Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Ísland hlaut flest verðlaun á HM
Mynd / HGG
Fréttir 19. ágúst 2019

Ísland hlaut flest verðlaun á HM

Höfundur: Hulda G. Geirsdóttir
Heimsmeistaramót íslenska hestsins stóð yfir í rúma viku í Berlín í Þýskalandi og lauk sunnudaginn 11. ágúst. Rúmlega 10 þúsund manns sóttu mótið sem var haldið í annað sinn í Berlín, síðast árið 2013. Íslendingar náðu góðum árangri þó ekki hafi allt fallið með íslensku keppendunum. 
 
Mótssvæðið var með svipuðu sniði en bætt hafði verið úr hesthúsaðstöðu sem hafði verið töluvert gagnrýnd á síðasta móti. 
 
Helstu úrslit
 
Jóhann Rúnar Skúlason varð þre­faldur heimsmeistari á hesti sínum Finnboga frá Minni-Reykjum, þeir unnu tölt, fjórgang og samanlagðar fjórgangsgreinar, auk þess sem Jóhann fékk reiðmennskuverðlaun. Íslendingar unnu allar skeiðgreinar, Teitur Árnason og Dynfari frá Steinnesi urðu heimsmeistarar í gæðingaskeiði, Guðmundur Björgvinsson og Glúmur frá Þór­odds­stöðum heimsmeistarar í 250 m skeiði og Konráð Valur Sveinsson og Losti frá Ekru heimsmeistarar í 100 m skeiði. Í flokki ungmenna urðu Benjamín Sandur Ingólfsson og Messa frá Káragerði heimsmeistarar í gæðingaskeiði. 
 
Bergþór Eggertsson og Besti frá Upphafi náðu 3. sætinu í gæðingaskeiði, Ásdís Ósk Elvars­dóttir og Koltinna frá Varma­læk urðu í 2. sæti í tölti ungmenna og í 3.-5. sæti í fjórgangi ungmenna, jöfn þeim urðu Hákon Dan Ólafsson og Stirnir frá Skriðu. Ásdís Ósk og Koltinna urðu einnig í 2. sæti í samanlögðum fjórgangsgreinum.
 
Árni Björn Pálsson og Flaumur frá Sólvangi voru efstir inn í úrslit í fjórgangi en enduðu í 5. sæti. Ásmundur Ernir Snorrason og Frægur frá Strandarhöfði voru efstir inn í b-úrslit í fjórgangi en enduðu í 7. sæti. Jakob Svavar Sigurðsson og Júlía frá Hamarsey voru þriðju inn í a-úrslit í slaktaumatölti en enduðu í 5. sæti, heimsmeistari í slaktaumatölti varð hin danska Julie Christiansen og Stormur frá Hemlu.
 
Olil Amble og Álfarinn frá Syðri-Gegnishólum voru efst inn í úrslit í fimmgangi en enduðu í 6. sæti, Gústaf Ásgeir Hinriksson og Sproti frá Innri-Skeljabrekku urðu í 5. sæti en Jón Stenild og Eilífur frá Teglborg frá Danmörku áttu toppsýningu, hlutu yfir 8 fyrir bæði tölt og skeið og unnu sannfærandi sigur. Magnús Skúlason og Valsa frá Brösarpsgården urðu heimsmeistarar í samanlögðum fimmgangsgreinum en þau keppa fyrir Svíþjóð.
 
Þessi voru kát í sólinni. Sigrún Ólafsdóttir og Skúli Skúlason í Hallkelsstaðahlíð, Erna Arnardóttir, Dagný Egilsdóttir og Hinrik Gylfason. Myndir / HGG
 
Kynbótasýningar gengu vel
 
Íslensku hrossin stóðu sig vel í kynbótasýningu mótsins. Mjallhvít frá Þverholtum varð efst í flokki fimm vetra hryssna, knapi Þórður Þorgeirsson, Eyrún Ýr frá Hásæti varð efst í flokki sex vetra hryssna, knapi Eyrún Ýr Pálsdóttir, Elja frá Sauðholtum stóð efst í flokki ­sjö vetra hryssna og var jafnframt hæst dæmda kynbótahross mótsins, knapi á Elju var Árni Björn Pálsson. Spaði frá Barkarstöðum var efstur í flokki sex vetra hesta, knapi Helga Una Björnsdóttir og Hamur frá Hólabaki varð annar í flokki fimm vetra stóðhesta, setinn af Tryggva Björnssyni.
 
Besti árangur Íslands frá árinu 2007
 
Íslenska liðið vann til flestra verðlauna á mótinu og hlaut að launum liðabikarinn sem afhentur er í mótslok. Samkvæmt upplýsingum frá Landssambandi hestamannafélaga er þetta besti árangur íslenska landsliðsins í hestaíþróttum frá 2007 og ef öll gull eru talin í flokki ungmenna og kynbótahrossa hefur árangurinn aldrei verið betri því liðið fór heim með ellefu gullverðlaun alls.
 
Bjargshólsfólk var mætt á HM að styðja sinn mann, Bergþór Eggertsson, í íslenska liðinu.
 
Margt fer í reynslubankann að loknu móti
 
Mótið gekk að mestu leyti vel fyrir sig en nokkur umræða varð um þau tilfelli þar sem knapar voru dæmdir úr leik vegna áverka hrossa, m.a. íslenskir knapar. Þar að auki voru tvö hross í íslenska liðinu sem ekki gátu tekið þátt þegar út var komið vegna meiðsla. Vissulega mikil vonbrigði fyrir knapa og hesteigendur, en hluti af því að vera með lifandi skepnur í höndunum. Það sama mætti segja um þá knapa sem ekki náðu þeim árangri sem stefnt var að, aðstæður eru vissulega krefjandi, ekki síst fyrir hrossin sem koma frá Íslandi, og stundum ganga hlutirnir einfaldlega ekki upp þegar á hólminn er komið. En allt fer þetta í reynslubankann góða og oft opna umræður um umdeildar ákvarðanir á endurskoðun og breytingar. Skipulag mótssvæðis og dagskrá var einnig rætt manna á milli, mörgum þótti t.d. dagskrá lokadagsins sérstök, byrjaði snemma og var oft langdregin og skringilega samsett að margra mati. 
 
Mikill fjöldi Íslendinga sótti mótið heim og mannlífið var litskrúðugt og skemmtilegt. Einnig var því fagnað að FEIF, alþjóðasamtök íslenska hestsins, eru 50 ára á þessu ári og gáfu samtökin út skemmtilegt hefti þar sem farið er yfir söguna í myndum og texta. Næsta mót verður haldið í Herning í Danmörku að tveimur árum liðnum og sjálfsagt margir þegar farnir að huga að því eftir skemmtilega daga í Berlín. /HGG
 
Þjóðverjar tengja íslenska lambið við víkingamenninguna.

Íslenskt lambakjöt á boðstólum í Berlín

Á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Berlín var íslensku lambakjöti gerð góð skil með kynningu og sölu til mótsgesta. Að verkefninu koma vörumerki þýskra seljenda, Vikingyr, og fleiri samstarfsaðilar.
Vikingyr kaupir sitt kjöt frá Kjarnafæði í gegnum innflytjandann RW Warenhandel. Icelandic Lamb styður við verkefnið með gerð auglýsingaefnis og birtinga auk þess að leggja Þjóðverjunum lið við ýmsa viðburði. 
 
Þúsundir gesta brögðuðu á lambakjöti
 
Hafliði Halldórsson, framkvæmda­stjóri Icelandic Lamb, tók þátt í kynningu og matreiðslu með þýska teyminu og aðstoðaði Michelin-stjörnukokkinn Tom Wickboldt þar sem þúsundir gesta smökkuðu lambið á lamba­veitingastað Vikingyr.
 
Að auki bauð Vikingyr og Icelandic lamb gestum í 50 ára afmæli alþjóðasamtaka íslenska hestsins, FEIF. Sú veisla fór fram á bás Horses Of Iceland og framreiddi Hafliði fjölbreytta lambarétti.
 
Hafliði sagði að kynningin á íslenska lambinu hefði verið áberandi á mótssvæðinu og tekist vel. „Auk kynningarinnar á sjálfu lambinu var sett upp 600 fermetra víkingaþorp þar sem starfsmenn Vikingyr kynntu vörumerki sitt með glæsilegum hætti. Fyrirtækið selur uppþítt lamb til þýskra stórmarkaða undir sínu merki. Verslanir taka til sín allan skrokkinn hlutaðan niður og selja alla bita lambsins jöfnum höndum. Athyglisvert er einnig að skilaréttur er ekki til staðar, heldur er á sjálfbæran hátt horft til fullrar nýtingar allra bita en ekki eingöngu valdir út auðseljanlegustu hlutarnir,“ segir Hafliði Halldórsson. /Tjörvi Bjarnason

21 myndir:

Skylt efni: HM í Berlín 2019

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...