Kokkalandslið fékk gullverðlaun í heimsmeistarakeppninni í matreiðslu
Kokkalandsliðið íslenska fékk í gær gullverðlaun fyrir heita matinn í Heimsmeistarakeppninni í matreiðslu sem fram fer í Lúxemborg.
Sex manna matreiðslumeistarahópur hafði sex klukkustundir til að matreiða þriggja rétta máltíð fyrir dómara og 110 gesti.
Í forrétt var hægeldaður íslenskur þorskur og pönnusteiktur humar, framreiddur með epla- og jarðskokkasalati, agúrku, kínóa, skelfisksósu og dill-sinneps vinaigrette.
Í aðlrétt var grilluð íslensk lambamjöðm með vel elduðum lambaskanka og – tungu. Framreidd með seljurót, kartöflu- og sveppakrókettu, gljáðum gulrótum og perlulauk, rósakáli, baunum ásamt blóðbergs-lambasósu með sveppum.
Í eftirrétt var jarðarberja- og jógúrtmús með dökkum súkkulaðitoppi ásamt skyr-ís, möndlu-karamelluköku, þeyttum sýrðum rjóma, jarðarberjum og jarðaberjasósu.
Hópinn skipa þeir Bjarni Siguróli Jakobsson, Slippbarinn, Þráinn Freyr Vigfússon, Lava Bláa lónið, Fannar Vernharðsson, VOX, Garðar Kári Garðarsson, Strikið, Hafsteinn Ólafsson og Viktor Örn Andrésson, Lava Bláa lónið.
Þá vann liðsmaður Íslenska Kokkalandsliðsins, María Shramko sykurskreytingarmeistari, tvenn gullverðlaun í einstaklingskeppninni í Pastry-flokknum sem var keppt í laugardaginn 22. nóvember.
Keppt verður í flokknum Kaldur matur á miðvikudaginn næstkomandi.