Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
„Ég lít svo á að það sé frumburðarréttur hvers einasta samlanda míns að mega róa til fiskjar með handfærum, hefja þannig útgerð og afla sér lífsviðurværis.“
„Ég lít svo á að það sé frumburðarréttur hvers einasta samlanda míns að mega róa til fiskjar með handfærum, hefja þannig útgerð og afla sér lífsviðurværis.“
Mynd / VH
Í deiglunni 14. mars 2023

Auðlindin „okkar“

Höfundur: Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda.

Í lok maí 2022 skipaði matvælaráðherra fjölmennustu sveit frá upphafi kvótakerfisins (1984) til að ná sátt um sjávarútvegsmálin. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slík tilraun er gerð.

Arthur Bogason

Matvælaráðherra skipaði fimm hópa, þ.e. fjóra starfshópa og samráðsnefnd, samtals 46 einstaklinga. Í starfshópana fjóra sem bera nöfnin „Umgengni“, „Samfélag“, „Aðgengi“ og „Tækifæri“ var skipaður 21 einstaklingur og í „samráðsnefndina“ 30. Nokkrir úr starfshópunum eru einnig í samráðsnefndinni.

Aðdragandi þessa er sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf sitjandi ríkisstjórnar.

Þar segir á blaðsíðu 15 í sáttmálanum: „Viljum skapa sátt um nýtingu auðlinda“ og á blaðsíðu 54: „Nefndinni verði falið að bera saman stöðuna hér og erlendis og leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar.“

Ástæða þessara setninga í sáttmálanum er einföld; um kvótakerfið ríkir ekki „samfélagsleg sátt“, tæpum fjórum áratugum eftir að það var leitt í lög (til bráðabirgða, svo því sé haldið til haga).

Fyrir stuttu skiluðu starfshóparnir fjórir samtals 60 „bráðabirgðaniðurstöðum“. Einhverjum var falið að flokka þær, annars vegar til úrvinnslu og hins vegar til umræðu.

Ekkert samráð við samráðsnefndina

Í því sambandi var ekkert samráð haft við samráðsnefndina, svo sérkennilega sem það hljómar. Tilvist hennar og tilgangur missti á þeim tímapunkti stóran hluta þeirrar tiltrúar sem ég hafði á þessu tilstandi.

Samráðsnefndin hefur fundað nokkrum sinnum, en eftir því sem þeim hittingum fjölgar verður mér óljósara hvert er raunverulegt hlutverk hennar.

Það er athyglisvert að af þessum 60 tillögum flokkast 22 til umræðu en 38 til úrvinnslu. Hvernig ber mér að skilja þetta? Er okkur í samráðsnefndinni ætlað að hittast í huggulegu kaffispjalli yfir þessum 22 tillögum sem eftir eru til umræðu?

Fyrir síðasta fund (23. febrúar sl.) var okkur tilkynnt með tölvupósti að hver og einn hefði tvær mínútur til að tjá sig, hugsanlega tvisvar, ef vel viðraði. Ég upplifði í fyrsta skipti að vera gefinn kostur á að setja mig á mælendaskrá með beiðni í gegnum tölvupóst.

220 blaðsíðna bæklingur

Staðan í þessu vinnuferli er kölluð hálfleikur. Í tilefni tímamótanna var prentaður 220 blaðsíðna bæklingur í a5 broti, með hátt í 80 ljósmyndum, ótal fagurlega uppsettum gröfum og táknmyndum. Sem dæmi um smekkinn – eða smekkleysið, öllu heldur: á blaðsíðu 56, undir liðnum „rannsóknir á umhverfisspjöllum veiðarfæra“ töldu hönnuðir bæklingsins tilhlýðiegt að nota öngul sem táknmynd. Öngullinn er það veiðarfæri sem veldur minnstu raski í hafrýminu.

Hver skrifaði verkið, ritstýrði því eða hannaði kemur hvergi fram. Það er hins vegar augljóst að dagskipun þeirra sem þar komu að verki var rækilega meitluð í stein: að fegra aflamarkskerfið og smætta strandveiðar og hinn svokallaða „félagslega“ hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins (strand- veiðar, byggðakvótar o.fl.), sem er u.þ.b. 1/20 af aflaheimildum til botnfiskveiða.

Bæklingurinn endurspeglar að niðurstaða þessa tilstands var fyrirfram ákveðin. Hann endurspeglar jafnframt að erfiðu spurningarnar varðandi fiskveiðistjórnunarkerfið eru sniðgengnar. Þar skal engu hróflað.

Þetta sést best í tillögu nr. 17 í bæklingnum:

„Viðhalda aflamarkskerfinu“

Tillagan er til úrvinnslu, ekki umræðu. Hefur það farið framhjá einum einasta Íslendingi að aflamarkskerfið er rót ósættisins?

Á blaðsíðu 96 segir eftirfarandi um afla strandveiðibáta og gæsalappir settar utan um:

„Veiðist á vondum tíma, vont hráefni, oft mikill ormur og svona má lengi telja.“

Þeir sem ritstýrðu bæklingnum og hönnuðu, töldu greinilega nauðsynlegt að hafa þetta orðrétt eftir henni/honum sem þetta sagði. Þeir sáu hins vegar enga ástæðu til að vitna í ummæli þeirra sem kaupa afla strandveiðibáta til að fullnægja dýrustu ferskflakamörkuðum heims. Hvað þá að geta þess að stórútgerðin kaupir þennan afla í stórum stíl inn í sínar landvinnslur.

Bæklingurinn er grímulaus áróður fyrir óbreyttu ástandi –og gott betur: þarna er að finna tillögur um að slá strandveiðikerfið af og færa allar veiðiheimildir inn í aflamarkskerfið.

Ég hef átt samtöl við útgerðarmenn og skipstjóra stærri báta og skipa sem velkjast ekki í vafa um að strandveiðikerfið hefur minnkað ósættið um fiskveiðistjórnunarkerfið. Þeir eru sammála því að það þurfi „opinn glugga“ fyrir þá sem vilja koma undir sig fótunum í fiskveiðum og byrja smátt.

Ég lít svo á að það sé frumburðarréttur hvers einasta samlanda míns að mega róa til fiskjar með handfærum, hefja þannig útgerð og afla sér lífsviðurværis. Ég er ekki að fara fram á að einhverjum einstaklingum verði gefið sérstakt forskot á aðra með loftfimleikum á borð við þá sem boðið var upp á í upphafi kerfisins, eins og skipstjórakvótum.

Þeir sem óttast að miðin fyllist af bandóðum trillukörlum eru ekki í neinum tengslum við raunveruleikann. Þessi áróður var rekinn gegn strandveiðikerfinu þegar það var sett á laggirnar árið 2009, en rættist að sjálfsögðu aldrei.

Umgengni

Á fundi samráðsnefndarinnar hinn 23. febrúar sl. voru til umfjöllunar tillögur starfshópsins „Umgengni“.

Það er athyglisvert að skoða listann yfir þá sem sá hópur valdi til viðræðna.

Allt frá stofnári Landssambands smábátaeigenda (1985) hefur félagið, fyrst allra félagasamtaka í sjávarútvegi, krafist þess að umhverfisáhrif veiðarfæra verði rannsökuð. Þessi krafa LS vakti vægast sagt takmarkaða gleði stórútgerðarinnar á sínum tíma – og gerir enn.

„Umgengnis“ starfshópurinn tók þá ákvörðun að ekki tæki því að bjóða Landssambandi smábátaeigenda (LS) til viðræðna. Eru það skilaboð um að ábendingar félagsins um að það skipti máli hvernig er veitt séu ekki þess virði að ræða frekar?

Á þessum fundi „Auðlindarinnar okkar“ krafðist ég skýringa á óhróðrinum sem fram kemur í bæklingnum framangreinda um gæði afla strandveiðibáta.

Tvennt kom fram: annars vegar var vitnað til skýrslu frá árinu 2011 (tveimur árum eftir að strandveiðikerfið var sett á fót, 12 ára gömul skýrsla) og hins vegar að á hringferð um landið hefði starfshópurinn „heyrt“ hitt og þetta.

Samandregið: „Umgengnis- starfshópurinn“ fór í reisu hringinn í kringum landið, punktaði hjá sér þvælu á borð við framangreint, færði til bókar ásamt því að glugga í tólf ára gamla skýrslu. Hvergi er að finna tilmæli um bætta aflameðferð annarra fiskiskipa. Ég leyfi mér að fullyrða að starfshópurinn hafði ekki fyrir því að kíkja inn á fiskmarkaði landsins til að líta eigin augum muninn á t.d. ýsu úr togbátum/skipum annars vegar og línubátum hins vegar.

Eru þetta fagleg vinnubrögð? Stendur starfshópurinn stoltur eftir? Er þetta aðferðafræði sem vísindamenn vilja skilja eftir sem fordæmi til komandi kynslóða?

Á þessum sama fundi bað ég um skýringar á því hvers vegna hvergi væri minnst á greinina sem birtist í vísindatímaritinu Nature um kolefnisfótspor togveiða.

Í henni er fullyrt að botnrót trollveiðarfæra ylli jafn mikilli kolefnislosun og allt flug í heiminum. Svarið var að „þessi grein væri umdeild“. Ekkert að því, en væri þá ekki tilhlýðilegt að vísa í gögn þar um?

Og talandi um það sem er „umdeilt“. Er aflamarkskerfið ekki umdeilt (sem samkvæmt framangreindu ber að viðhalda)? Er ráðgjöf Hafró ekki umdeild?

Íslendingar stunda orðhengilshátt

Nóbelsskáldið, Halldór Laxness, orðaði það svo fyrir margt löngu að það hefði lengi loðað við Íslendinga að stunda orðhengilshátt og deila um tittlingaskít sem kæmi málinu ekki við, en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls.

Þessi lýsing Halldórs virðist eiga prýðilega við í þessu sambandi.

Svo undarlega sem það hljómar þá eru aðeins 12 tillögur af þessum 60 sem beinlínis fjalla um fiskveiðistjórnunarkerfið. Og þar af helmingurinn um 5,3% „félagslega“ hluta þess.

Starfshóparnir fjórir forðast stærstu og erfiðustu spurningarnar eins og heitan eldinn:

  1. Hver er árangur ráðgjafarstarfs Hafrannsóknastofnunar?
  2. Er þjóðarsátt um fiskveiðistjórnunarkerfið?

Þessar lykilspurningar er hvergi að finna, en sú mikilvægasta sem ég hefði haldið að ætti að svífa yfir vötnunum er þessi:

Er staðan í „hálfleik“ líkleg til að yfirlýsingin í ríkisstjórnarsáttmálanum (Viljum skapa sátt um nýtingu auðlinda) fái kjöt á beinin?

Skylt efni: Nytjar hafsins

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...