Ég hef kannað stöðuna á lífrænt vottuðum búum í nágrannalöndum okkar, sérstaklega í Danmörk og Svíþjóð. Í Danmörku eru nokkur slík bú og er dálítil sala þaðan hingað til lands eins og komið hefur fram. Danir nota kjúklingastofninn JA 757 frá Hubbard fyrirtækinu og njóta ungarnir útivistar frá þriggja til fjögurra vikna aldri — allt til slátrunar. Svipað er í Svíþjóð, en þar eftirspurn miklu meiri en framboð enda aðeins eitt vottað kjúklingabú, Bosarp (www.bosarpkyckling.se). Notaður er sami stofn og í hefðbundnu eldi en fóðrun mun vera með öðrum hætti og eldistíminn lengri. Útivist nær allt æviskeiðið og þannig yrði það líka hér á landi. Vottunarstofan Tún er með nánari útfærslu á reglunum í vinnslu,“ segir Ólafur.
Skýr stefnumörkun frá Búnaðarþingi 2014
Að sögn Ólafs gaf Búnaðarþing 2014 mjög skýra og stefnumarkandi línu um að efla beri framleiðslu á lífrænum landbúnaðarvörum og nýta þau tækifæri sem eru til staðar í framleiðslu og sölu á lífrænum landbúnaðarvörum. „Bændasamtök Íslands (BÍ) munu eflaust reyna að framfylgja þessu eftir fremsta mengi. Þannig eru bændur í öllum búgreinum hvattir til að meta og nýta þau tækifæri sem gefast til að auka framleiðsluna. Formaður stjórnar BÍ hefur m.a. lagt áherslu á þennan vaxtarbrodd í viðtölum í fjölmiðlum, þar með framleiðslu íslensks kjúklingakjöts með lífræna vottun — í stað þess að flytja það inn. Sem ráðunautur BÍ í lífrænum búskap finnst mér þessi stefnumótun BÍ mjög örvandi og sé þarna tækifæri til að komið sé í æ ríkari mæli til móts við þann vaxandi hóp neytenda sem leggur áherslu á velferð búfjár,umhverfisvænar ræktunaraðferðir og alhliða gæði afurða, en allt þetta er reynt að sameina undir merkjum lífrænnar framleiðslu.
Nú er brýnt að auk BÍ taki allar aðrar stofnanir og fyrirtæki landbúnaðarins þessi mál fastari tökum. Reyndar hefur hin nýja leiðbeiningaþjónusta,Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), nú þegar lýst sig reiðubúna til að sinna lífræna geiranum í vaxandi máli.“
Vistvænt kjúklingaeldi í Kópavogi næstkomandi sumar
Fyrir skömmu var greint frá því í fjölmiðlum að verið væri að undirbúa kjúklingaeldi með svo kölluðum vistvænum hætti á Gunnarshólma í Kópavogi, skammt austan borgarmarkanna norðan við Suðurlandsveg. Rýmra verður á þeim fuglum en í hefðbundnu eldi og fóðrun nokkuð frábrugðin, auk þess sem fuglarnir muni njóta útivistar. Þarna yrði því lögð áhersla á sjónarmið dýravelferðar og hefur þessi nýbreytni vakið mjög jákvæð viðbrögð meðal neytenda þótt gert sé ráð fyrir hærra söluverði kjötsins. Ólafur segir að enn sé óljóst hvernig þessar afurðir verða vottaðar en ljóst sé að ekki yrði um lífræna vottun að ræða. Tækifæri skapast þó á slíku búi að fara þá leið.
„Á árunum 2007-2012 var ég formaður Dýraverndarsambands Íslands (DÍS) og þrjú af þeim árum var ég í forsæti Dýravelferðarsambands Norðurlanda. Á þeim árum var verið að kynna áform Dýraverndarsambands Danmerkur (Dyrenes Beskyttelse) um að veita tilteknum búum viðurkenningu eða vottun vegna fyrirmyndar meðferðar á búfé, hvort sem þau væru með lífræna viðurkenningu eða ekki. Okkur fulltrúunum, sem sátu Norðurlandafundinn í Kaupmannahöfn sumarið 2011, var boðið að skoða eitt þessara búa, svínabú á sunnanverðu Sjálandi þar sem mjög áhugavert tilraunaverkefni var í gangi. Nú eru þessi viðurkenndu dýravelferðarbú orðin 11 að tölu í ýmsum búgreinum, afurðirnar eru upprunamerktar og neytendahópurinn fer stækkandi.“
Viðurkenning á forsendum dýravelferðar
„Því má hugleiða hvort bú, líkt og væntanlegt kjúklingabú á Gunnarshólma, gæti fengið viðurkenningu á grundvelli velferðar fuglanna sem reikna má með að nokkur hópur neytenda kunni að meta. Þarna geta skapast sterk tengsl á milli framleiðenda og neytenda, jafnvel sala afurða beint frá býli líkt og gert er á sumum dönsku búunum en síðar gætu býlin uppfyllt allar kröfur lífrænnar framleiðslu og fengið að auki lífræna vottun. Þarna sýnist mér vera á ferðinni verkefni sem DÍS ætti að taka til athugunar. Sem sagt, í stað þess að stunda aðeins hefðbundna gagnrýni á þéttbæra búskaparhætti, og þar með verksmiðjubúskap, fari DÍS með jákvæðum og markvissum hætti að veita þeim bændum viðurkenningu sem vilja uppfylla ýmis skilyrði dýraverndarsambandsins um bætta dýravelferð í tengslum við framleiðsluna og þá neytendur sem hana vilja kaupa. Á þessu ári verður DÍS 100 ára og mér þætti það verðugt verkefni að koma á slíku viðurkenningarkerfi á afmælisárinu,“ segir Ólafur.
Þess má geta að fyrirhugað er námskeið þann 15. apríl næstkomandi um fyrstu skrefin í aðlögun að lífrænum búskap og er námskeiðið auglýst hér í Bændablaðinu. Þar verður meðal annars vikið að reglum um lífrænt kjúklingaeldi.