Kennsla í lífrænni ræktun aukin
Í hartnær 20 ár hefur einn áfangi, kenndur við lífræna ræktun, verið kenndur við garðyrkjuskólann en í dag er þar námsbraut sem helguð er slíkri ræktun.
Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, brautarstjóri garðyrkjuframleiðslu við garðyrjuskólann, hélt erindi um þróun námsbrautarinnar á málþingi um stöðu og horfur í lífrænum búskap á Íslandi í Bændahöllinni fyrir skömmu.
Í máli Guðrúnar kom fram að fram til ársins 2008 hafi verið kenndur einn áfangi í lífrænni ræktun við garðyrkjuskólann til að kynna ræktunaraðferðina. „Á árunum 2008 til 2010 voru þeir tveir. Annar fjallaði um lífræna ræktun og vistvæna garðyrkju en hinn um lífræna ræktun ávaxtatrjáa. Frá 2010 til 2014 var lífræn ræktun kennd samhliða og jafnt á við aðrar ræktunaraðferðir og nú í haust var stofnuð námsbraut sem er helguð lífrænni ræktun þannig að þróunin hefur verið hröð,“ að sögn Guðrúnar.
Sérhæfð námsbraut um lífræna ræktun
„Fyrstu hugmyndir að námsbrautinni komu fram á vordögum 2012. Skólinn fékk styrk frá menntamálaráðuneytinu til að þróa braut um lífræna ræktun matjurta um haustið og verkefnið var unnið í samstarfi skólans, garðyrkjubænda í lífrænni ræktun (VOR) og ráðunauta Bændasamtaka Íslands.
Markmið var að setja á fót námsbraut þar sem nemendur yrðu búnir undir sérhæfð störf á fagsviði lífrænnar ræktunar matjurta í gróðurhúsum eða í útiræktun með þeim hætti að þeir uppfylli hæfnikröfur starfsins. Ég tel að þetta hafi tekist ágætlega þrátt fyrir að við séum enn að móta og þróa brautina.
Nemendur í lífrænni ræktun taka alla grunnáfanga fagsins eins og aðrar brautir. Ef við berum saman lífrænu brautina og ylræktarbrautina þá er um sömu áfanga í matjurtarækt að ræða en áherslur í ræktunartækni eru aðrar. Í stað áfanga sem tengjast blómarækt eru kenndir áfangar eins og náttúrauðlindir, jarðvegsræktun og ræktunarstefnur.“
Vaxandi iðnaður
Nám við garðyrkjuskólann er fjórar annir og Guðrún segir að eftir því sem líður á námið verði það sérhæfðara og tengist meira lífrænni ræktun. „Nemendur verða helst að hafa lokið þriggja mánaða verknámi á viðurkenndum verknámsstað áður en þeir koma í skólann en þar sem verknámsstaðir sem stunda lífræna ræktun eru fáir höfum við aðeins hliðrað til hvað það varðar.
Ég hef mikla trú á námsbrautinni og að hún eigi eftir að vaxa og dafna. Eftirspurn eftir lífrænt vottaðri matvöru er alltaf að aukast og margir tilbúnir að borga hærra verð fyrir lífrænt vottaðar afurðir. Eftirspurn eftir námi eins og þessu hefur líka verið að aukast og því rétt að bregðast við því og vera undir það búin að þörf fyrir fólk með sérmenntun á sviði lífrænnar ræktunar eigi eftir að aukast,“ segir Guðrún Helga, brautarstjóri garðyrkjuframleiðslu við garðyrkjuskóla Landbúnaðarháskóla Íslands.