Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Er jörðin að farast?
Í deiglunni 17. janúar 2023

Er jörðin að farast?

Höfundur: Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda

Ég fer ekki varhluta af því að allt sé á heljarþröm á jörðu hér. Sem dyggur hlustandi Rásar 1 var verulega af mér dregið fyrir örfáum dögum eftir að hafa hlustað á hvert erindið af fætur öðru þar sem hörmulegri framtíð plánetunnar var lýst í smáatriðum.

Arthur Bogason,
formaður Landssambands smábátaeigenda

Allt okkur mönnunum og þar með mér að kenna. Hamfarahlýnun sé að valda því að jörðin eigi stutt eftir og útrýming dýrategunda í veldisvexti. Aldauði fram undan að óbreyttu. Þetta var drjúgur hluti jólaboðskapar ríkisfjölmiðilsins. Í barnaefninu er hamrað á því sama. Ekki einni einustu sekúndu varið í að geta annarra sjónarmiða, sem ég hélt (í barnaskap mínum) að væri aðalsmerki hlutlausrar fréttamennsku.

Dýra- og plöntutegundir á Íslandi

Þar sem ég bý á Íslandi finnst mér rökrétt að skoða hvaða dýra- og plöntutegundir hérlendis hafa horfið úr flórunni. Geirfuglinn er þar frægastur, dó drottni sínum um miðja 19. öld af mannavöldum.

Nokkrar fuglategundir eiga undir högg að sækja, án augljósra tengsla við landnám mannsins. Gróðurtegundum hefur sennilega fjölgað og hvað sem segja má um stofnstærðir einstakra tegunda sjávarlífvera (fiska sem annarra) þá hafa fleiri tegundir greinst og veiðst við landið undanfarin ár en áður.

Engu að síður dynja á manni fréttir um gríðarlega fækkun lífvera á jörðinni. Reyndar læðast inn á milli spurnir af því að áður óþekktar tegundir hafi fundist. Hvort þær séu færri eða fleiri en þær sem eru að glatast kemur hvergi fram.

Ég sakna þess að finna hvergi á hinu alvitra interneti lista yfir dýra- og plöntutegundir sem deyja út dag hvern annars vegar og nýuppgötvaðar tegundir/lífverur hins vegar.

Heimsendaspádómar

Ég er nógu gamall til að muna fullyrðingar – ekki spádóma – færustu vísindamanna um yfirvofandi ísöld, sem átti að dynja yfir af sömu ástæðu og færustu vísindamenn nútímans predika nú varðandi „hamfarahlýnun“, þ.e. vegna CO2 losunar mannsins.

Ég sakna þess að hafa hvergi séð útskýrt á mannamáli á hvaða tímapunkti vísindamenn áttuðu sig á því að aukið magn CO2 í andrúmsloftinu myndi leiða til hlýnunar en ekki kólnunar. Hlutfall þessarar ósýnilegu gastegundar, sem reyndar er nauðsynleg öllu lífi á jörðinni, hefur oft verið hærra í jarðsögunnni, löngu fyrir iðnbyltingu.

Heimsendaspádómum hefur verið haldið að okkur í þúsundir ára, jafnvel með nákvæmum dagsetningum. Ég væri varla að skrifa þetta ef ein einasta þeirra hefði ræst.

Forverar þeirra sem nú standa á torgum voru fulltrúar hins geistlega valds, sem halda reyndar boðskap sínum enn til streitu. Það er engu líkara en að í manninum búi genísk þrá eftir heimsendi og dómsdegi, helst í fyrramálið.

Stærsti ljóður mannsins er sóðaskapur

Hvað sem öllu líður er ég sammála því að maðurinn getur gengið mun betur um jörðina. Stærsti ljóður hans er sóðaskapur. Í gegnum tíðina hefur hann hent drasli þar sem hann stendur. Ég man mætavel eftir því að öskubakkinn í bílnum var losaður út um gluggann. Ég man eftir því að hafa hent troðfullum ruslapokum fyrir borð á togurum á landleið ásamt ónýtum netum, vírum og fleiru.

Og það er ekki lengra síðan en fyrir þremur árum að ég og fjölskyldan gerðum okkur ferð út á Langanes í októbermánuði í stórkostlega fallegri vetrarstillu. Við stöldruðum við á þremur stöðum við fjöruborð. Við trúðum varla eigin augum. Plastdrasl og rusl fyllti alla þessa þrjá viðkomustaði. Netadræsur og kúlur, fiskikassar og dragnótartóg, svo fátt eitt sé talið. Mér varð svo um að ég hafði mig ekki í að taka myndir.

Í áratugi hefur þetta rekið á fjörur, að langmestu leyti grafist í sandinn og þar með horfið um alla framtíð.

Ég vil trúa því að þetta sé að breytast til batnaðar hin síðari ár. En betur má ef duga skal.

Maltus og Rosling

Á 19. öld (fæddur á þeirri 18.) var uppi Thomas nokkur Malthus sem hélt því fram að þegar mannkynið næði því að verða 600 milljónir yrði jörðinni ofboðið. Enn þann dag í dag eru til samtök sem halda svipuðu fram. Sem þetta er ritað náði mannfjöldinn á jörðinni því að vera 8 þúsund milljónir og 10 milljónum betur. Þar sem ég er talnafíkill finnst mér viðeigandi að geta þess að samkvænt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna fæðast nú um 385 þúsund börn á hverjum sólarhring og um 185 þúsund hverfa yfir móðuna miklu. Dagleg fjölgun mannkyns er því um 200 þúsund. Í mannfæðinni á Íslandi eru þetta sjálfsagt ógnvekjandi tölur fyrir flesta.

1,3 milljörðum tonna af matvælum er fargað

Þeim sem telja mennina vera of marga vil ég benda á eftirfarandi: 1,3 milljörðum tonna af matvælum er fargað árlega.

Ég endurtek: eittþúsundogþrjú hundruðmilljónum tonnum af matvælum er fargað árlega!

Til að átta sig á þessari ótrúlegu tölu þá var heildarafli íslenska fiskiskipaflotans árið 2021 ein milljón og 160 þúsund tonn, innan við þúsundasti hluti þessarar tölu.

Samkvæmt FAO, Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, er árleg framleiðsla matvæla u.þ.b. 4 milljarðar tonna. Sóunin er því u.þ.b. þriðjungur af því sem framleitt er. FAO áætlar að u.þ.b. 828 milljónir manna séu um þessar mundir fórnarlömb hungurs og vannæringar, þ.e. rúmlega 10% mannfjöldans á jörðinni. Á sama tíma rær yfir 1 milljarður í eigin spiki, 13% mannfjöldans.

Væri gæðunum skipt réttlátlega hyrfi hungrið í heiminum þótt mannkyninu fjölgaði hressilega yfir 10 milljarða.

Ég hef ferðast vítt og breitt um heiminn, fyrst og fremst vegna þátttöku minnar í starfi Alþjóðasamtaka strandveiðimanna og fiskverkafólks (WFF). Eðli máls samkvæmt voru staðirnir og svæðin sem ég heimsótti að jafnaði fjarri ferðamannastöðum.

Á öllum þessum flækingi rakst ég ekki á einn einasta mann sem var augljóslega ofaukið.

En það hefur nú oft háð mér að vera ekki sérlega mannglöggur.

Að öðru, en náskyldu

Árið 2017 féll frá sænskur læknir og altmugligtman að nafni Hans Rosling. Ævistarf hans var stórmerkilegt en ég tíunda það ekki hér.

Hans Rosling setti saman þá mögnuðustu fyrirlestra með myndasýningum sem ég hef séð. Ég skora á lesendur að fletta honum upp, hvort heldur á TED talks eða Youtube.

Hans Rosling var einstakur fyrir þær sakir að hann byggði fyrirlestra sína alfarið á tölfræðilegum gögnum frá þeim alþjóðlegu stofnunum sem þjóðir og ráðamenn heims líta á sem áreiðanlegar.

Niðurstöður hans stangast heiftarlega á við daglegan fréttaflutning af offjölgun mannkynsins. Hans sýndi rækilega fram á að þessar áhyggjur eru óþarfar og hvers vegna.

Það besta sem hinar ríku þjóðir heims geta gert er að styðja þær fátæku til mennta. Afleiðingin er sú að barnsfæðingum fækkar, ævilengd eykst, tekjur aukast og þar með lífsgæði ásamt fjölmörgum öðrum jákvæðum afleiðum. Í örstuttri útgáfu: hann var að lýsa því hvernig íslenska þjóðin braust frá örbrigð til álna.

Hans sýndi fram á að mannkynið muni fjölga sér um sinn, ná upp undir 10 milljarða þakið en eftir það dragi úr. Það er hressandi fyrir sálartetrið að sjá þessa framsetningu Hans Rosling eftir að hafa hlustað á dómsdagsdagskrána sem bylur á okkur alla daga.

Þessa nálgun, að byggja á tölfræðilegum gögnum, leiðir að því sem ég vil enda þennan pistil á.

Hafið við Ísland og hitamælingar Hafró

Fjölmiðlar endurtaka í síbylju að hafið í kringum Ísland sé að hlýna.

Hafrannsóknastofnun fer tvisvar á ári í svokölluð togararöll. Aðalrallið (vorrallið) fer fram í endaðan febrúar og fram í mars en haustrallið í október.

Ég hef gagnrýnt þessa aðferðafræði til stofnmælinga, en eitt er mælt í þessum leiðöngrum sem engin ástæða er til að bera brigður á. Það eru hitamælingar sjávar á föstum sniðum hringinn í kringum landið. Fyrir stuttu gaf Hafró út skýrslu um framkvæmd og helstu niðurstöður úr haustralli 2022. Þar er að finna á bls. 31 mynd af hitamælingum leiðangursins. Myndin er uppfærð af sömu mynd sem birst hefur til margra ára úr vor- og haustleiðöngrum stofnunarinnar.

Ég tek mér það bessaleyfi að útbúa graf fyrir Norðvestur- og Norðaustursvæðin og með því feta í fótspor Hans Rosling og skoða eingöngu tölulegar staðreyndir.

Þróunin frá árinu 2003, samkvæmt hitamælingum í haust- ralli, er í flestum tilfellum sam- hljóma. Hafið í kringum Ísland hefur verið að kólna sl. 20 ár. Textinn sem fylgir myndinni í skýrslu Hafró eftir haustrallið 2022 er eftirfarandi:

Botnhiti

„Meðalhitastig sjávar við botn í haustralli hækkaði á flestum svæðum og dýpisbilum frá 1996 til 2010 (20. mynd).

Á árunum 2012‐2018 lækkaði meðalhiti sjávar við botn lítillega á landgrunninu (grynnra en 400 m) fyrir sunnan og vestan land. Síðustu ár sýnir meðalhitinn á landgrunninu (1‐200 m) fyrir vestan, norðvestan og norðaustan land áberandi lækkun eða um 1°C frá 2019. Á djúpslóð (>400 m) er breytileiki mikill fyrir sunnan og vestan land, en meðalhiti sjávar hefur haldist svipaður frá árinu 2012. Hins vegar má greina hækkun á meðalhita við botn í kalda sjónum fyrir norðvestan og norðaustan land frá því mælingar hófust árið 1996“.

Það verður Hafró að eiga að hún tekur varfærnislega til orða. Sé rýnt í textann og hvað þá gröfin er augljóst að endalusar fréttir af „hlýnun sjávar“ eru vægast sagt vafasamar.

Hitastig er líka mælt í vorrallinu

Myndin sýnir þróunina frá árinu 2003–2022 (rauða línan er línuleg þróun). Þessar upplýsingar hafa enn sem komið er ekki vakið athygli fjölmiðla.

Í fréttum frá Noregi nú í vikunni er til þess tekið að minni vöxtur sé í laxeldi vegna lækkandi sjávarhita. Þar með fauk út um gluggann sú kenning að um væri að ræða „kuldapoll“ í kringum Ísland.

Eru þetta ekki tíðindi fyrir þjóð sem byggir að stórum hluta á fiskveiðum og hugsanlega frétt- næmara en það hvort lesblindur rútubílstjóri hafi reykspólað framhjá einhverjum lokunarskiltum?

Ég er þeirrar skoðunar að fréttir af andláti jarðar séu stórlega ýktar. Maðurinn hefur í gegnum söguna sýnt að hann finnur lausnir, þó stundum taki það tímann sinn.

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...