Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir og Þröstur Heiðar Erlingsson, bændur í Birkihlíð.
Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir og Þröstur Heiðar Erlingsson, bændur í Birkihlíð.
Mynd / Aðsendar
Í deiglunni 22. september 2023

Kallað eftir rafrænu eftirliti

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Kostnaður við dýralæknaþjónustu í örsláturhúsum getur hækkað fyrirvaralaust. Skýr svör vantar frá ráðuneyti.

Í reglugerð um heimaslátrun er tekið fram að ríkissjóður greiði kostnað við eftirlit dýralæknis, en ráðherra geti breytt þeirri grein með skömmum fyrirvara. Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir, bóndi í Birkihlíð, segist hafa sent fyrirspurn á Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra um framtíð þessarar reglugerðargreinar og fékk þau svör að ekki standi til að gera breytingar „að svo stöddu“, sem hún segir of óljóst. „Að svo stöddu“ geti þýtt svo margt og finnst henni í raun ótrúlegt að það sé yfir höfuð verið að hugsa um að taka þetta út.

Kjötvinnslan í Birkihlíð gengur vel. Bændurnir ná að auka virði afurðanna og fylgja þeim frá upphafi til enda. Mynd frá upphafi sláturtíðar 2021.

Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, hafi sett þessa grein inn óumbeðinn, svo umhugað var honum að hjálpa bændum, segir Ragnheiður. Þó svo að kostnaður við dýralæknaþjónustu Matvælastofnunar (MAST) sé greiddur af hinu opinbera, þá er hún gagnrýnin á að reikningarnir sem sendir eru ríkissjóði séu ekki bornir undir þau. Þau viti því ekki hversu margir tímar eru skrifaðir fyrir eftirlit hjá þeim.

Í nokkur ár hefur bændum verið heimilt að stunda heimaslátrun og selja sínar vörur, að undangengnum ýmsum skilyrðum. Enn sem komið er hafa einungis tveir bæir nýtt sér þessa heimild, Birkihlíð í Skagafirði og Grímsstaðir í Borgarfirði.

Rafrænt eftirlit hagkvæm lausn

Ragnheiður sendi einnig erindi á ráðuneytið þar sem hún vill skoða möguleikann á að stunda rafrænt eftirlit með heimaslátrun. Þar með tækist að halda kostnaði niðri og dýralæknar hefðu möguleika á að fylgjast með fleiri slátrunum á skemmri tíma. Svarið sem hún fékk var á þá leið að rafrænt eftirlit rúmist ekki innan löggjafarinnar og var vísað til reglugerða frá Evrópusambandinu (ESB). Ráðuneytinu sé kunnugt um stefnumótunarvinnu á vettvangi ESB sem miði að þróun í þessum málum og sé fylgst vel með því

Takmarkanir geti fylgt því að dýralæknir þurfi alltaf að mæta á staðinn eins og staðan er núna. Ragnheiður nefnir tilvik þar sem dýralæknirinn hafi tafist þegar þau áttu að hefja slátrun. „Við þurftum að bíða í einn og hálfan klukkutíma með okkar menn og við máttum ekki byrja þar sem hann var ekki búinn að leggja blessun sína yfir lifandi lömbin. Þá dróst allt og við sátum bara þarna,“ segir Ragnheiður.

Einnig sé rétt að spyrja þeirrar spurningar hvort þörf sé á svo miklu eftirliti, því Ragnheiður segir bændur hafa orðsporið að veði. Þeir hafi því engan hag af því að setja vörur á markað sem komi af sýktum dýrum. „En ESB stjórnar nú bara ýmsu hér á landi.“

Kjötvinnslan ber sig

Uppbyggingin sé kostnaðarsöm en á móti hafi veltan aukist á búinu. ,,Við fengum styrk frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins þegar við vorum að byggja upp okkar kjötvinnslu og munaði um það,“ segir Ragnheiður. Nú sé þessi sjóður ekki til í sömu mynd, sem henni þykir missir.

Kjötvinnslunni fylgir mikil vinna, en Ragnheiður spyr hvort ekki sé betra að minnka vinnu utan bús til að geta sinnt sinni framleiðslu frá upphafi til enda.

Hún vilji ekki alhæfa yfir alla, en þetta gangi í þeirra tilfelli.

Þar að auki fylgi þessu afar jákvæð samskipti við ánægða kúnna. ,,Það hefur komið fyrir oftar en einu sinni að þegar við komum með kjöt heim til fólks, þá bíður okkar veislumatur og kaffi. Fólk hefur komið og gist hjá okkur og við hjá þeim. Þetta er vinskapur sem myndast og er verðmætt að fá það,“ segir Ragnheiður.

Vilja ekki gefa sláturhúsunum afurðirnar

Bændurnir í Birkihlíð hafa sent hluta fjárins í sláturhús síðastliðin haust og segir Ragnheiður þau taka alla skrokkana heim og verka kjötið heima. Sú ákvörðun var tekin þegar afurðastöðvaverðið féll árið 2017, því þá vildu þau ekki „gefa“ frá sér kjötið. Frekar vildu þau borða kjötið sjálf ef þau næðu ekki að selja allar afurðirnar.

Í Birkihlíð er blandað bú með mjólkurframleiðslu og sauðfé. Þar af eru rétt tæplega 200 fullorðnar kindur og sláturlömbin á hverju ári eru rúmlega 300. Ragnheiður segir söluna vera orðna það mikla að þau eigi erfitt með að bæta við sig fleiri stórum kúnnum. Þegar sláturtíð var að byrja núna í haust var lagerinn frá fyrri sláturtíð nánast tómur.

Skylt efni: heimaslátrun

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...