Kanínur hafa valdið miklum skemmdum á trjám í vetur
Kanínur sem ganga lausar í Kjarnaskógi og á Útilífs- og umhverfismiðstöð skáta að Hömrum við Akureyri hafa valdið miklum skemmdum á trjám í vetur. Hafa þær nagað börk af trjám allt upp í tveggja metra hæð. Leyfi fékkst til að farga kanínum á Hamrasvæðinu í lok vetrar, en ef til vill er um skammgóðan vermi að ræða því þær sem fyrir eru í Kjarnaskógi færa sig gjarnan yfir að Hömrum.
„Kanínur hafa verið í Kjarnaskógi um áratuga skeið og hafa flestir haft gaman af því að sjá þær skoppa um skóginn. Margir hafa viljað meina að þær geri ekki neinn skaða og séu kærkomin viðbót í annars fábrotið villidýralíf landsins. En með framferði sínu síðastliðinn vetur hefur talsmönnum kanínanna fækkað verulega,“ segir Bergsveinn Þórsson svæðisstjóri í grein sem hann skrifar á vef Norðurlandsskóga.
Kanínur hafa drepið mörg falleg tré í Kjarnaskógi
Bergsveinn fór í gönguferð um skóginn á dögunum og varð þá vitni að því að á mörgum stöðum höfðu kanínur drepið falleg tré sem plantað hafði verið hér og þar um skóginn til skrauts. „Í vetur þegar fór að snjóa og harðna á dalnum hjá kanínunum hafa þær tekið upp á því að naga allan börk af greinum og stofni valinna trjáa. Kanínurnar hafa sigtað út sjaldgæfustu og dýrustu trén og virðast tré af rósaættinni vera í sérstöku uppáhaldi eins og t.d. reynitré, eplatré og prunusar. Vegna snjóalaga í vetur hafa þær í mörgum tilfellum getað verið að dunda við að hreinsa börkinn af trjánum frá jörð og upp í yfir metra hæð svo nú standa eftir berir trjástofnarnir,“ segir Bergsveinn.
Tryggvi Marinósson, framkvæmdastjóri Útilífs- og umhverfismiðstöðvar skáta að Hömrum, segir að þar á bæ sé sama sagan. Kanínur hafi nagað allan börk af fjölda trjáa á svæðinu. „Trén sem lögðust undan snjónum nöguðu þær allan börk af allt upp í tveggja metra hæð,“ segir hann.
Leyfi fékkst til að farga kanínum að Hömrum
Í lok vetrar fékkst leyfi frá Umhverfisstofnun til að farga kanínum á svæðinu og þar eru nú að sögn Tryggva engar kanínur, „en væntanlega koma þær aftur ef þær eru enn á ferðinni í Kjarnaskógi,“ segir hann. Hann nefnir að menn tali gjarnan um fjölbreytileika dýralífs á landinu, en ótal dæmi séu víðs vegar að úr heiminum um hörmulegar afleiðingar þess að leyfa framandi dýrategundum að ná fótfestu. Þar megi nefna kanínur. Eins sé minkurinn ágætt dæmi hér á landi. „Menn mættu líka velta því fyrir sér hvaða afleiðingar það hefur nái kanínur verulegri útbreiðslu hér á landi, en sem dæmi gætu þær orðið viðbót við fæðu refsins og hvaða áhrif hefur aukið fæðuframboð fyrir refastofninn? Ef til vill þarf þá enn meira fé í að fækka refnum,“ segir Tryggvi.