Hyggjast stuðla að vinnslu á bandi úr mislitri ull af stuttrófufé
Höfundur: KS /HKr.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður og fulltrúi í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins, lagði fram tillögu um stuðningsyfirlýsingu við regnhlífarsamtökin Systur á ársfundi ráðsins í Qaqortoq á Suður-Grænlandi á dögunum.
Ráðið samþykkti tillöguna og mun hún verða til að greiða fyrir áformum Systra um að koma á fót smáspunaverksmiðjum til vinnslu á ull, einkum mislitri, í þeim löndum þar sem fé af norræna stuttrófukyninu er að finna. Íslenski fjárstofninn er af þessum uppruna og einnig fé í Færeyjum, á Grænlandi, í Noregi og á Gotlandi.
Regnhlífarsamtökin Systur hyggjast stuðla að vinnslu á bandi úr mislitu ullinni sem verði unnið í smáum spunaverksmiðjum.
Þessar ullarvinnslur verða smáar í sniðum hver og ein en með því að tengja starfsemi þeirra saman er unnt að mynda öflugan framleiðslu- og viðskiptagrundvöll og stuðla að vöruþróun.
Ullarbandið, sem framleitt verður á vegum Systra, verður hvorki blandað erlendri ull né gerviefnum og lögð verður áhersla á að láta hina sérstöku eiginleika ullarinnar njóta sín sem best.
Með réttri nýtingu ætti að vera unnt að gera verðmæta vöru úr hráefni sem nú er vannýtt en til þess þarf verulegt þróunarstarf.
Stuðningur Vestnorræna ráðsins við fyrirætlanir Systra um ullarvinnslu er því mikilvægur.