Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Guðjón Kristinsson, framkvæmdastjóri Ístex, segir að hlutur sinn og tveggja annarra sé enn falur þrátt fyrir að tilboðinu hafi verið hafnað.
Guðjón Kristinsson, framkvæmdastjóri Ístex, segir að hlutur sinn og tveggja annarra sé enn falur þrátt fyrir að tilboðinu hafi verið hafnað.
Fréttir 18. júní 2014

Kauptilboði í Ístex hafnað

Höfundur: Freyr Rögnvaldsson

Þrír stærstu eigendur ulllarvinnslunnar Ístex höfnuðu að beiðni forystu sauðfjárbænda kauptilboði sem gert var í hluti þeirra í fyrirtækinu fyrir skemmstu. Tilboðið kom frá fjárfestum sem ekki var gefið upp hverjir væru en allt bendir til að um erlenda krónueigendur hafi verið að ræða. Landssamtök sauðfjárbænda, sem eiga ríflega 15 prósenta hlut í fyrirtækinu, leita nú að fjárfestum tengdum bændum sem gætu keypt hlutinn.

Hluturinn sem um ræðir er í eigu Guðjóns Kristinssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Jóns Haraldssonar framleiðslustjóra og Viktors Guðbjörnssonar, sem hefur haft umsjón með tæknimálum og viðhaldi Ístex. Heildarverðmæti Ístex er metið á tæpar 550 milljónir. Hlutur Guðjóns, Jóns og Viktors er 34 prósent. Landssamtök sauðfjárbænda eiga 15,5 prósenta hlut í Ístex, nú- og fyrrverandi starfsmenn 13%, fjármálafyrirtæki og önnur fyrirtæki eiga um sjö prósenta hlut og 1.800 nú- og fyrrverandi ullarinnleggjendur eiga síðan það sem út af stendur. Eins og áður segir er ekki ljóst hvaða aðilar stóðu að baki tilboðinu en því var komið á framfæri í gegnum verðbréfafyrirtækið Virðingu.

Huga að því að setjast í helgan stein

Guðjón segir í samtali við Bændablaðið að hlutur þeirra félaga sé vissulega til sölu áfram þrátt fyrir að umræddu tilboði hafi verið hafnað. „Við höfum í sjálfu sér ekki unnið markvisst að því að selja okkar hlut en við erum farnir að eldast. Sá sem er elstur í hópnum er 72 ára og á þeim aldri fara menn að huga að því að setjast í helgan stein. Við höfðum fengið tilboð í hlutinn áður, en síðan kom tilboð án allra skuldbindinga. Ég bar það undir stjórnarformanninn, sem aftur bar það undir forystu Landssamtaka sauðfjárbænda. Þar á bæ leist mönnum ekki vel á að okkar hlutur færi í hendur annarra og óskuðu eftir að við höfnuðum tilboðinu sem við gerðum. Við gerðum það í ljósi þess að bændur stefndu að því sjálfir að kaupa okkur út úr fyrirtækinu. Hvar það mál er statt veit ég hins vegar ekki. Við höfum átt í góðu samstarfi við bændur og okkur liggur í sjálfu sér ekki lífið á, við erum alveg rólegir og erum bara að reka okkar fyrirtæki. Það kemur hins vegar auðvitað að því að við bjóðum þetta falt.“

Guðjón segir líkur benda til að um hóp erlendra krónueigenda hafi verið að ræða sem hafi viljað fjárfesta fyrir fjármuni sem eru fastir hér á landi. „Tilboðið er hins vegar úr sögunni, við höfnuðum því.“

Rætt við aðila tengda bændum

Sigurður Eyþórsson, fram­kvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda segir mikilvægt að hægt sé að treysta því að fyrirtækið sinni áfram þjónustu við bændur, enda sé það eina fyrirtækið sem sé með ullarmóttöku á landinu. „Okkur er auðvitað ekki sama hvað um þetta fyrirtæki verður. Það er mikilvægt fyrir sauðfjárbændur og samtökin eiga tæp 16 prósent í því. Við ákváðum í framhaldinu að ræða við aðila sem hefðu hugsanlega áhuga á að kaupa þennan hlut þannig að hann myndi enda í höndum bænda eða fyrirtækja tengdra þeim. Við höfum rætt við nokkra aðila en það er ekki komin nein niðurstaða í málið.“

Rekið með hagnaði síðustu ár

Ístex var reist úr rústum Álafoss fyrir rúmum tuttugu árum. Fyrirtækið er hið eina á landinu sem tekur við ull frá bændum. Ístex rekur ullarþvottastöð á Blönduósi og verksmiðju í Mosfellsbæ. Rekstur Ístex hefur á undanförnum árum gengið vel eftir að hafa verið í járnum framan af. Hagnaður hefur verið af rekstri fyrirtækisins frá árinu 2009 og árið 2012 var hagnaðurinn 77 milljónir á sama tíma og skuldir lækkuðu um 74 milljónir. Á síðasta ári var hagnaður fyrirtækisins 46 milljónir króna. Það má rekja til gríðarlega aukinna vinsælda íslensks lopa frá hruni, sem og aukins útflutnings.

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...