Íslenska geitin komin á veggspjald
Veggspjald sem sýnir litafjölbreytileika íslenska geitastofnsins er komið út.
Það eru Bændasamtök Íslands sem standa að útgáfunni en ljósmyndirnar koma úr ýmsum áttum. Á spjaldinu eru alls 24 fjölbreyttar myndir af geitum, teknar af Jóni Eiríkssyni, Áskeli Þórissyni, Önnu Maríu Geirsdóttur, Jóhönnu B. Þorvaldsdóttur og Guðmundi A. Guðjónssyni. Eins og kunnugt er hafa geitfjárræktendur staðið í ströngu síðustu ár til þess að vernda íslensku geitina og efla stofninn. Mikill áhugi er á meðal almennings um málefni geitfjárræktarinnar og er útgáfa veggspjaldsins ekki síst hugsuð til þess að ýta enn frekar undir fræðslu um þennan einstaka stofn.
Litaveggspjöld af íslensku búfé hafa notið mikilla vinsælda í gegnum árin en þau eru fáanleg hjá BÍ og í bókaverslunum víða um land. Tvær stærðir eru í boði, A3 og stór veggspjöld í stærðinni 61X87 cm. Minna spjaldið kostar 900 kr. og það stærra 1.500 kr. Þeir sem vilja panta nýja geitaspjaldið geta sent tölvupóst á jl@bondi.is eða haft samband í síma 563-0300 og fengið veggspjald sent um hæl.