Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Krefst þess að strax verði innleiddar reglur um upprunamerkingar
Fréttir 9. janúar 2014

Krefst þess að strax verði innleiddar reglur um upprunamerkingar

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, krefst þess að reglur um upprunamerkingar á öllum landbúnaðarvörum verði þegar í stað teknar upp á Íslandi og ekki verði beðið með málið fram í desember á þessu ári. Þær reglur nái líka til mjólkurvara. Þess má geta að upprunamerkingar á fersku og frosnu nautakjöti tóku gildi hér á landi haustið 2011.

Augljósir hagsmunir bænda

„Það eru augljósir hagsmunir íslenskra bænda að neytendur geti treyst þeim vörum sem frá bændum koma. Á undanförnum vikum og mánuðum hafa verið að koma upp mál þar sem neytendur hafa verið blekktir með því að einstaka fyrirtæki hafa blandað erlendu hráefni saman við framleiðslu íslenskra bænda án þess að þess hafi verið getið á vöruumbúðum. Við slíkt er ekki hægt að una – þetta gengur gegn hagsmunum bænda,“ segir Sindri.
Á síðari hluta síðasta árs var upplýst um mál er varða m.a. fyrirtækja í kjúklingaframleiðslu. Þar hafði verið flutt inn erlent alifuglakjöt og síðan selt undir íslenskum vörumerkjum. Innflutningur á smjöri sem blandað hefur verið saman við íslenskar mjólkurvörur hefur sömuleiðis verið harðlega gagnrýndur og blandast einnig umræðum um tollkvóta og verndartolla. Þá hefur Bændablaðið áreiðanlegar upplýsingar um að svipuð vinnubrögð hafi að einhverju leyti verið stunduð við innflutning á kartöflum og ýmsu öðru grænmeti, sem og á svínakjöti og fleiri matvörum.

Skylt verður að upprunamerkja í desember

Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun (MAST) verður skylt að merkja kjöt á markaði hérlendis með upprunamerkingum frá desember 2014. Um verður að ræða ferskt og fryst svínakjöt, kindakjöt, geitakjöt og alifuglakjöt. Þá verður einnig skylt að geta uppruna aðalhráefnis samsettrar vöru, sé uppruni þess annar en vörunnar sjálfrar. Er þetta í samræmi við reglugerð Evrópusambandsins sem tekur gildi 13. desember næstkomandi. Íslendingum er skylt að taka reglugerðina upp hér á landi í samræmi við ákvæði EES-samningsins. Segir Sindri að í ljósi atburða liðinna vikna sé ástæðulaust að bíða lengur með að taka upp slíkar reglur.

Grafalvarlegt mál

„Málið er grafalvarlegt í ljósi þess að á undanförnum árum og áratugum hafa íslenskir bændur verið í þrotlausri vinnu við að bæta framleiðsluaðferðir sínar og vanda vörumeðferð í því skyni að bæta ímynd íslenskra landbúnaðarvara. Með óvönduðum vinnubrögðum við sölumennsku á landbúnaðarvörum er verið að stefna allri þessari vinnu í stórhættu.“

Telur Sindri ótækt að inn­flytjendur geti skýlt sér á bak við það að engin ákvæði séu um að merkja skuli uppruna alifugla­kjöts né annars kjöts og landbúnaðar­afurða, utan nautakjöts, hér á landi. Á þessum forsendum telji sömu innflytjendur jafnvel boðlegt að halda því fram að ekki sé verið að blekkja fólk.
Í dag mælir vissulega ekkert í regluverkinu á móti því að uppþítt kjúklingakjöt sé selt hér á landi, sem og annað kjöt og án uppruna­merkinga. Einungis er gerð krafa um að kjötið komi frosið til landsins. Þessu vill Sindri láta breyta þegar í stað.

Kröfur um afléttingu tolla

Í kjölfar innflutnings MS á smjöri fyrir jólin hafa komið upp háværar kröfur frá hagsmunaaðilum í verslun og þjónustu um að felldir verði niður verndartollar á allar landbúnaðar­afurðir sem fluttar eru til landsins. Sindri segir að BÍ hafi strax komið því sjónarmiði á framfæri að innflutt smjör verði skilmerkilega merkt á neytendapakkningum Hins vegar sé það staðreynd að langflestar landbúnaðarvörur séu þegar fluttar inn án tolla. Þetta eigi til dæmis við um allt hveiti og kornvörur, pasta, hrísgrjón, sykur, matarolíur, ávexti og grænmeti. Þá verði að hafa í huga að íslenski markaðurinn sé viðkvæmur örmarkaður sem jafna megi við smáborg í Evrópu.
„Tollar eru liður í opinberri stefnu stjórnvalda gagnvart innlendum landbúnaði. Þeir eru lagðir á til að jafna samkeppnisstöðu íslenskrar búvöru­framleiðslu. Flestöll iðnaðar­samfélög hafa tollkvóta á landbúnaðar­vörum. Sem dæmi beita Evrópusambandið, Bandaríkin, Sviss og Noregur öll tollum til að hafa áhrif á viðskipti með búvörur og verð á innanlands­markaði. Eigi að síður er afar mikilvægt að fyrirtæki umgangist þessar reglur af virðingu og misnoti ekki kerfið,“ segir Sindri Sigurgeirsson.

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...