Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Jóhannes Bjarki Urbancic hjá UST var einn framsögumanna á fjölsóttu Matvælaþingi í Hörpu fyrir skömmu.
Jóhannes Bjarki Urbancic hjá UST var einn framsögumanna á fjölsóttu Matvælaþingi í Hörpu fyrir skömmu.
Mynd / Matvælaráðuneytið - Grafík / UST
Í deiglunni 7. desember 2023

Hver maður hendir 160 kílóum af fæðu

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Á nýafstöðnu Matvælaþingi kom fram að samkvæmt rannsókn Umhverfisstofnunar (UST) er 160 kg af matvælum sóað pr. mann hérlendis á ári.

„UST hefur verið að mæla matarsóun á Íslandi og þetta er í fyrsta skipti sem við náum raunverulega utan um hversu miklum mat er sóað á Íslandi. Hingað til höfum við haft ágæta hugmynd um hvað fellur til á heimilum en nú erum við að ná yfir alla virðiskeðjuna,“ sagði Jóhannes Bjarki Urbancic, sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfis á Umhverfisstofnun í erindi á Matvælaþingi fyrir skemmstu.

Niðurstöður UST leiða m.a. í ljós að árleg sóun af mat á hvern Íslending nemi 160 kg. Í frumframleiðslu matvæla fari 48% til spillis, á heimilum 40%, á veitingahúsum og í matarþjónustu 6%, í vinnslu og framleiðslu 3% og annað eins í dreifingu, heildsölu og smásölu. Unnið er út frá evrópskri aðferðafræði við greininguna og því hægt að bera niðurstöður saman við tölur frá Evrópu.

Í frumframleiðslunni, svo sem landbúnaði og sjávarútvegi, er að sögn Jóhannesar, stærsti hlutinn í matarsóun vegna þess að Ísland framleiðir svo mikið af matvælum en ekki vegna þess að svo miklu sé sóað.

Sóum minna en evrópsk heimili

Mældur var bæði ætur og óætur matur. Sem dæmi um óætan mat væri t.d. beinið úr lambalærinu sem eldað er á heimili. Hefði það fallið til fyrr í virðiskeðjunni hefði e.t.v. mátt sjóða úr því kraft í soð eða mylja það í fóðurbæti. Samsetning á matarsóun er að jafnaði þannig að skiptist til helminga óætur og ætur matur, sem segir að af áðurnefndum 160 kg eru um 80 kg ætur matur.

„Matarsóun á Íslandi hefur sín séríslensku fingraför,“ sagði Jóhannes, enda séum við með mjög stóran matvælageira hérlendis; mikla frumframleiðslu.

„Þótt íslensk heimili séu verulegur hluti af sóuninni eru þau þó að sóa minna en evrópsk heimili sem er virkilega ánægjuleg niðurstaða,“ sagði hann. Orðræðan innanlands hafi oft verið í þá veru að Íslendingar væru að sóa mjög miklum matvælum en það sé ekki raunin. Við séum að standa okkur á við Evrópumeðaltalið í matarsóun. „Ég held að það séu góðar fréttir og það var ekki endilega tilfinningin sem við höfðum, farandi inn í þessa rannsókn,“ sagði Jóhannes.

Hendum næringarríkum mat

„Við erum oft að henda næringarríkum hluta matar. Ekki endilega að henda þeim mat sem er minnst mikilvægur eða með minnsta næringargildið, heldur er þetta matur sem lægst verð fæst fyrir. Þetta er oft innmatur sem er virkilega næringarmikill, mjög góður og hollur matur fyrir okkur að borða. Við hendum honum af því að við fáum ekki nógu hátt verð. Þetta er eitthvað sem við verðum að skoða betur,“ sagði hann. Jóhannes sagði ekki hafa tekist að fá tölur um sóun úr nokkrum geirum; kartöfluræktun, alifugla- og hrossakjötsframleiðslu og því hafi þær tölur verið áætlaðar. Í fiskeldi hafi ekki einu sinni verið hægt að áætla tölur og þurfi að kanna sóun þar betur.

Í tilfelli vinnslu, dreifingar, smásölu, veitingaþjónustu og fleiri þátta var víða fátt um svör og margar reiknaðar stærðir þegar spurst var fyrir um matarsóun. Þó var góð þátttaka hjá matvöruverslunum. Einkum sé erfitt að segja til um umfang sóunar í veitingageiranum. En talið er að hótel og gistiheimili sói árlega 2.780 t, stórmarkaðir og matvöruverslanir 1.230 t, veitingastaðir 824 t, vinnsla mjöls og lýsis 521 t, vinnsla kjötafurða 336 t og sjávarfangs 306 t, veisluþjónusta og önnur veitingaþjónusta 252 t og heildsala með ávexti og grænmeti 238 t.

Hver er / væri þín helsta hvatning til að draga úr matarsóun?

Ekki einkamál heimilanna

Hvað íslensk heimili varðar kom fram að einna mest verðmætatap verði við sóun frá heimilum og staðan í þeim efnum sé líklega svipuð og var við athuganir árin 2016 og 2019. Það sé ekki neikvætt þar sem aðrir úrgangsflokkar hafa farið ört vaxandi.

Þegar spurt var af hverju mat væri hent á heimilum kom í ljós að t.d. eru pakkningar oft of stórar og skammtar of stórir. Helsta hvatning fólks til að draga úr matarsóun sinni væri ef verslanir myndu bjóða matvöru og drykki sem væru að renna út með afslætti. Peningurinn er þó ekki aðalatriðið nema fyrir lítinn hluta fólks heldur finnst því einfaldlega afar óþægilegt að henda mat út frá nýtingar- og umhverfissjónarmiðum.

Jóhannes áréttaði að matarsóun á heimilum væri hreint ekki einkamál heimilanna, hún snerti alla keðjuna. „Matarsóun á heimilum er eitthvað sem snertir alla matvælaframleiðendur. Það er enginn sem fer út í búð og kaupir mat af því að hann ætlar að sóa honum. Matarsóun á heimilum verður af einhverri ástæðu þannig að ef hún er enn þá umfangsmikið vandamál á Íslandi þá þýðir það að það er eitthvað sem við öll getum gert betur,“ sagði hann.

Framtakssamningur í bígerð

Matvælaráðherra hefur falið Umhverfisstofnun að stilla upp framtakssamningi gegn matarsóun sem leiðir saman stjórnvöld og atvinnulíf. Um er að ræða formlegan samning til ársins 2030 og sem er hluti af aðgerðaáætluninni Minni matarsóun. Íslensk stjórnvöld stefna að því að minnka matarsóun um 30% fyrir 2025 og 50% fyrir 2030.

Ganga á frá samningnum á næstu vikum eða mánuðum, að sögn Jóhannesar.

Samningurinn mun fjalla um hvað mismunandi geirar hafa fram að færa til að minnka matarsóun. Líklegir samningsaðilar munu vera Bændasamtökin, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, iðnaðarins, verslunar og þjónustu og ferðaþjónustunnar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

„Þetta eru líka þeir aðilar sem hafa tólin í höndunum til þess að ná þeim markmiðum að minnka matarsóun,“ sagði Jóhannes og hvatti viðkomandi til að hugleiða hvað þau vildu sjá í slíkum samningi og hefðu fram að færa til að takmarka matarsóun.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...