Íslandsmet hjá stafafuru
Toppsproti á stöku furutré í þjóðskóginum á Höfða vakti sérstaka athygli á dögunum þegar Héraðs- og Austurlandsskógar héldu þar námskeið í umhirðu ungskóga.
Reyndist árssprotinn 2014 vera 105 cm langur sem er að öllum líkindum met hjá stafafuru hérlendis.
Þótt stór hluti landsmanna hafi upplifað sumarið 2014 sem rigningasumar, þá var það ekki reyndin austur á Héraði. Þar var sumarið bæði langt og sólríkt og fyrir vikið var vöxtur trjáa almennt með ágætum.
Fura þessi er í reit sem gróðursett var í árið 1996 og er kvæmið Taraldsey frá Noregi. Þar var stofnað til frægarðs með stafafurutrjám sem valin voru á Íslandi fyrir gott vaxtarlag og vaxtarþrótt. Þær kynbætur virðast hafa skilað sér m.t.t. hvors tveggja hjá stórum hluta trjánna í þessum reit að því er fram kemur á vef Skógræktar ríkisins.