Veiðitíminn er mjög stutt undan
Höfundur: Gunnar Bender
Þorsteinn Hafþórsson og Edda Brynleifsdóttir á Blönduósi stofnuðu fyrirtækið Vötnin Angling Service vorið 2014 og var hugmyndin að gera út á veiðileiðsögn og að leigja fólki veiðistangir til að fara að veiða í einhverjum af fjölmörgum vötnum Austur-Húnavatnssýslu.
Við hittum Þorstein fyrir skömmu en það styttist í að laxveiðin byrji fyrir alvöru, eins og í Blöndu, þar sem Þorsteinn þekkir sig vel.
,,Þetta vatt upp á sig mjög fljótt með fyrirtækið og nú í apríl síðastliðnum var opnuð veiðibúð í nýju húsnæði í gamla bænum á Blönduósi,“ sagði Þorsteinn og hélt áfram: ,,Þar eru leigðar út fullbúnar veiðistangir, seld veiðileyfi í nokkur vötn og beita,“ segir Þorsteinn enn fremur.
En boðið er upp á flugukastnámskeið á vorin og Þorsteinn starfar sem stangveiðileiðsögumaður allt sumarið. Á veturna má fá leigðan eða keyptan búnað til ísdorgs. Með haustinu er ætlunin að byrja að gera út á kajakferðir með leiðsögn.
,,Hvað varðar mína uppáhaldsveiði þá er það að komast í góða sjóbirtingsá með vinum mínum á haustin, slaka þar á og njóta lífsins eftir sumartörnina í leiðsögn. Besta minning er úr Vatnamótunum þar sem ég setti í alvöru skepnu sem þveraði yfir Skaftána eins og ég væri ekki til. Lagðist svo við hinn bakkann og til að gera langa sögu stutta þá gafst ég upp eftir óralangan tíma og lét reyna á græjurnar. Þá losnaði út út honum og ég fékk þríkrækjuna sex upprétta á tveimur krókum,“ sagði Þorsteinn og var allur á iði. Veiðitíminn er stutt undan.