Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Hundar - Bestu vinir mannanna
Á faglegum nótum 7. nóvember 2016

Hundar - Bestu vinir mannanna

Höfundur: Vilmundur Hansen

Sagt hefur verið um hunda að þeir séu bestu vinnir mannanna og í mörgum tilfellum er það eflaust satt. Hundar geta verið afskaplega hændir að mönnum og flestum hundaeigendum þykir afskaplega vænt um hundana sína. Hundakjöt þykir lostæti víða í Asíu.

Hundar eru afkomendur úlfa og ættingjar sjakala og sléttuúlfa sem hafa þróast með hjálp manna í fjölda ólíkra ræktunarkynja. Þrátt fyrir útlits- og skapgerðarmun ólíkra hundaræktunarkynja eru þau líffæra- og lífeðlisfræðilega svipaðir, bara misstór.

Ómögulegt er að gefa nákvæma tölu yfir fjölda hunda í heiminum en áætlanir gera ráð fyrir að þeir séu tæplega 600 milljónir. Í Bandaríkjunum eru heimilishundar taldir vera rúmlega 70 milljón. Tæplega 50 milljón í Evrópu og þar er hundahald mest í Frakklandi, Ítalíu, Póllandi, Bretlandseyjum og Úkraínu, allt frá níu milljón niður í 5,1 milljón rakkar í hverju landi. Tölur frá Suður-Ameríku eru strjálar en svo virðist sem Brasilíumenn haldi um 30 milljón hunda, Argentínubúar sjö milljón og Kólumbíumenn rúma fimm milljón.

Engin tölfræði er til yfir fjölda hunda í Kína og Indlandi, Japanir eru aftur á móti nákvæmari og þar teljast heimilishundar vera rétt undir tíu milljón.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur í baráttu sinni við hundaæði áætlað að í Afríku finnist yfir 150 milljón hundar og að ríflega helmingur þeirra sé villtur.

Samkvæmt upplýsingum frá Hundaræktarfélagi Íslands er áætlað að hundar á Íslandi árið 2015 hafi verið um 17.000.

Fyrsta húsdýrið

Tamdir hundar, Canis lupus familiaris, eru bæði haldnir sem gælu- og vinnudýr. Hundar eru ferfætt spendýr í ættbálki rándýra, af hundaætt og ættkvísl hunda. Þrátt fyrir að skilgreining á hundakynjum sé á reiki eru rúmlega 800 slíkar viðurkenndar af hundaræktarfélögum víða um heim. Þar á meðal eru kyn eins og border collier, dobermann, bolabítur, rottweiler, íslenski fjárhundurinn og silki terrier.

Líffræðilega eru öll hundakyn það skyld að þau geta átt saman afkvæmi þrátt fyrir að mismunandi stærð ólíkra kynja komi tæknilega í veg fyrir slíkt. Auk hreinræktaðra hundakynja er því til fjöldi blendinga sem tilheyra ekki ákveðnu hundakyni.

Ekki er vitað hvar eða hvenær samband manna og hunda hófst en það var í grárri forneskju og hundar fyrsta húsdýrið sem laðast að mannfólki og löngu áður en menn fóru að stunda landbúnað. Þrátt fyrir að hundar hafi fylgt manninum frá ómunatíð er ómögulegt að segja nákvæmlega hvenær þeir voru tamdir en fornminjar benda til að það hafi verið fyrir um tólf þúsund árum og að það hafi gerst á mörgum stöðum á svipuðum tíma.

Líffræðilegir forverar hunda komu fram á sjónarsviðið fyrir um 35 milljón árum en tegundin C. lupus sem slík fyrir um það bil 500 þúsund árum. Elstu leifar C. lupus eru tvær hauskúpur sem fundust í Rússlandi og kjálkabein í Þýskalandi af stórum hundum sem eru talin vera 13 til 17 þúsund ára gömul. Leifar smærri hunda sem taldar eru vera um 12 þúsund ára gamlar hafa fundist í hellum í Mið-Austurlöndum.

Fjórtán þúsund ára hellaristur í Norður-Afríku gefa til kynna hundahald og níu þúsund ára hellamyndir frá Alsír sýna menn og hunda saman við veiðar.

Talið er að hundar hafi fylgt eða dregið menn yfir landbrú Beringssunds sem sleðahundar og borist til Norður-Ameríku fyrir um 12 þúsund árum og voru hundar einu húsdýr indíána í margar aldir.

Á miðöldum voru hundar stöðu­tákn í Evrópu og í Svaerborg í Danmörku er miðaldahundagraf­reitur sem bendir til að þar hafi hundar notið meiri virðingar en aðrar skepnur.

Hundar í goðsögnum

Í Gilgamesharkviðu, sem var ort í Mesapótamíu um 2000 árum fyrir Kristsburð, er sagt frá súmversku stríðs- og ástargyðjunni Innana, eða Ishtar, sem fer allra sinna ferða í fylgd með sjö veiðihundum. Í hindúasið eru hundar sagðir í ættartengslum við guðinn Vishnú.

Egyptar til forna höfðu mikið dálæti á hundum og guðinn Anubis, sem leiddi menn til dóms hjá Ósíris eftir andlátið, var með hundshaus. Heimilishundar voru grafnir með mikilli athöfn og hefði fjölskyldan ráð á að láta gera úr þeim múmíu þótti slíkt sjálfsagt.

Í grískri goðafræði segir frá hundinum Serberus sem hefur þrjú höfuð og gætir inngangsins að undirheimum auk þess sem gríska veiðigyðjan Artemis átti hund. Samkvæmt Ódysseifskviðu varð það einungis hundurinn Argos sem fagnaði heimkomu húsbónda síns, Hómer, eftir tuttugu ára fjarveru.

Hundurinn er eitt af tólf dýrum í kínverska dýrahringnum. Þeir sem fæddir eru á ári hundsins eru sagðir velviljaðir og hjálpsamir en geta líka verið fýldir og þrætugjarnir. Í trú Maja og Asteka í Suður-Ameríku fylgdu hundar framliðnum til handan heima.

Í Orðskviðum Biblíunnar er sagt að eins og hundur sem snýr aftur til spýju sinnar, svo er heimskingi sem endurtekur fíflsku sína. Í norrænni goðafræði segir að hundurinn Garmur, sem gætir hliðs Helheima,  losni í aðdraganda ragnaraka og berjist við Tý með þeim afleiðingum að báðir falla.

Ásýnd, skynjun og ævilengd

Mismunandi ræktunarkyn, afbrigði og blendingahunda eru til í ólíkum stærðum, litum og litaafbrigðum auk þess sem þeir eru ólíkir að skapgerð. Allir hundar eiga það sameiginlegt að vera rándýr og með sterkar tennur og kjálkavöðva.

Chihuahua eru með allra minnstu hundum, 15 til 23 sentímetrar á herðakamb og eitt til sex kíló að þyngd. Stóri Dani er aftur á móti tæpur metri að hæð á herðakamb og allt að 90 kíló að þyngd. Fullvaxnir Sankti Bernharðshundar geta náð góðum 130 kílóum að þyngd.

Sjón hunda er góð en þeir sjá ekki mun á rauðum og grænum lit sem jafngildir litblindu. Sjónsvið hunda með langt trýni er víðara en hunda með flatt trýni og mesta sjónsvið þeirra allt að 270 gráður. Heyrnin er góð og heyra hundar hljóðbylgjur sem eru bæði hærri og lægri en menn greina og þar sem eyrun eru hreyfanleg greina þeir auðveldlega úr hvað átt hljóð berast. Lyktarskyn hunda er yfirburðagott og og hundar iðulega þjálfaðir til að rekja slóð og til leita. Hundar eru ómetanlegir þegar kemur að björgun fólks úr rústum og snjóflóðum og til að þefa upp sprengiefni.

Greind hunda er misjöfn eftir kynjum og einstaklingum og stundum metin eftir aðlögunarhæfni, það er hæfileikanum til þess að læra að leysa þrautir, eðlislæga greind og vinnugreind eða hlýðni. Hundar af mikið framræktuðum hundakynjum gelta meira en hundar af minna framræktuðum kynjum.

Hundar verða yfirleitt kynþroska 6 til 12 mánaða, slíkt getur þó dregist fram á annað ár hjá stórgerðari hundakynjum. Meðganga tíka er á bilinu 56 til 72 dagar. Að jafnaði fæðast sex hvolpar í hverju goti.

Hundar af smærri hundakynjum eiga yfirleitt færri hvolpa, einn til fjóra, en stærri afbrigði geta átt allt að tólf hvolpa í goti.

Ævilengd hunda er mismunandi  milli kynja og hafa smávaxnari afbrigði tilhneigingu til þess að ná hærri aldri en þau sem eru stórvaxnari. Chihuahua-hundar verða allt að 17 ára en Stóri Dani verður sjaldan eldri en tíu ára. Meðalaldur hunda er tólf ár.

Frægir hundar

Hundar koma víða við í bókmenntum og kvikmyndum. Má þar nefna Banga í Meistaranum og Margaríta, Tobba, hundinn hans Tinna, Tótó í Galdrakarlinum frá Oz, Sankti Bernharðshundinn í bókinni Gujo eftir Stehen King, Plútó, hundinn hans Mikka mús, Snoopy í Smáfólkinu, Brian Griffin í Family Guy, Rin Tin Tin, Lassie, Benji og að ógleymdu fyrsta spendýrinu sem fór út í geiminn, rússnesku tíkinni Laiku.

Í leikritinu Hinrik V eftir William Shakespeare er minnst á íslenska hundinn og segir: „Pish for thee, Iceland dog! thou prick-ear'd cur of Iceland!“ sem í þýðingu Helga Hálfdanarsonar útleggst: „Svei þér! þú, Íslands eyrnasperrti hundur!“

Misjafn er smekkur þjóða

Oft er hneykslast, fussað og sveiast yfir því að í Kína og víða í Asíu séu hundar hluti af matseðlinum. Slíkt  át er einnig þekkt í Afríku, Eyjaálfunni, Sviss og norðurhéruðum Ítalíu.

Samkvæmt flökkusögn fór par með kjölturakka á austurlenskan matsölustað erlendis þar sem þjóninn skildi takmarkaða ensku. Eftir að hafa skoðað matseðilinn, ákveðið hvað þau ætluðu að borða og pantað kjötrétt, benti parið á hundinn og gaf í skyn með handahreyfingum að þau vildu fá eitthvað fyrir hundinn líka. Þjónninn virtist skilja hvað parið vildi, brosti og kinkaði vinalega kolli. Því næst tók hann hundinn með sér fram í eldhús þar sem parið taldi að seppi fengi að borða. Eftir nokkra bið kom maturinn sem parið borðaði með bestu lyst og að máltíðinni lokinni litaðist það um eftir hvutta. Að endingu spurðu þau vinalega þjóninn um hundinn. Þjónninn varð allur hinn vandræðalegasti og sýndi með því að banka fingrunum á munninn að hundurinn hafi verið undirstaðan í aðalrétti kvöldsins.

Í íslenskum Annálum kemur fram að fólk hefur lagt sér hunda til munns í harðærum.  „… var þar etið allt, hvað tönn á festi, svo sem skinn, skóbætur og jafnvel hunda af sumum.“ Einnig eru til í munnmælum sögur sem segja frá því að allt fram á síðustu öld hafi fátækt fólk og ekki síst ekkjur með mörg börn tekið sig saman með leynd og eldað hundakjöt ofan í börnin til að sefa sárasta hungrið.

Pottréttur a la snati

Blaðamaður Bændablaðsins smakkaði hundakjöt á ferðalagi um Kína fyrir nokkrum árum og þótti það ágætt.

Eftirfarandi uppskrift, fyrir fjóra, kemur frá Kóreu og getur á íslensku kallast pottréttur a la Snati.

Einn bolli hrísgrjón
1.000 til 1.200 grömm hundakjöt í smáum bitum
Einn eða tveir laukar, grófskornir
Ein teskeið kjötkraftur
Einn bolli vatn
Slatti af niðurskornum sveppum og papriku
Salt og pipar eftir smekk

Smyrjið eldfast mót með matarolíu og setjið hrísgrjónin í botninn og raðið hundakjötsbitunum ofan á. Sjóðið laukinn, kjötkraftinn, og sveppina í vatninu og hellið yfir kjötið og hrísgrjónin. Kryddið með salti og pipar að vild og setjið paprikuna ofan á.

Setjið lok á mótið og eldið við 170° á Celsíus í einn og hálfan til tvo tíma. Takið lokið af mótinu síðasta korter eldunartímans. Berist fram með ítölsku rauðvíni.

Hundar á Íslandi

Rannsóknir benda til að íslenski fjárhundurinn sé af norrænum uppruna og að hann hafi borist til landsins með landnámsmönnum. Íslenski fjárhundurinn er í meðallagi stór með upprétt eyru og hringað skott.

Rakkar eru um 46 sentímetrar á herðakamb en tíkur um 42. Litur og litaafbrigði eru fjölbreytileg og kallast hundar rauðgulstrúttóttir, dökkrauðgulir, grágulkolóttir, flekkóttir og mórauðir sem dæmi um litafjölbreytni íslenska fjárhundsins.

Í Njálu er getið um hundinn Sám sem Ólafi Pá var gefið á Írlandi og hann gaf síðan Gunnari á Hlíðarenda. Samkvæmt lýsingu mun Sámur hafa verið stór hundur og og eigi verri til fylgdar en röskur maður.

Í Íslandslýsingu sinni segir Oddur Einarsson biskup að fjórar gerðir af hundum finnist á landinu sem hann kallar bæjarhunda, fjárhunda, dekurhunda og veiðihunda. Hann segir veiðihunda notaða til refaveiða og að þeir séu mun stærri en aðrir hundar.

Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson nefna dýrhunda í ferðabók sinni og segja þá vera háfætta og snögghærða og notaða til refaveiða. Þeir segja einnig að íslenski fjárhundurinn sé minni og loðnari en veiðihundarnir. Leiddar hafa verið að því líkur að umræddir veiðihundar hafi borist hingað frá Írlandi og að þeir hafi dáið út í hungursneyð móðuharðindanna.

Ef marka má frásögn af sköpun hunda í Íslenzkum þjóðháttum Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili voru hundar skapaðir seinna en önnur dýr. Þar segir að á meðan frelsarinn lifði á jörðinni hafi hann einu sinni komið þar sem menn voru að reka fé. Féð var latrækt og gekk reksturinn bæði seint og illa. Tók frelsarinn þá upp grasvöndul og sneri milli handa sinna og úr varð hundur fjárrekunum til hjálpar. Sagt er að hundar hringi sig þegar þeir sofa vegna þess að lausnarinn sneri upp á grasvöndinn þegar hann skapaði hundinn.

Stofnsveiflur á íslenska hundakyninu hafa verið miklar í gegnum tíðina. Árið 1869 voru sett lög um hundahald og árið 1871 var settur hár hundaskattur. Skatturinn var settur á vegna þess að hundar hýstu egg bandorma sem olli sullaveiki í fólki og hafði sótt í sauðfé. Ástæða sullaveikismitsins var meðal annars sú að hundar voru stundum látnir sleikja matarleifar af matarílátum.

Eftir skattlagninguna fækkaði hundum mikið og um 1950 voru þeir komnir í útrýmingarhættu. Árið 1969 var Hundaræktarfélag Íslands stofnað, en eitt af markmiðum þess er að rækta og vernda íslenska fjárhundinn. Vinsældir íslenska fjárhundsins hafa aukist á undanförnum árum og í dag er tegundin ekki lengur talin í útrýmingarhættu.

Árlega eru um 160 hundar af mörgum kynjum fluttir til landsins víðs vegar að úr heiminum og hundafánan því fjölbreytileg. Skilyrði vegna innflutnings eru meðal annars bólusetningar og sýnatökur auk fjögurra vikna einangrunar. Hundar sem fluttir eru til landsins þurfa einnig að fara í gegnum skapgerðarmat til að koma í veg fyrir að árásargjarnir og hættulegir hundar séu fluttir inn.

Stundum er haft á orði um grimmlyndar konur að þær séu tíkur og um karlmenn sem eru staddir á slæmum stað í lífinu að þeir séu farnir í hundana.

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...