Íslenskt birki í aðalhlutverki
Safna má safa úr sumum trjátegundum á vorin. Foss distillery ehf. framleiðir tvær vörur þar sem birkisafi er í aðalhlutverki, líkjör sem kallast Björk og snafsinn Birkir. Safanum er safnað í Hallormsstaðaskógi og þar er unnið úr honum birkisíróp sem er notað í drykkina.
„Markaður fyrir drykkina hefur fram til þessa aðallega verið á Íslandi og mestur í Fríhöfninni. Aukinn fjöldi ferðamanna hefur aukið söluna enda ferðamenn áhugasamir um drykkina. Við erum byrjuð að flytja veigarnar út til Danmerkur og fyrir skömmu fengum við leyfi til að flytja Björk og Birki inn til Bandaríkjanna,“ segir Jakob S. Bjarnason framkvæmdastjóri Foss distillery ehf.
Bragðbæta vín með plöntum
Jakob segir nokkrum tonnum af safa tappað af trjám í Hallormstaðaskógi á ári og úr honum verði framleiddar á þessu ári um 20 þúsund hálfslítra flöskur og 50 þúsund smáflöskur sem eru seldar um borð í flugvélum Icelandair, í fríhöfninni og á hótelum í Reykjavík.
„Foss distillery var upphaflega stofnað með það að markmiði að framleiða áfengi sem væri bragðbætt með plöntum sem finnast á Íslandi,“ segir Jakob, „hugmyndin með að nota birki til að bragðbæta vín varð til hjá Ólafi Erni Ólafssyni barþjóni og Gunnari Karli Gíslasyni kokki hjá Dill veitingastaðnum sem var í Norræna húsinu.“
Safi og greinar af birkitrjám
Jakob er menntaður sem mjólkurtæknifræðingur en hann starfaði sem framkvæmdastjóri Búbótar um árabil sem framleiðir Mömmusultur og saftir. Hann starfaði einnig fyrir Íslensk fjallagrös og var þar eigandi um tíma og þar vaknaði áhuginn fyrir flóru Íslands. „Ég hef lengi haft áhuga á nytjum á gróðri og landsins gæðum og eftir að leið mín Ólafs og Gunnars lágu saman fór boltinn að rúlla. Í dag framleiðir fyrirtækið tvær vörur sem heita Björk og Birkir og í þær notum við birkisíróp og greinar af birkitrjám.“
Að sögn Jakobs vinnur hann bragð- og litarefni úr smágreinum en það er fyrirtæki sem heitir Holt og heiðar sem safnar greinunum og tapar safanum af trjánum og býr til úr honum sýróp. Það er svo hjá Pure spirits í Borgarnesi sem vörurnar eru framleiddar og veigunum tappað á flöskur og gerðar klárar til sölu.
„Birkisafi er viðkvæm vara og súrnar fljótt og ekki með nema þriggja til fimm daga líftíma. Safanum er því safnað úr söfnunarílátunum kvölds og morgna og hann frystur og geymdur þannig.“
Birkisafi gegn frjóofnæmi
Jakob segir gríðarlega möguleika í framleiðslu á bragðefnum úr plöntum sem finnast á Íslandi, bæði skógartrjám og þeim sem tilheyra íslenskri flórum.
„Við höfum verið að gera tilraunir með ýmsar tegundir og eins og sitkagreni og einiber. Auk þess sem má nefna blóðberg, kerfil, hvönn og skessujurt en vöruþróun úr ólíkum tegundum er komin mislangt á veg.
Birkið á enn hug minn allan og ég reyni eftir megni að afla mér upplýsinga um það og í dag er ég kominn í samstarf við þrjá aðila erlendis sem eru að skoða eiginleika þess. Þar á meðal danskt fyrirtæki sem hefur sýnt fram á að birkisafi getur haft verulega hamlandi áhrif á frjókornaofnæmi og þá sérskaklega birkifrjó. Þær rannsóknir standa enn yfir og um stórmál er að ræða verði fyrirbyggjandi áhrif birkisafa á frjóofnæmi sönnuð.“
Engin skortur á birkitrjám
Að sögn Jakobs tók það hann þrjú ár að vinna upp þor og þekkingu til að hafa samband við Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá og spyrjast fyrir um möguleika á að safna birkisafa og frekari vinnslu úr birkitrjám og hvort slíkt væri raunhæft.
„Á Mógilsá var tekið vel á móti mér og sérfræðingarnir þar hreinlega útskýrðu fyrir mér hvað ég var að hugsa. Í framhaldi af því sótti Foss distillery og Skógrækt ríkisins um rannsóknastyrk til Rannís ásamt Matís og Holt og heiðar sem við fengum reyndar ekki. Næsta skref er að sækja um styrk til Evrópusambandsins til verkefnisins.
Í umsókninni til Rannís segir meðal annars að gera megi ráð fyrir að hér á landi séu 11.500 hektarar af birkiskógum sem má nýta til söfnunar á birkisafa. Trén eru að sjálfsögðu misaðgengileg en ég geri ekki ráð fyrir að það sé nokkur skortur á trjám sem má nytja. Í vor hófum við samvinnu við Skógræktina um að tappa safa af hundrað trjám í Tumastaðaskógi í þrjú ár og um leið meta áhrif þess á trén,“ segir Jakob.
Miðstöð birkisýrópsframleiðslu í heiminum
„Helsta nýjungin í framleiðslu Foss distillery er birkisýróp sem er svipað og agavesýróp sem nýtur mikilla vinsælda um þessar myndir. Birkisýróp er ákjósanlegt bragðefni fyrir matvælaiðnaðinn og þá sérílagi mjólkuriðnaðinn
til að bragðbæta skyr og jógúrt. Hvað er íslenskara en skyr og birkibragðefni og varla hægt að komast nær fósturjörðinni en það.
Ef vinsældir birkisýróps yrðu svipaðar og agavesýróps gæti Ísland orði miðstöð birkisýrópsframleiðslu í heiminum og það gæti þýtt tekjur fyrir skógarbændur og útflutningstekjur fyrir þjóðina,“ segir Jakob S. Bjarnason, framkvæmdastjóri Foss distillery ehf.