Koli frá Sólheimum besta nautið
Höfundur: Freyr Rögnvaldsson
Koli 06003 frá Sólheimum í Hrunamannahreppi er besta naut árgangsins sem fæddur er árið 2006. Hlutu ræktendur hans, þau Jóhann B. Kormáksson og Esther Guðjónsdóttir bændur á Sólheimum viðurkenningu fyrir ræktun Kola á Fagþingi nautgriparæktarinnar sem haldið var 27. mars síðastliðinn.
Koli var fæddur á Sólheimum 23. febrúar 2006. Faðir Kola er Fontur 98027 frá Böðmóðsstöðum í Laugardal en hann var á sínum tíma valinn besta naut 1998 árgangsins. Móðir Kola er Elsa 226 frá Sólheimum og móðurfaðir er Kaðall 94017 frá Miklagarði í Saurbæ en hann var einnig valinn besta naut síns árgangs, árgangsins 1994. Í ættartölu Kola má finna mörg af bestu nautum landsins, svo sem Þráð frá Stóra-Ármóti, Þistil frá Gunnarsstöðum og Rauð frá Brúnastöðum.
Í umsögn um dætur Kola er sagt að afurðasemi þeirra sé góð, einkum hvað varðar efnahlutföll. Þær eru stórar og sterkbyggðar, malir vel lagaðar, fremur flatar og fótstaða góð. Þær eru júgurhraustar með vel borin júgur, afar sterkt júgurband og mjög góða júgurfestu, vel lagaða spena og vel staðsetta en fremur stutta og granna. Mjaltir eru í meðallagi og kýrnar skapgóðar, að því er sagt er í Nautaskránni. Koli stendur í 117 í heildarkynbótamati.