Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Hvalveiðar skaða lambakjötssölu
Fréttir 16. apríl 2014

Hvalveiðar skaða lambakjötssölu

Höfundur: Freyr Rögnvaldsson
Hvalveiðar Íslendinga ollu því að íslenskt lambakjöt var ekki auglýst í Whole Foods verslununum í Bandaríkjunum á síðasta ári. Fyrir vikið gengu markmið um söluaukningu frá árinu 2012 ekki eftir. Beita þurfti töluverðum fortölum til þess að koma í veg fyrir að verslanirnar kipptu ekki alfarið að sér höndunum hvað varðar sölu á íslensku lambakjöti.
 
Áætlanir um aukningu gengu ekki eftir
 
Þetta kom fram í erindi Ágústs Andréssonar formanns Landssamtaka sláturleyfishafa sem hann hélt við upphaf aðalfundar Landssamtaka sauðfjárbænda í byrjun mánaðarins. Árið 2012 seldu Whole Foods verslanirnar um 200 tonn af íslensku lambakjöti og hafði salan stigaukist ár frá ári. Áætlanir gerðu ráð fyrir að magnið myndi aukast upp í 250 tonn á síðasta ári en það gekk ekki eftir. Whole Foods kipptu að sér höndum varðandi auglýsingar á kjötinu eftir harða gagnrýni hvalfriðunarsinna á hvalveiðar Íslendinga. Það má því gera því skóna að hvalveiðar Íslendinga hafa skaðað viðskipti með lambakjöt á Bandaríkjamarkaði. Þrátt fyrir þetta hélst salan milli ára og um 200 tonn seldust á síðasta ári. 
 
Samið um að kjötið yrði áfram selt en ekki markaðssettt
 
Allt lambakjöt sem flutt er út til Whole Foods verslananna kemur frá Sláturhúsi KVH á Hvammstanga. Magnús Freyr Jónsson framkvæmdastjóri SKVH hefur sinnt samskiptum við fulltrúa Whole Foods síðustu ár en saga viðskipta íslenskra sláturleyfishafa við fyrirtækið hefur staðið í á annan áratug. 
„Þegar hvalveiðar hófust hér við land árið 2009 var gert samkomulag við Whole Foods um að þeir myndu halda áfram að selja íslenskt lambakjöt en þeir myndu ekki markaðssetja það. Einhverra hluta vegna varð það þó ekki raunin fyrr en í fyrrasumar. Þá kom þrýstingur á fyrirtækið um að hætta viðskiptum við okkur. Það gerðu þeir ekki en auglýstu hins vegar ekki vöruna,“ segir Magnús.
 
Það að sala á íslensku lambakjöti hafi haldist milli ára í Whole Foods verslununum þrátt fyrir að kjötið hafi ekki verið auglýst gefur til kynna að staða þess sé sterk úti í Bandaríkjunum, að því er Magnús segir.
„Já, hún er mjög sterk. Við höfðum ákveðnar væntingar varðandi sölu í fyrra, það hafði verið aukning í sölu í mörg ár í röð en nú brást það. Að kjötið væri ekki auglýst kom augljóslega í veg fyrir aukningu sem við höfðum vonast eftir.“ 
 
Kynna ekki íslenskar vörur valdi það fyrirtækinu tjóni
 
Von er á fulltrúum Whole Foods til fundar við sína birgja í næsta mánuði. Magnús segir að þetta mál verði til umræðu þá. „Það á eftir að koma í ljós hvað verður. Ef stemmingin úti í Bandaríkjunum er á þá leið að þetta geti valdið fyrirtækinu tjóni, ef hvalafriðunarsinnar láta í sér heyra, þá mun Whole Foods aldrei fara út í að vera áberandi sem kynningaraðili fyrir íslenskar vörur. Það er bara svoleiðis.“
Hvað varðar aðra möguleika á markaðssetningu á íslensku lambakjöti í Bandaríkjunum segir Magnús að menn séu alltaf að líta í kringum sig.
 
„Þetta samstarf hefur hins vegar gengið vel og gekk í sjálfu sér ekki illa í fyrra. Þau markmið sem við settum okkur náðust bara ekki. Það á svo bara eftir að koma í ljós hvaða afstöðu fyrirtækið tekur í haust. Fulltrúar þess eru alla vega að koma til landsins og það segir manni að þeir séu alla vega ekki að hætta að kaupa af okkur kjöt.“
Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...